30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

15. mál, laganefnd

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg þarf að svara hv. 1. þm. Skagf. nokkrum orðum, þar sem hann vjek að húsbyggingum mínum og vildi reyna að finna þar eitthvað máli sínu til stuðnings. Jeg skal þá upplýsa hv. þm. um það, að jeg hefi bygt hús sjálfur og ákveðið fyrirfram gerð þess og lögun í aðaldráttum. En til þess að laga formshlið þess og til þess að gera teikningar og koma samræmi á bygginguna, fjekk jeg sjerfróðan mann, og að lokum varð húsið alveg eins og jeg vildi vera láta. Hann var verkinu vanur, og jeg sá fram á það, að með þessu móti yrði verkið í heild sinni ódýrara og þó um leið haldbetra og fullkomnara. Jeg hefði að vísu getað komist af án aðstoðar hans, en jeg kaus þennan kostinn heldur af skiljanlegum ástæðum.

Út af því, sem hv. 1. þm. Rang, sagði um það, að þeir bændur, sem þessu frv. fylgdu, væru að svifta sig sjálfstæði og gefa sig undir yfirráð annara, þá vil jeg svara honum hinu sama og hv. 1. þm. Reykv., að þeir hafa báðir fengið menn til að aðstoða sig við verk án þess að afsala sjer að nokkru leyti fullveldi yfir þeim málum. En að við, sem þessu máli fylgjum, sjeum fremur „undir áhrifum“ en þeir, sem á móti því snúast, um það geta kunnugir dæmt.