10.05.1929
Efri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

15. mál, laganefnd

Jón Þorláksson:

Jeg hefi skilið það svo, sem þetta væri stjfrv., og hefði þess vegna búist við því, að hæstv. stj. mundi gera þd. einhverja grein fyrir nauðsyn þess. Frv. kemur mjer þannig fyrir sjónir, að það sje eða ætti að vera eitt af því minst nauðsynlega, sem gert hefir verið á seinni árum til þess að fjölga embættis- og starfsmönnum landsins.

Það er gert ráð fyrir að skipa þrjá menn, þar af tvo lögfræðinga a. m. k., til þess að vera ríkisstj., alþm., þingnefndum og milliþinganefndum til aðstoðar og leiðbeiningar um samningu frumvarpa, samræmingu laga og annan undirbúning við lagasetningu. — Jeg hefi ekki orðið var við það, að alþm. væru í neinum vandræðum með að koma með sínar till. hjer á þingi, og því síður þingnefndir, því að þær geta jafnan kvatt sjer til aðstoðar þá, sem þeim þykir best henta. Sama er að segja um mþn. Þeim er fengin sú aðstoð, sem þær þurfa með, einkum eftir að farið er að tíðkast í tíð hæstv. núv. stj. að skipa ekki nefndir þannig, að þær hafi innan sinna vjebanda þá krafta, sem þær þurfa á að halda, en það var siður áður. Aðalverkefni þessarar n. skilst mjer eiga að vera það, að ljetta af ríkisstj. æðimiklu af því verki, sem hingað til hefir hvílt á hennar herðum. Það getur engum manni dulist, sem hefir fylgst með þingstörfum eins og þau hafa verið leyst af höndum alt fram til síðustu ára, að það var yfirleitt gerð sú krafa til landshöfðingjans, á meðan hann var, en til ráðherranna þar á eftir, að þeir væru þinginu til leiðbeiningar um alt það, sem gæta þyrfti til þess að lagasmíðin færi vel úr hendi. Þar fyrir utan var gerð sú krafa til stjórnanna, að þau frv., sem þær ljetu frá sjer koma sem stjfrv., væru óaðfinnanleg að því er formið snerti; um efnið gat náttúrlega orðið ágreiningur eins og um hvað annað.

Það er nú ekki hægt að neita því, að þessi síðustu árin er sú tilfinning orðin mjög ríkjandi, að þetta verkefni ráðherranna sje nú miklu miður rækt en áður var. Þess verður satt að segja lítið vart, að ráðherrarnir sjeu nefndum þingsins eða þingdeildunum til þeirrar aðstoðar, sem áður var krafist; og að því er stjórnarfrumvörpin snertir, þá er það nú orðið svo allra síðustu árin, að það er ekki nokkur trygging fyrir, að sómasamlegur frágangur sje á lagafrv. frá formsins hlið, þótt þau komi fram sem stjfrv. eða sjeu flutt að tilhlutun stj. og samin af henni. Að því leyti má náttúrlega segja, að í því frv., sem hjer liggur fyrir, felist viðurkenning frá núv. stj. á því, sem alment er orðið viðurkent af öðrum, að henni hafi, það sem af er, tekist alveg sjerstaklega illa að fullnægja rjettmætum kröfum, er áður voru gerðar til stjórnanna að því er snertir beina og óbeina þátttöku í lagasmíð, beina með forsvaranlegum frágangi á stjfrv., og óbeina með að vera til taks til ráðlegginga fyrir þingdeildina til þess að hindra, að ósamræmi eða missmíðar komist inn í löggjöfina. Jeg lít þá svo á, að fyrst og fremst ætti það að vera aðalstarf þessara manna að bæta úr því, sem áfátt er hjá hæstv. núv. stj., enda segir svo í frv., að þeir skuli fyrst vera stj. til aðstoðar um samningu stjfrv. og svo þinginu. Náttúrlega getur það ekki annað en glatt stjórnarandstæðing eins og mig, að viðurkenning á þessu skuli vera orðin svo almenn, að hæstv. stj. sjálf gengst fyrir því að flytja frv. um stofnun þriggja manna n. til þess að hjálpa ráðherrunum til þess að inna af hendi ráðherrastörfin. Í mínum augum er í þetta ekkert annað en þrír aðstoðarráðherrar, sem taldir eru nauðsynlegir til að bæta úr því, sem núv. stj. er svo átakanlega áfátt með. En jeg lít ekki svo á, að löggjöfin eigi með lagasetningu að miða svo fast við það, þótt bágborið ástand sje um tiltekinn tíma um einhver þannig löguð málefni, álít, að ekki eigi að heimila með lögum að kveðja til þrjá aðstoðarráðherra, þótt í rauninni megi viðurkenna, að þeirra sje þörf rjett eins og stendur.

Þá ætlar frv. þessari n. annað verk, það, að gefa út íslensk lög, og á að leysa þá útgáfu af hendi á ríkisins kostnað. — Það er sjálfsagt gott og þarft verk, ekki síst eftir þá hálfgerðu óreglu, sem komin er á samningu laga hjer á síðustu árum, til þess að almenningur eigi kost á að fylgjast með í því, hver lög gilda, en ýmislegt svipað þessu hefir verið framkvæmt hjer áður án þess að þurft hafi að setja á stofn til þess sjerstaka n. með háum launum. Það hefir verið gefið út fullkomið lagasafn, sem jeg ætla, að nái til ársins 1909; síðan hefir verið farið að gefa út safn af gildandi lögum, en jeg held, að sú útgáfa hafi stöðvast hálfgerð, vegna þess að þingið neitaði um styrk til útgáfunnar, sem áreiðanlega ekki nam nema litlu broti af þeim fjárhæðum, sem hjer er farið fram á að eyða í þessu skyni. Þá má og geta þess, að ef þörf þætti að annast þessa útgáfu af ríkisins hálfu, þá eru við hendina 3–4 bókaútgáfufjelög, sem ríkið styrkir. Ef endilega þykir þörf á, að ríkið fari að blanda sjer í slíkt verk, þá sýnist mjer nær að brúka til þess einhverja af þeim stofnunum, sem ríkið nú styrkir og hafa alla aðstöðu til að geta framkvæmt þetta án þess að þurfa að bæta við nýjum starfsmönnum. Jeg sje heldur ekki, með tilliti til þessa síðasta verkefnis nefndarinnar, hversu gagnlegt sem það er, að það ætti að vera nauðsyn á slíkri lagasetningu sem þessari.

Jeg býst við fyrir mitt leyti, að jeg geti setið hjá við atkvgr. um þetta mál við 1. umr. þess, en vildi beina þessum ummælum mínum til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, og leggja henni þetta á hjarta: Að fyrri hluti frv. er ekkert annað en auglýsing fyrir alþjóð um þörf á umbótum á núv. stj., en það er þingsins að sjá fyrir því á annan hátt en með þessari lagasetningu. Seinni hlutinn er að vísu úrlausn á allmikilsverðu verkefni, en það eru aðrar leiðir miklu nær hendi og hagkvæmari til þeirrar úrlausnar.