04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

15. mál, laganefnd

Einar Jónsson:

* *Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg ætla ekki að tefja umr. þessa máls með því að þrátta við hv. samþm. minn (GunnS). Af hlífð við hv. þm. hefi jeg ekki viljað minna hann á, á hvern hátt hann komst inn í þingið. Hv. þm. var kosinn á þing í Rangárvallasýslu vegna þess, að hann þóttist vera flokksleysingi. Nú gortar hann af því, að hann sje það ekki lengur, og það bregst aldrei, að hann fyllir flokk stj. og snýst öndverður gegn mjer. Jeg skyldi virða hv. þm. meira, ef hann hefði kjark í sjer til þess að viðurkenna, að hann tilheyrði þessum flokki. Og það segi jeg hv. þm. í fullri alvöru, að fylgi hann stj. í þessu máli, verður hann ekki oftar kosinn af Rangæingum á þing, því að þetta mál er bæði þingi og stj. til skammar, og öllum þeim, sem að því standa. (LH: Það eru fleiri en framsóknarmenn, sem fylgja þessu máli). Hv. þm. V.-Sk. er ekki ennþá, sem betur fer, búinn að færa svo út kvíarnar með kaupfjelagsskapinn og samvinnuna, að hann fái Rangæinga til þess að fylgja stj. blint að málum, a. m. k. fær hann mig ekki til þess. Og hv. þm. munu sjá, þótt síðar verði, hvað þeir hafa gert, ef þessi n. verður skipuð, því að það mun koma að því, að hún svifti þm. alla ráðum og dáð og dragi úr áhrifum þingsins, enda er þetta það hastarlegasta mál, sem jeg man eftir síðan jeg kom hingað á þing, fyrst fyrir 20 árum. Og jeg skil ekkert í því, að hv. þm. V.-Sk., sem ætíð hefir reynst dugandi við störf þingsins, skuli geta fallist á skipun þessarar n. Grunur minn er sá, að hann og fleiri beygi sig hjer fyrir hinum stranga flokksaga, því að jafngreindir menn og hann hljóta að sjá, hvert stefnir.