04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

15. mál, laganefnd

Sigurður Eggerz:

Við 2. umr. þessa máls beindi jeg fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., en þar sem hann er fjarstaddur nú, mun jeg ekki fara nánar út í það mál. Jeg vil aðeins, úr því að jeg er staðinn upp, mæla með brtt. hv. 1. þm. Reykv., sjerstaklega vegna þess, að hún dregur úr útgjöldum þeim, er þetta frv. hefir í för með sjer.

Þá hefir hv. 2. þm. Árn. lýst því, hvað hann meinti með ummælum sínum um „skapandi kraft“ í n. Jeg skal ekki fara neitt út í þá skýringu, sem hann gaf, en ærið virðist mjer hún loðin.

Annars væri gaman að vita, hvernig slík n. hefði haft áhrif á þetta þing. öllum kemur saman um það, að á þessu þingi hafa smámálin verið mest rædd, en stóru málin, eins og t. d. vinnudómurinn o. fl., hafa verið að gægjast inn á dagskrá við og við, en sárlítið komið til umr.

Hefði nú slík n. getað bætt úr þessu? Eftir síðasta skilningi hv. 2. þm. Árn. hefði n. engin áhrif haft í því efni. Annars hefir það verið tekið rækilega fram, að þessi n. er hinn mesti hjegómi og til einskis annars en aukins kostnaðar. Og nú er svo komið, að þeir, sem málinu voru fylgjandi í upphafi, óska þess, að þessi n. hafi sem minst að segja. Væri því vel, ef þeir gætu snúist að fullu og greiddu allir atkv. gegn þessu máli, því að þá hefði það hlotið þau úrslit, er því væru makleg.