29.01.1930
Neðri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (1011)

28. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Flm. (Jón Sigurðsson):

Ég þarf ekki að vera langorður, því að ég hefi fáu að svara, og svo hefir hv. síðasti ræðumaður tekið af mér ómakið með að svara ýmsu.

Ég get verið hæstv. ráðh. þakklátur fyrir upplýsingar sínar og fyrir það, sem hann hefir unnið fyrir málið, og hefir nú, að því er mér skilst, skipað nefnd góðra manna til að rannsaka þetta mál. Þetta get ég verið hæstv. ráðh. þakklátur fyrir, en vildi jafnframt spyrja, hvenær mætti vænta álits frá þessum mönnum.

Þá vil ég leiðrétta það, sem hæstv. ráðh. sagði, að það væru kauptúnin, sem hefðu mestan hagnað af, ef þetta frv. yrði að lögum. Ég skil ekki þann barnaskap að slá þessu fram, því að þótt kauptúnin séu ekki útilokuð með þessu frv., þá er það þó öllum vitanlegt, að það eru kauptúnin með sínu þéttbýli, sem hafa möguleika til samvirkjunar, þótt þau njóti einskis beins stuðnings eða fjárframlaga frá því opinbera. Aftur á móti er óvíða svo þéttbýlt í sveitunum, að raforkuveitur beri sig fjárhagslega nema með miklum fjárframlögum frá ríkissjóði. Það er því auðsætt, að það er stór vinningur, að kauptúnin verði í félagi við sveitirnar um þessar framkvæmdir, enda er gert ráð fyrir því, að fjárframlag ríkissjóðs sé mismunandi, eftir því hvort sveitarfélag er í sambandi við fjölmennt kauptún, sem með sinni miklu rafmagnsnotkun getur styrkt fyrirtækið óbeint. Það sjá allir, að það er mikill munur að hafa kauptún sem endapunkt, sem tekur kannske mörg hundruð hestöfl svo að segja á einum stað, eða ef línan ætti að leggjast með bæjum, þar sem hver tekur svona 4–6 hestöfl. Það er þess vegna styrkur fyrir málefnið, að kauptúnin verði með, því að það verða alls ekki sveitirnar, sem bera uppi kauptúnin í þessu efni.

Þá vildi hæstv. ráðh. gera mikið úr því, hve mikill munur væri á eðli þessa máls og ýmsum þeim, sem styrkur er veittur hér á þingi, t. d. jarðabótastyrkur og styrkur til vélasjóðs o. fl. þess háttar, og taldi, að hér væri aðeins um að ræða aukin þægindi, menn fengju aðeins notalegra líf o. s. frv. Ég hafði raunar áður bent á, að frá þjóðhagsfræðilegu sjónarmiði væri það ekki vansalaust að kaupa það frá útlöndum, sem við gætum framleitt sjálfir, og átti ég þar við áburðarkaupin í sambandi við áburðarbrennsluna. Auk þess er enginn vafi á því, að ræktun landsins bíður ekki alllítinn skaða við það. En ef það er mikils virði að fá túnin sléttuð, svo að bændur geti komizt af með einn vinnumann í stað 34, þá er það ekki síður mikils virði að létta verki af herðum kvenfólksins, svo að ein kona geti afkastað því verki, er 3 þurfti til áður, ekki sízt þar sem víða er svo komið, að ekki er nema húsfreyjan ein kvenna á bæjunum, og oft nálega ófáanleg hjálp til innanbæjarstarfa, hvað sem á liggur. Enginn neitar því, að rafmagnið getur sparað stórkostlega mannsaflið bæði innanbæjar og utan, ef það er notað þannig.

Hér er því um stórkostlegan vinnusparnað að ræða. Sérstaklega ber að gefa gaum að því, að vinnukraftur er víða því nær enginn, enda þekki ég jafnvel dæmi þess, að á sumum heimilum er enginn kvenmaður, og verða karlmennirnir jafnvel að elda matinn ofan í sig sjálfir. Af þessu má ljóslega ráða, hvílík nauðsyn er á, að hafizt sé handa sem bráðast til þess að hagnýta betur vinnuafl sveitanna. Hver getur sagt, hversu lengi sveitakonurnar okkar endast, ef þær eiga lengi að búa við þau erfiðu kjör og það óhemju strit, sem þær eiga nú við að búa. — Nei, það er áreiðanlega hraparlegur misskilningur eða fáfræði hjá hæstv. ráðh., að hér sé farið fram á einhvern „luksus“ sveitakonunum til handa. Hér er um að ræða blákalda nauðsyn, sem ekki er hægt að loka augum fyrir. Sveitakonurnar hér á landi baða sannarlega ekki í rósum, þótt eitthvað sé gert til þess að bæta hagi þeirra.

Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til að tala frekar um þetta, þar eð hv. 1. þm. Reykv. tók að mestu af mér ómakið hvað ræðu hæstv. ráðh. snertir. Þó vil ég ekki láta undir höfuð leggjast að segja nokkur orð út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um kostnaðarhlið þessa máls. Hann kvað engar kostnaðaráætlanir liggja fyrir þinginu um þetta mál, hvorki nú eða í fyrra. Þetta er að vísu rétt, en ég vil biðja hv. þdm. vel að athuga það, að um heildaráætlun um svo umfangsmikið mál getur aldrei verið að ræða, svo að nokkuð sé á að byggja. Þær framkvæmdir, sem hér er um að ræða, taka sennilega langan tíma, jafnvel mannsaldra. Enginn getur nú sagt með neinni vissu, hvaða verðlag verður á vinnu og efni eftir t. d. 2030 ár. Ef ætti að fara að gera áætlun um slíkt, væri það fálm út í loftið og ekkert annað. Slík áætlun væri einungis leikfang, því hún gæti ekki stuðzt við neinn raunveruleika í framtíðinni. Enda hefir það ekki hingað til verið venja þingsins að krefjast ítarlegra rannsókna og áætlana um hinar ýmsu framkvæmdir. Mönnum hefir verið það alltaf vel ljóst, hversu lítið er einatt á slíkum plöggum að byggja. Oft hafa þau reynzt verri en ekki neitt. Stj. hefir heldur ekki gert þær kröfur til sjálfrar sín í þessu efni, sem hún gerir nú til okkar flm. þessa frv. Þess er skemmst að minnast, að á þinginu í fyrra var töluverð togstreita um það, hvort það myndi kosta 30 þús. eða 100 þús. að koma upp ákveðnum girðingarspotta. Stj. hafði flutt frv. um að ríkissjóður kostaði þessa girðingu, en ekki hafði stj. séð málinu fyrir betri undirbúningi eða rannsókn en þetta, og situr því sízt á henni að setja sig á háan hest hvað þetta atriði snertir. A. m. k. ef við eigum ámæli skilið fyrir undirbúning þessa máls, þá á hæstv. núv. stj. eigi síður skilið ámæli fyrir lélegan undirbúning margra mála, er hún hefir haft með höndum fyrr og síðar.

Þá spurði hæstv. ráðh., hvort ég og minn flokkur væri reiðubúinn til að taka höndum saman við núv. stjórnarflokk að afla aukatekna í því skyni að hrinda þessu máli áleiðis. Þessu vil ég svara á þann veg, að áður en slík tekjuöflun fer fram, vil ég og legg áherzlu á, að því fé, sem núv. tekjustofnar gefa ríkissjóðnum, verði fyrst varið til þarflegra framkvæmda, og þar á meðal til raforkuveitna í sveitum. Ég tel því fé á þann hátt miklu betur varið en til einhvers og einhvers hégóma, eins og við hefir þótt brenna hjá núv. stj. Ekki er þó svo að skilja, að ég vilji, að aðrar verklegar framkvæmdir séu stöðvaðar fyrir þessar sakir. En ég verð að álíta, að ef gætt væri nokkurs sparnaðar um meðferð ríkissjóðs og samt kæmi í ljós, að fé skorti til nauðsynlegra verklegra framkvæmda, hvort sem það héti rafveitur eða annað, þá væri kominn tími til að afla ríkissjóði aukinna tekna, og þá hygg ég, að ekki myndi standa á mér eða mínum flokki um samvinnu í þessu máli, enda þyrfti varla að kvíða því, að ekki yrði talsvert fé ávallt á takteinum til þessara framkvæmda smátt og smátt. Hitt kæmi vitanlega til engra mála, að veita árlega feiknafé í þessu skyni; bæði leyfir fjárhagur slíkt ekki, enda myndu slíkar framkvæmdir draga um of vinnukraftinn frá öðrum atvinnugreinum og valda röskun í atvinnuháttum þjóðarinnar.

Þá hefi ég svarað flestu af því, sem svara þarf, og skal því ekki tefja umr. frekar.