08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

5. mál, sveitabankar

Halldór Stefánsson:

Vegna tilmæla hæstv. forsrh. um að fresta brtt. mínum til 3. umr., vil ég lýsa yfir því, að ég er fús til þessa. Hygg ég, að það muni ekki síður vænlegt til þess, að till. fái áheyrn, að ég fái tækifæri til að gera nánari grein fyrir þeim við hæstv. ráðh. og hv. landbn. — En úr því að ég stóð upp, vil ég minnast á eitt atriði, sem ég gleymdi áðan. Ég sagði, að allar brtt. mínar væru bundnar saman, en þetta var ekki allskostar rétt. 2. brtt. mín getur vel staðizt, þótt hinar falli. Hún fer í líka átt og fyrri brtt. hv. þm. Borgf., auk þess sem í minni brtt. er tekið fram, að þessi lán megi veita gegnum umboðsskrifstofur Búnaðarbankans, sem getið er í 73. gr. laganna um hann. Þar sem ekki eru aðrar stofnanir fyrir hendi, er geta verið milliliðir milli Búnaðarbankans og sveitabankanna, gæti þetta orðið til að greiða fyrir viðskiptunum. Niðurlag brtt. minnar fer í sömu átt og brtt. hv. þm. Borgf., að Búnaðarbankanum sé og heimilt að veita lán til sveitabankanna milliliðalaust undir vissum kringumstæðum.

Loks vil ég geta þess, að ég hefi hugsað mér rekstrarlánafélögin og bústofnslánafélögin algerlega aðskilin, með það eitt sameiginlegt, að hvorttveggja megi heita sveitabankar. En þó er ekki óhugsandi, að óhætt væri að reka starfsemi þeirra saman að meira eða minna leyti.