20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

1. mál, fjárlög 1931

Benedikt Sveinsson:

Herra forseti! Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þær fáu brtt., sem ég hefi borið fram.

Sú fyrsta er á þskj. 302, II. liður, um að veita Unni Vilhjálmsdóttur sjúkrastyrk,1.000 kr. Alþingi hefir áður veitt þessari kennslukonu styrk til að leita sér heilsubótar erlendis. Fór hún til Svíþjóðar og kom þá albata heim aftur. Svo veiktist hún á ný af landfarsótt í haust og er ekki vinnufær síðan. En ef hún fengi góða aðhlynningu til hausts, hefir hún von um að fá algerðan bata: Ýmsir hv. þm. eru þessari konu eins kunnugir og ég og vita, hvað hún hefir mikla þörf fyrir þennan styrk.

Þá flyt ég brtt. XI. á sama þskj., um að hækka fjárveitinguna til nýrra vita. Til þeirra hafði hæstv. stj. ekki ætlað nema 50 þús. kr. í fjárlfrv., og er það lítið, samanborið við þær tekjur, sem ríkissjóður hefir af vitagjöldunum. Hv. fjvn. hefir þó hækkað þennan lið upp í 80 þús. kr., en vitamálastjóri vill láta hækka hann meira. Hann telur mesta nauðsyn á að reisa vita á Glettinganesi, en þar næst telur hann mesta þörf þeirra vita, sem nefndir eru í brtt. minni. Ég hefi átt tal við vitamálastjóra, og telur hann ekki hægt að reisa nema Glettinganesvitann, ef ekki sé hækkuð fjárveitingin, en með þeirri fjárveiting, sem ég fer fram á, megi reisa þessa tvo vita. Hann telur og betra að reisa Raufarhafnarvita og Sauðanesvita samsumars, því að þá er hægt að nota sömu verkamennina við báða, og flutningur til þeirra yrði ódýrari, ef flutt væri til beggja í einu, því að skammt er á milli þeirra. Ekki geri ég þó svo mikið úr þessu, að ég vilji ekki heldur annan þessara vita á næsta ári en hvorugan, og er þá meiri nauðsyn á vita við Raufarhöfn, sem er albezta höfn á Norðausturlandi, eða allt frá Akureyri til Seyðisfjarðar. En innsiglingin þangað er nokkuð varasöm; en enginn viti nálægt, nema á Rifstanga. Sjósókn er allmikil frá Raufarhöfn; þar er síldarsöltun og síldarbræðsla, sem að vísu er einkaeign nú, en mun verða eign ríkisins á næstu árum, og um síldveiðitímann er oft mikil síldarganga þar úti fyrir. Hinsvegar er ströndin umhverfis fremur lág og illt að finna höfnina í dimmu; kemur oft fyrir þar, eins og á Siglufirði, að skip verða að liggja tímunum saman úti fyrir í þoku og dimmviðri, af því að þau treysta sér ekki að rata inn á höfnina; sjá allir, hvað slíkt veldur miklu tjóni, þegar uppgripasíldveiði er. Má því alls ekki draga að reisa þennan vita.

Hinn vitinn, sem nefndur er í brtt. minni, er við innsiglinguna á Þórshöfn. Þaðan er ekki eins mikil útgerð stunduð, og mætti sá viti því frekar bíða eitt ár, þótt hans sé einnig mikil þörf.

Fáar framkvæmdir eru nauðsynlegri en þær að koma upp vitum. Er það hvorttveggja, að þeir tryggja mjög samgöngur og fiskveiðar og svo er sízt að gleyma því öryggi, er þeir veita lífi sjófarenda.

Nú hefir hæstv. atvmrh. lýst yfir því, eftir viðtal við vitamálastjóra, að hana treystist til að láta reisa Raufarhafnarvita fyrir það fé, sem búið er að taka upp í fjárlfrv., Og þar sem hæstv. ráðh. lýsir því afdráttarlaust, að þessi viti verði reistur að sumri, þó að brtt. verði ekki samþ., þá er mér ekki kappsmál, að hún, komi til atkv. Með þessum formála og skírskotun til yfirlýsingar hæstv. atvmrh., tek ég því aftur brtt. mína nr. XI á þskj. 302.

Ég á aðra brtt. á sama þskj., XIX, við 14. gr., þess efnis, að 2400 kr. verði veittar blindum mönnum til þess að nema körfugerð og þesskonar iðnað. Maður einn hér í bæ, Þorsteinn Bjarnason, sem hefir numið körfugerð erlendis, hefir gert það af góðvild og greiðasemi, að kenna blindum mönnum þessa iðn án þess að taka neitt fyrir það. Ýmsir blindir menn hafa viljað læra hjá honum, en þeir kunna ekki við það að biðja hann að kenna sér fyrir ekkert, enda geta menn ekki ætlazt til þess, að hann leggi á sig slíka kennslu án endurgjalds. Það er mikið mannúðarverk að veita þessum mönnum nokkra dægradvöl í hinu langa myrkri þeirra, og ég vil því mælast til þess við alla góða menn í þessari hv. d., að þeir samþ. till. mína.

Næsta brtt. mín er sú, að ríkið kaupi Grænlands-bókasafn Einars Benediktssonar skálds. Hafa þegar farið fram samningaumleitanir á milli Einars Benediktssonar og stj. um þetta mál, en stj. hefir ekki talið sér heimilt að kaupa safnið, nema hún fengi til þess fjárveiting frá Alþingi. Einar Benediktsson hefir um áratugi safnað allskonar ritum um Grænland og hvorki sparað til þess erfiði né fé. Safn hans er orðið geysimikið, bæði heil ritverk, tímaritsgreinar og sérprentanir úr ótal bókum og blöðum. Hvergi á jarðríki mun vera til eins fullkomið bókasafn um allt það, er að Grænlandi lýtur. Íslendingar mega ekki láta ganga sér úr greipum þetta tækifæri, því að annað eins býðst áreiðanlega ekki aftur. Einar Benediktsson hafði að vísu af sinni alkunnu rausn ætlað sér að gefa Landsbókasafninu þetta safn sitt, en fjárhag hans er nú svo komið, að hann er neyddur til að selja það. Verðið er ákveðið samkvæmt mati yfirlandsbókavarðar, Guðmundar Finnbogasonar, og hann segir, að safnið sé a. m. k. 5.000 kr. virði. Nú eru sumar af bókunum úr þessu safni til í Landsbókasafninu, en Guðmundur Finnbogason áskilur safninu rétt til að fá í þeirra stað einhverjar aðrar bækur úr bókasafni Einars Benediktssonar. Það væri illa farið, ef þjóðinni gengi þessi dýrgripur úr hendi, og þó að hv. fjvn. hafi ekki fallizt á erindi frá hæstv. forsrh., þess efnis að gera þetta að sinni brtt., vænti ég, að hún leggi ekki fast á móti því. Hæstv. forsrh. leggur eindregið með þessum kaupum, enda ber hann manna bezt skyn á, hvílíkt verðmæti er um að ræða. Safnið er geymt í húsi hans. — Ég hafði áður ritað hæstv. forsrh. bréf um þetta efni, og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa það upp hér:

„Þar sem bókasafn hr. Einars skálds Benediktssonar viðvíkjandi Grænlandi og norðurhöfum er nú til sölu, þá vil ég leyfa mér að skora eindregið á hæstv. stjórn að gera ráðstafanir til þess, að safn þetta gangi eigi Íslandi úr greipum, heldur verði keypt til handa landinu. Í safni þessu eru bæði margar mjög fágætar og torfengnar bækur um Grænland, fornar og nýlegar, allt frá dögum Arngríms lærða til vorra tíma, og ennfremur mörg hundruð ritgerða úr tímaritum og blöðum á ýmsum tungum um þetta efni, sem gersamlega væri ókleift að ná til að öðrum kosti eða fá vitneskju um. Þetta fágæta og einstæða safn hefir eigandinn dregið saman um langt árabil víðsvegar um lönd með mikilli elju og ærnum kostnaði.

Hér á landi er nauðalítill kostur rita um Grænland og norðurhöfin, en Íslandi hin mesta nauðsyn að eiga þess færi að kynnast sem gerst öllu því, er varðar sögu og eðli Grænlands, hinnar einu nýlendu vorrar og næsta grannlands. Er því brýn þörf þess, fyrir allra hluta sakir, að landið eignist þetta fágæta safn“.

Í bezta trausti þess, að hv. þm. fallist á þessa till., ætla ég að ljúka máli mínu.