30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

15. mál, laganefnd

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Mjer þykir leitt, að nú skuli vera orðið svo áliðið dags, að maður skuli þurfa að eyða matmálstímanum í að ræða um þetta mál, en hjá því verður sennilega ekki komist, og tel jeg engin líkindi á því, að jeg komist af með minna en hálftíma ræðu.

Jeg vil þá fyrst snúa mjer að hv. 1. þm. Rang. Hann talaði svo um þetta frv., að engu var líkara en um beinan háska væri að ræða. Hann brigslaði okkur fylgismönnum málsins um, að við værum undir áhrifum, en jeg vildi þá biðja hann að stinga hendi í sjálfs sín barm og reyna að gera sjer grein fyrir, af hvaða rótum andstaða hans gegn málinu er runnin. Hv. þm. hafði í hótunum, að hann skyldi sjá svo til, að Rangæingar kysu mig ekki á þing næst, ef jeg ekki fjelli frá þessu máli. En jeg læt mig nú litlu skifta hótanir þessa hv. þm.; jeg skal einungis benda honum á, að 1919 bauð jeg mig fram í Rangárvallasýslu, og með sem eitt af aðaláhugamálum fyrir augum að fá unnið að því að ráða bót á hinu bagalega missmíði og mistökum á löggjafarstarfsemi vorri. Þá fóru nú svo leikar, að jeg hlaut nærfelt tvöfalt hærri atkvæðatölu en sá, sem næstur var, og meira en helmingi hærri atkv.tölu en hv. samþm. minn fjekk.

Jeg get verið stuttorður viðvíkjandi ræðu hv. 1. þm. Skagf. Hann er vanur að halda sjer við efnið, og auk þess er hann nú „dauður“, að því jeg best veit. Hann áleit, að það væri skylda stj. að leita til n., en þessi skoðun hans er á misskilningi bygð. Jeg skal nú koma með veigamiklar upplýsingar viðvíkjandi gagnsemi þessa máls. Mesta löggjafarþjóð Norðurlanda, Svíar, hefir um nokkurt skeið haft þessa tilhögun. Eins og hv. þdm. mun vera kunnugt, hefir próf. Ólafur Lárusson samið þetta frv. fyrir stj., og mun hann hafa sniðið það einkum eftir hinni sænsku löggjöf. Ganga Svíar öllu lengra en frv. gerir ráð fyrir. Þeir leggja þm. blátt áfram þá skyldu á herðar að leggja hvert einasta frv. fyrir laganefndina. Jeg get ekki betur sjeð en að hjer sje um ekki óverulegar upplýsingar að ræða, enda býst jeg ekki við, að hv. þdm. taki mig og próf. Ólaf Lárusson sem ósannindamenn að þessu. (MG: Hve lengi hefir nefndin starfað?). Jeg veit það ekki gerla, en jeg hygg það sjeu þegar liðin allmörg ár, síðan tilhögun þessi var tekin upp.

Þá hneyksluðust bæði hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Skagf. á því, að jeg talaði um, að n. yrði hlutlaus og að til mála gæti komið, að skrifstofustjóri Alþingis tæki sæti í henni. Það kann nú að vera, að einstöku þm. hafi beðið skrifstofustjóra að búa til og semja lagafrv. fyrir þá, enda álít jeg það alveg ósæmilega áníðslu á skrifstofustjóra, sem hlyti að glepja hann frá skyldustörfum sínum, ef slíkt væri alment gert. (MJ: Á þá að hætta að nota skrifstofustjóra?). Hv. 1. þm. Reykv. ætti að skilja, að þetta er ekki skyldustarf skrifstofustjóra, enda vita allir, að hann hefir nógum öðrum störfum að gegna. Auk þess á n. að starfa á milli þinga og hefir þá meðal annars með höndum að semja og undirbúa frv. fyrir ríkisstj. En við þetta ætti að öðru leyti að minka til muna undirbúningskostnaður stjórnarfrv., og ef skynsamlega er á haldið, ætti það að geta orðið til þess að stytta þingið. Hv. 1. þm. Skagf. talaði um annríki þm. undir þinglokin, og er það rjett athugað, en þá einmitt er það, sem mest verða mistökin í löggjafarstarfsemi okkar Íslendinga. Þessu á nefndin að ráða bót á.

Jeg skal nú vera stuttorður í svari mínu til hv. þm. Dal.; hann er nú „dauður“ í þessu máli, svo að jeg mun reyna að haga svo orðum mínum, að hv. þm. gefist lítil ástæða til andsvara. Hann brýndi hæstv. dómsmrh. til þess að halda sjer betur við efnið í ræðum sínum. Jeg get tekið undir þetta, en hv. þm. hefði þá sjálfur átt að breyta eftir þessu heilræði. En það gerði hann ekki. „Það, sem hann varast vann, varð þó að koma yfir hann“, segir í passíusálmunum. Hann kom sjálfur nauðalítið inn á kjarna þessa máls, nema að því leyti, sem jeg hefi marghrakið í fyrri ræðu minni. Hvað það atriði snertir, að n. þessi eigi að hafa skapandi áhrif á löggjafarstarfsemina, þá er þetta rangfærsla á ummælum okkar, sem frv. fylgjum. Fyrir mitt leyti legg jeg aðaláhersluna á það, að n. eigi að bæta úr formgöllunum og veita þingi og stj. aðstoð á því stigi.

Yfirleitt var síðasta ræða hv. þm. Dal. ágæt sem tilfinningaræða, sem átt hefði að haldast í Dölum, en kom lítið inn á efnið sjálft. Þó verð jeg að andmæla þeim ummælum hv. þm., að n. eigi að hafa áhrif á þingið og löggjafarstarfsemi þess um leið. Það er allsvæsin vantraustsyfirlýsing á þinginu, ef gefið er í skyn, að það geti ekki afstýrt slíku.

Jeg kemst ekki hjá því að svara hv. 1. þm. Reykv. nokkrum orðum, en mun haga orðum mínum á þann veg, að hann þurfi ekki miklu að svara. (MJ: Jeg er „lifandi“). Jæja, það er ágætt, en jeg er líka lifandi, ef á þarf að halda. Hann talaði um, að það væri viðvaningslegt að setja löggjöf um þetta efni. Jeg álít slíkt þvert á móti ótvírætt þroskamerki, að leitað sje til hæfustu manna bæði um formhlið löggjafarinnar og málhlið hennar. Hv. þm. mintist á, að þetta hvorttveggja væri í sjálfu sjer nauðsynlegt. Því þá ekki að fá tvo hæfa menn, annan með formþekkingu og hinn með málþekkingu. Við erum hjer óneitanlega nálægt hvor öðrum. Hann vill aðeins fara aðra leið; hann vill hafa sjerstaka menn til slíkra starfa, en að hafa sjerstaka n. til þess, það er honum mikill þyrnir í augum. Þetta kom greinilega fram í ræðu hans. Hv. þm. hjelt því einnig fram, að undirbúningi laga væri eins vel borgið í höndum eins sjerfróðs manns eins og í höndum þessarar n. Þetta er ekki rjett. Betur sjá augu en auga í þessu tilfelli sem öðrum. Enginn lögfræðingur er svo góður, að ekki sje tryggara að hafa fleiri með í ráðum. Þá sagði sami hv. þm., að þetta yrði til þess að spilla löggjöfinni. Þetta er öfugmæli, enda hefi jeg hrakið það áður hjer við umr. N. hlýtur að verða til þess að sníða mestu ágallana af löggjafarstarfsemi okkar, og er þess full þörf. Sem dæmi þess get jeg nefnt það, að á þessu þingi hefir komið fram frv. um að leiðr. villu í lögum frá 1927 um bifreiðatryggingar, þar sem svo var vaxið, að ekki var hægt að tryggja bifreiðar eins og gr. laganna var orðuð.

Þá sagði sami hv. þm., að hjer væri farið fram á einveldi í löggjafarstarfinu. (MJ: Einokun). Hann sagði nú einveldi, en það má vel vera, að hitt hafi vakað fyrir honum. Annars er þetta atriði marghrakið, svo jeg eyði ekki tíma í að tala um það.

Hv. þm. talaði um, að stj. myndi ekki leita til sjerfræðinganna, eftir að n. þessi væri komin á laggirnar. Sömuleiðis talaði sami hv. þm. um nefndina sem „humbug“. Það eru óneitanlega hörð ummæli um þá færustu lögfræðinga, einn eða tvo, sem í n. væru valdir.

Þá er að lokum kostnaðarhliðin. Hv. þm. viðurkendi, að ef n. þessi væri til bóta, þá væri ekkert í kostnaðinn horfandi. En nú hefir verið sýnt fram á með óyggjandi rökum, að n. þessi yrði til ómetanlegs gagns, ef vel væri á haldið. Hún myndi vinna að meira samræmi í löggjöf vorri, vinna að undirbúningi lagafrv. og þingmála alment, og að líkindum verða til þess að stytta þingið til verulegra muna.

Jeg vonast til þess, að jeg hafi ekki orðið til þess að teygja umr. um málið. Jeg hefi hagað orðum mínum svo kurteislega, að jeg býst ekki við, að menn finni sjerstaklega ástæðu til að þvæla málið meira en þegar er búið. Annars skal jeg geta þess, að enn er jeg ekki „dauður“ sem frsm.