30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2129 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

15. mál, laganefnd

Einar Jónsson:

1 Þar sem hjer er að ræða um löggjöf og lögfræði, færi eflaust best á því, að löglærðu mennirnir í þessari hv. d. leiddu saman hesta sína, eins og þessar umr. byrjuðu með. En síðar hafa fleiri og ólöglærðir bætst í hópinn, og vona jeg, að mjer fyrirgefist, þó að jeg feti í fótspor þeirra.

Annars undrar mig á því, ef þetta mál er jafnnauðsynlegt og af er látið, að þá skuli hafa verið dregið svo lengi að skila því úr höndum hv. allshn. eins og raun ber vitni, því að enn hafa þó umr. ekki staðið um það nema einn dag. En þannig leitst mjer á þetta mál í upphafi, eins og raunar fleiri, að það hefði betur aldrei komið fram til þess að tefja fyrir störfum þingsins.

Fyrstu málin, sem tekin voru á dagskrá á þessu þingi, voru flest svo að efni til, að þau hefðu alls ekki þurft að koma fram. Tvö af þeim smábátaútvegi landsmanna til íþyngingar og hafta, og hið þriðja um aukin, ný og vafasöm embætti.

Þetta mál hefir nú verið í n. rúmar 7 vikur. Hvers vegna hefir það verið dregið svo á langinn, hafi hjer verið um nauðsynjamál að ræða, og hví er það þá ekki komið fyr til 2. umr.? Nú er mjer spurn, hvort það hafi verið með ráðnum huga gert, hvað langar umr. fóru fram um ýms mál við 1. umr. þeirra. Jeg man þó eftir nokkrum málum, sem rædd voru sjerstaklega lengi við 1. umr., en sem allar líkur benda til, að ekki eigi að stinga upp höfðinu aftur á þessu þingi. Þessi mál voru til dæmis: Vinnudómsfrumvarpið, sem rætt var í 4 daga, till. um rannsókn togaraútgerðarinnar, sem tók 3 daga, og verðfestingarfrv., eða stýfingin, sem tók 5 daga. Skyldi það nú verða verkefni þessarar löggjafarn. að koma í veg fyrir slíkar óþarfa málalengingar á komandi þingum? Jeg efast um það; hygg fremur, eins og margir hafa haldið fram, að n. verði máttlítil gegn mælgi einstakra þm. og óþörf með öllu.

Þó að jeg hafi nú hlustað á öll þau meðmæli, sem borin hafa verið fram um nauðsyn slíkrar n., þá get jeg samt ekki trúað, að starf hennar geri meira gagn en það vantraust á þingið, er hún kemur til með að fela í sjer. Því með lögtöku slíkrar n. setur Alþingi á sig argasta vantraust. Og hver finnur það hjá sjálfum sjer af hv. þdm., er ákveðna stöðu hafa, að hann vilji láta annan skipa sjer yfirráðamann ? Jeg hefi aldrei heyrt um þann bónda getið, sem hafi látið annan skipa sjer að taka ráðsmann til þess að segja fyrir verkum. Jeg hefi heldur aldrei þekt þann bónda, sem treysti ráðsmanninum betur en sjálfum sjer, þegar vanda ber að höndum. En, það er einmitt þetta, sem ætlast er til, að verði gert þegar frv. þetta er orðið að lögum. Þingið ætlar með þessu að skipa sjálfu sjer yfirráðamenn, svo að þm. hafi ekkert að gera.

Mjer datt í hug undir umr., hvort hæstv. dómsmrh. hefði borið þetta frv. fram fyrir þá sök, að hann er fyrsti ólögfróði maðurinn, sem skipar þann tignarsess, auk þess sem alkunnugt er, að hann er fljótfær í allri lagasmíð sinni og hefir hrúgað inn í þingið vitlausari frv. en dæmi eru til. Eða þá að hin væri orsökin, að einhverjir fylgispakir og auðsveipir flokksmenn hans hefðu kannske lítið að borða, og þyrfti því að bjarga þeim frá hungri með því að koma þeim á spenann hjá ríkissjóði. Hvorttveggja gæti verið hugsanlegt, og ekki hvað síst það síðarnefnda, þegar litið er á allan þann sæg nefnda, sem þessi hæstv. ráðh. hefir stofnað á rúmu ári og að því er virðist eingöngu vegna gæðinga sinna, sem launa þurfti gott brautargengi.

En ef hvorugu þessu er til að dreifa um framkomu þessa frv., heldur sje það álit hæstv. dómsmrh., að þm. sjeu yfir höfuð ekki vaxnir því starfi, er þjóðin hefir kjörið þá til, þá mundi jeg telja, að í óefni væri stefnt, ef þingið fjellist á slíka skoðun með því að samþ. frv. Jeg ætla ekki að trúa því fyr en jeg tek á, að bændur, sem sendir eru að heiman til þess að starfa að málum sveitanna á Alþingi, gerist þær mannleysur að verða undirtyllur nýrrar n., sem sett er þinginu til höfuðs.

En komist hún á þessi almáttuga n., þá má fullyrða, að þing og stj. er þar með óþarft orðið.

Þá hafa mjer fundist fullyrðingar hæstv. dómsmrh. um gagnsemi og óskeikulleik þessarar n. dálítið einkennilegar, þegar maður minnist ummæla hans um hæstarjett, sem fallið hafa bæði fyr og síðar. Engum dettur þó í hug að efast um, að dómarar hæstarjettar sjeu vel færir menn á sínu sviði. Eða dettur hæstv. ráðh. í hug að ætla, að val þessarar n. muni hepnast betur en val dómara hæstarjettar? A. m. k. kemur mjer ekki slík firra til hugar.

Í viðbót við það, sem talað hefir verið um frjálsræði bændanna í sambandi við þetta mál, þá vil jeg taka það fram, að mjer er ekki með öllu grunlaust um, að þeir bændur, sem sæti eiga í þessari hv. deild og leggja þessu frv. stuðning, geri það ekki af eigin hvötum, heldur vegna áhrifa annara. Að þetta sje ekki hugarburður einn, leiðir beinlínis af eðli málsins. Bændur, sem á þingi sitja og leggja þessu lið, þeir eru að afsala sjer sjálfstæði að verulegu leyti og gefa sig undir herradæmi annara. En slíkt brýtur algerlega í bága við eðli bóndans. Og ef þessi n. verður komin á laggirnar fyrir næsta þing, þá ganga hinir sömu þm., sem nú greiða þessu atkv. á Alþingi, á hið þúsund ára gamla löggjafarþing okkar, ekki sem frjálsir menn, heldur sem undirlægjur þeirra yfirráða, sem þeim ber nú að sporna við.

Jeg skal játa það, að frv. hefir tekið nokkrum bótum við þær breyt., sem n. hefir lagt til að gera á því. Aðalbreyt. n. er í 1. gr., þar sem setja á heimild fyrir beina skipun, þannig að lög þessi ber að skoða sem heimildarlög. En jeg verð nú að segja, að eins og málum er nú skipað og ef það verður núv. stj., sem fær þessa heimild, þá getur engum blandast hugur um, að það kemur út á eitt, hvort hjer er um skipun eða heimild að ræða. Jeg gæti þó greitt því atkv., að skipun væri breytt í heimild, en annars álít jeg það tæplega vansalaust að láta slíkt endemi komast lifandi í gegnum þingið. Jeg verð að vona það, að slíkt hendi ekki.

Þá þótti mjer alleinkennileg fullyrðing hjá hv. þm. Mýr., þegar hann sagði, að breyt. sú, sem við þetta yrði á aðstöðu þingsins, væri einungis að forminu til, en ekki að efni til. Hjer hefir hv. þm. gersamlega hausavíxl á hlutunum; breyt. verður mest að efni til, en miklu minna að formi. Það er margbúið að taka fram í þessu sambandi, að þinginu stendur ávalt til boða sjerfræðileg aðstoð færustu manna, hver í sinni grein, og því þá ekki að nota þessa aðstoð? Fyrst og fremst stendur þm. ávalt til boða aðstoð skrifstofustjóra Alþingis, sem er fær maður og vel hæfur til að leiðbeina þm. um mörg þau atriði, sem sjerstaklega skifta máli, svo sem form o. fl. Því næst eru fjölmargir sjerfræðingar úti um bæ, sem þingið hefir hingað til mjög leitað til, ef vantað hefir upplýsingar, sem að haldi gætu komið. í þessu sambandi má geta þess, að stj. hefir verið alvarlega mint á fyrir skömmu alt það nefndafargan, sem hún hefir hlaðið upp í kringum sig nú upp á síðkastið. Segja reikningsfróðir og greinagóðir menn, að þær sjeu nú orðnar nær 20 talsins. Alt eru þetta launuð störf, umfram það sem undanfarið hefir átt sjer stað. En alt er þetta til að gera stj. hægra um hönd, til þess að ljetta störfum af henni og koma þeim á aðra og láta ríkissjóð borga brúsann. Nú á að halda áfram á þessari braut; nú er röðin komin að Alþingi sjálfu. Það á að gera þinginu hægra um hönd með því að taka vald þess að verulegu leyti af því og fá í hendur þessari n., sem frv. gerir ráð fyrir. Afleiðingin af þessu verður sú, að þjóðin hættir að senda menn á þing. Virðingu þjóðarinnar fyrir Alþingi verður lokið, enda væri þingið einungis málamyndaþing að löggjöf og allri starfsemi. Ef þingið núna samþ. þetta frv., þá væri það því til háborinnar skammar, þjóðinni til lítilsvirðingar og stj. væri það vitni um ófært kæruleysi og ábyrgðarleysi. Jeg hefi enga ástæðu til þess að ætla, að núv. ráðh. sjeu óstarfhæfari eða latari menn en alment gerist. En hvað er það þá, sem knýr hæstv. stj. til þess arna? Skyldi það vera það, að hún þyrfti að fæða fleiri flokksmenn sína og koma þeim á spenann? Því að enginn skyldi láta sjer detta í hug, að það yrðu íhaldsmenn, sem fyndu þá náð fyrir augum hæstv. stj. að vera settir í þessa nefnd; það yrðu áreiðanlega einhverjir af gæðingum stj. Með því er þó alls eigi sagt, að það gætu ekki verið eins góðir menn, þrátt fyrir það, en þetta sýnir einungis hlutdrægni þá, sem stj. hingað til hefir oftsinnis gert sig seka í, og sem búast má við, hvert skifti sem tækifæri gefst.

Það hefir verið minst á þann mun, sem fram hefir komið á skoðunum hv. frsm. og hæstv. ráðh., og skal jeg játa, að hann er eigi lítill. Jeg skal þó geta þess, hv. frsm. til verðugs hróss, að skoðun hans er þó skömminni til betri en skoðun hæstv. dómsmrh. En annars vildi jeg segja hv. 2. þm. Rang. það í fullri alvöru, að jeg verð þá ekki ofar moldu við næstu þingkosningar, ef jeg sje ekki svo um, að mitt kjördæmi sendi ekki þann mann á þing, sem lætur hafa sig til slíkra verka.