29.01.1930
Neðri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í C-deild Alþingistíðinda. (1005)

28. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Flm. (Jón Sigurðsson):

Frv. þetta er að mestu leyti samhljóða frv. því um sama efni, sem lagt var fyrir Ed. á síðasta þingi. Meiri hl. þeirrar d. hefti framgang málsins að því sinni með því að vísa því til stj. Af umr. um málið virðist mega draga þá ályktun, að í hópi þeirra manna, er stóðu að því að vísa frv. til stj., hafi verið menn, er óskuðu, að stj. gerði eitthvað fyrir þetta mál. Nú er þing komið saman að nýju, og hafa þegar verið lögð fram stjfrv., en ennþá bólar ekkert á neinu í þessa átt. Við flm. þessa frv. töldum það því skyldu okkar að flytja það að nýju til þess að gefa Nd. einnig tækifæri til að segja álit sitt um málið.

Á undanförnum árum hafa ekki allfá heimili komið sér upp raforkustöðvum til heimilisnota. Stöðvar þessar eru misstórar, um 4–6 hestöfl, og kosta venjulega 3–10 þús. kr.; þó hefir þessi kostnaður orðið allmiklu hærri á stöku stöðum. Venjulega eru stöðvarnar svo stórar, að heimilin fá nægilegt afl til ljósa, matreiðslu, nauðsynlegrar upphitunar og til smáiðju, ef tæki eru til að notfæra sér aflið á þann hátt.

Ég hefi komið á heimili, bæði áður og eftir að þar hefir verið komin rafstöð, og munurinn var svo mikill, að mér fannst það eins og annað heimili. Þó býst ég við, að heimilisfólkinu hafi fundizt munurinn enn meiri.

Bændur, sem varið hafa 6–8 þús. kr. í þessu skyni, hafa sagt við mig, að það væri sízt ofborgað. Þeir sæju ekki eftir því, og húsmæðurnar hafa verið á einu máli um það, að þetta væri bezta umbótin, sem hægt væri að veita heimilunum. Þannig hljóðar yfirleitt dómur allra þeirra, er reynt hafa. Enn er engin reynsla fengin fyrir endingu þessara smástöðva. Erlend reynsla mun þó benda í þá átt, að þessar stöðvar séu fremur endingarlitlar, og hafa þær verið lagðar niður, jafnóðum og samtök fengust um stærri virkjun. En þó að Íslendingar tækju ekkert tillit til þessarar erlendu reynslu og byggðu eingöngu úrlausn þessa máls á því að koma upp heimilisstöðvum, eins og harðvítugasti andstæðingur þessa máls í Ed. í fyrra, dómsmrh., hélt fram að væri hin eina rétta stefna í þessu máli, þá hlýtur hver maður að reka sig á það, að fjöldamörg býli víðsv. á landinu eru þannig sett, að þau eiga engan kost á vatnsafli, sem hægt sé að hagnýta til þess að koma upp heimilisstöðvum. Í sléttlendum eða þurrviðrasömum héruðum eru heilar sveitir, þar sem ekki er hægt af þessum ástæðum að koma upp einni einustu heimilisstöð. Í öðrum sveitum eru það kannske aftur einn, tveir, þrír eða fjórir bæir, þar sem slíku verður við komið. Það er einnig augljóst mál, að eftir því sem þeim býlum fjölgar, sem koma sér upp heimilisstöðvum, aukast að sama skapi örðugleikarnir á því að koma upp samvirkjun, er sæi þeim heimilum fyrir rafmagni, er enga aðstöðu hafa til þess að koma sér upp heimilisstöðvum.

En hvað á þá að verða um öll þessi heimili? Eiga þau um aldur og æfi að verða dæmd til að fara á mis við þann hagnað og þau lífsþægindi, sem raforkan getur skapað þeim?

Ég segi nei. Slíkt nær ekki nokkurri átt. Aðaltilgangur þessa frv. er fyrst og fremst sá, að rétta þeim sveitum eða héruðum hjálparhönd, er lítinn eða engan kost eiga á afli til heimilisvirkjunar, svo að bændur geti fengið raforku með kleifum kostnaði. Í öðru lagi að gefa héruðum kost á að fá rannsökuð skilyrðin til samvirkjunar, svo að ekki sé hrapað að kostnaðarsömum heimilisvirkjunum, þar sem svo hagar til, að góð skilyrði eru til samvirkjunar. Loks er tilgangur frv. sá, að tryggja það, að ekki sé ráðizt í samvirkjun, fyrr en fram hefir farið fullnaðarrannsókn á hverjum stað.

Nú er svo háttað þar, sem ég þekki til, að eldsneyti, sem bændur almennt nota, er víðasthvar mjög dýrt. Mór er t. d. víða dýrt eldsneyti, ef miðað er við hitagildi hans, auk þess hafa margar sveitir ekkert eða mjög lélegt mótak. Kolin eru einnig dýrt eldsneyti, þegar búið er að flytja þau langt upp í sveit.

Mér hefir verið skýrt frá því, að með núverandi kolaverðlagi hafi smálestin komizt upp í 100 kr. eða þar yfir. Sauðataðsbrennsluna þekkja allir. Hún er mjög dýr, ef miðað er við áburðargildi sauðataðsins og sívaxandi þörf bænda á auknum áburði vegna útgræðslunnar. Í stað sauðataðsins verða þeir að kaupa tilbúinn áburð frá útlöndum fyrir stórfé. Bændur borga þannig útlendingum árlega mikið fé fyrir að brjóta kol og búa til tilbúinn áburð, í stað þess að láta fossana okkar framleiða orku, er losaði bændur við sauðataðsbrennsluna og kolakaupin.

Annað er það þó, sem rekur enn meira eftir þessu máli. Það er fólksleysið í sveitunum. Vinnandi fólki í sveitunum fækkar nú með hverju ári sem líður; víða er nú svo komið, að jafnvel á allstórum jörðum er nú ekki annað eftir en bóndinn og húsfreyjan, oft með hóp af ungbörnum. Þeir einir, sem eru þessu nákunnugir, geta gert sér í hugarlund, hvaða starf það er, sem hvílir á þessum konum. Það er látlaust strit frá morgni til kvölds, án þæginda eða hjálparmeðala. Og þrátt fyrir það verður fjölmargt ógert, sem nauðsynlega þyrfti að gera, af því að þær anna ekki störfunum. Sveitakonurnar eru líka farnar að bera þessa merki. Þreyta og áhyggjur slíta kröftum þeirra og starfsþoli löngu fyrir aldur fram.

Á síðustu áratugum hefir verið unnið að því að bæta aðstöðu bændanna með því að slétta túnin, nota vélar og hestafl við ýmsa útivinnu, girða löndin, færa saman hin dreifðu peningshús og byggja við þau hlöður. Þessar umbætur létta mjög starf bóndans og gera honum miklu léttara fyrir að komast yfir að inna af hendi útiverkin en áður var.

Öðru máli er að gegna með innanbæjarstörfin. Á því sviði situr flest í sömu skorðum og fyrir 20 árum, að öðru leyti en því, að nú er húsmóðirin ein um það verk, sem áður var ætlað 2–3 konum. Um nokkurt skeið hefir hið opinbera beint eða óbeint stutt flestar þær umbætur, er þegar hafa verið taldar, með fjárframlögum eða lánum eða hvorutveggja. Það er þess vegna kominn tími til þess að rétta sveitakonunum hjálparhönd, en það verður á engan hátt betur gert en þannig, að stuðla að því, að sem flestum heimilum á landinu sé gert kleift að njóta þess hagræðis, er raforkan veitir, enda er það samhuga álit allra þeirra húsmæðra, sem ég hefi átt tal við og kynni hafa haft af rafmagnsnotkun, að ekkert mundi betur létta þeim störfin og gera þeim kleift að koma nauðsynjaverkum áfram en notkun rafmagns til heimilisþarfa. Auk þess er það ekkert vafamál, að almenn rafmagnsnotkun mundi umskapa heimilin, gera þau vistlegri og ánægjulegri og eiga drjúgan þátt í því að halda unga fólkinu kyrru í sveitunum. Auk alls þessa, er hér hefir verið nefnt, getur rafmagn haft stórkostlega þýðingu fyrir bóndann, ef það er sett í samband við ýms vinnusparandi tæki.

Því var haldið fram í umr. í Ed. um þetta mál í fyrra, að það væri ofvaxið fjárhag ríkissjóðs að leggja fram það fé, sem frv. gerir ráð fyrir að verði varið í þessu skyni. — Meiri hl. fjhn. Ed., sem var andvígur frv., taldi, að tillag ríkissjóðs samkv. því mundi nema rúmum 11 millj. kr., ef koma ætti rafmagn heim á hvert heimili á landinu.

Mér ofbýður ekki þessi upphæð, þegar ég lít á þörf sveitanna í þessu efni og þá blessun, sem af þessu mundi leiða fyrir þær, og hinsvegar þegar að því er gætt, hvert óhemju fé þjóðinni hefir reynzt kleift að leggja fram til verklegra framkvæmda á undanförnum árum. Auk þess er óhætt að gera ráð fyrir því, að ýmsum heimilum muni henta betur heimavirkjun, vegna sérstakra staðhátta. Þess gengur enginn dulinn, að það mundi taka langan tíma að koma rafmagni um land allt, en því fyrr, sem byrjað er á því verki, því fyrr ætti því að verða lokið.

Það er vert í þessu sambandi að athuga, hversu nú stendur á um þær verklegu framkvæmdir í landinu, er ríkið leggur fé til. Samkv. skýrslu vegamálastjóra verður nú á næstu árum lokið við að byggja hinar stærstu brýr á fjölförnum vegum, en til brúargerða er nú árlega varið svo hundruðum þúsunda kr. skiptir. — Nú er verið að ljúka við að leggja langlínu um land allt, jafnframt því sem árlega er lagt mikið af héraðslínum. Mætti því fullkomlega gera ráð fyrir, þótt eftirleiðis yrði reynt að uppfylla kröfur héraða um símalagningar og brúargerðir á svipaðan hátt og nú er gert, að þá mundi á þessum liðum verða afgangs nokkurt fé, miðað við það, sem nú er árlega lagt fram, sem mætti verja til raforkuveitna í sveitum. Einnig má geta þess, að bráðlega er útrunnið það tímabil, sem ákveðið er, að ríkissjóður leggi Landsbankanum til 100 þús. kr. á ári, og mætti því einnig nota þetta fé í áðurgreindum tilgangi.

Loks má geta þess, að árlega eru greiddar stórar upphæðir úr ríkissjóði, bæði samkv. fjárl. og ekki sízt utan fjárl., sem tvímælalaust verður að telja mörgum sinnum betur varið til raforkuveitna í sveitum en að nota þær á þann hátt, sem nú er gert. Það er þess vegna augljóst mál, að þótt frv. þetta yrði að lögum, þá mundi árlega verða hægt að verja allmiklu fé til þessara framkvæmda, ef vel væri haldið á fé ríkissjóðs. Þetta yrði hægt að gera án þess að auka skattabyrði landsmanna eða standa í vegi fyrir öðrum verklegum framkvæmdum eða stuðningi við atvinnuvegina. Hér liggur þess vegna fyrir að taka ákvörðun um það, hvort einhverju af fjármagni ríkissjóðs eigi að beina inn á þessa braut.

Að svo mæltu legg ég það til, að frv. verði vísað til fjhn., sem var sú n., sem fjallaði um málið í hv. Ed. í fyrra.