29.01.1930
Neðri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (1017)

28. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Magnús Guðmundsson:

Það er varla hægt að segja annað en að undirtektir undir þetta mál hafi orðið sæmilegar. A. m. k. er mikill munur á því, hvernig máli þessu er tekið nú eða í Ed. í fyrra. Þá barðist einn af ráðh. á móti því með svo miklum ákafa, að hann taldi málið gersamlega óalandi og óferjandi. Hinar tiltölulega góðu undirtektir hæstv. stj. nú munn vera því að þakka, að hún hefir fengið að vita, að alstaðar úti um landið er rafmagnsmálið talið svo mikilvægt, að hæstv. stj. sér, að ekkert þýðir að berjast á móti því.

Það voru aðallega tvö atriði, sem hæstv forsrh. talaði um. Í fyrsta lagi heimtar hann ítarlega rannsókn málsins. Ég get sagt hæstv. ráðh., að það hefir aldrei verið meining okkar flm. að hrapa að neinu, en hinsvegar vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hverskonar rannsókn hugsar hæstv. ráðh. að láta gera? Álítur hann, að hægt sé að láta fara fram rannsókn á öllu landinu, áður en hafizt er handa um framkvæmdir? Það yrði áreiðanlega til þess að draga málið um ófyrirsjáanlegan tíma. Slíkri rannsókn má líka alltaf bera við til þess að þurfa ekki að gera alvöru úr neinum framkvæmdum.

Hv. þm. Ísaf. talaði um, að það væri undarlegt að hafa enga áætlun við að styðjast. En mér finnst undarlegt, að hann skuli segja þetta, eftir að hann hefir viðurkennt, að slík áætlun er einskis virði. Hv. þm. Ísaf. talaði yfirleitt um þetta mál á þann hátt, að ómögulegt er að vita, hvort hann er með því eða á móti.

Hæstv. ráðh. sagði, að sú nefnd, sem hann hefir skipað, mundi komast að annari niðurstöðu en frv. gerir ráð fyrir um það, í hvaða hlutfalli skuli veita styrk í þessu skyni. En okkur flm. dettur ekki í hug að leggja neina áherzlu á, að endilega verði styrkt í því formi, sem við höfum lagt til í frv. Það er álitamál, hvernig eigi að haga því atriði, og ef hæstv. stj. getur fundið eitthvert betra fyrirkomulag, erum við reiðubúnir að taka við því.

Hæstv. ráðh. talaði um, að það mundi vera ætlun frsm. að minnka fé til brúagerða. Ég hefi ekki heyrt eitt orð í þá átt, en hinsvegar hafði ég það eftir vegamálastjóra, að það færi áð minnka, sem þyrfti til brúargerða, og það er allt annað mál.

Ég skal játa, að ég er alveg á því, áð það er ekki til neins að vera að gera fjárhagslegar áætlanir um þetta mál. Hverjum datt t. d. í hug að fara að búa til áætlanir yfir það, hvað allir vegir á landinu mundu kosta? Eins er með þetta mál. Það veit enginn maður í heiminum, hvað það kemur til með að kosta. Mér er líka alveg sama, hvort það kostar 50 eða 70 millj. Þetta verður að gerast fyrr eða síðar, á lengri eða skemmri tíma, og því fyrr sem byrjað er, því betra.

Bæði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa talað um fjárhagshlið þessa máls og vildu gefa í skyn, að það væri hreinasta glapræði að bera það fram án þess að séð yrði fyrir sérstökum tekjum. En slíkt er svo oft gert í þessu landi. Og hér stendur einmitt svo á, að stj. og þing ræður, hve mikið fé er veitt á ári hverju. Það kemur heldur ekki til nokkurra mála að fara að búa til skattalög um þetta, áður en maður veit, hvort ríkisstj. vill nokkuð sinna því.

Hæstv. ráðh. sagði, að í slæmu ári væri ekkert fé til að leggja vegi eða byggja brýr, hvað þá heldur til að koma upp raforkuveitum. Eftir því að dæma ætti að vera bezt að hætta við þetta allt saman, úr því að það geta komið slæm ár, svo að ekkert fé verði afgangs. Nei, hæstv. ráðh. má vera viss um, að Sjálfstæðisflokkurinn vili óskiptur vinna að því að afla tekna í þessu skyni, en hann vill auðvitað ekki taka hvaða skattstofn sem er, heldur þann réttmætasta. Um þetta kann að verða ágreiningur, en ef viljann vantar ekki hjá öðrumhvorum aðilja, er ég ekki hræddur um, að ekki fáist samkomulag.

Viðvíkjandi ræðu hv. þm. Ísaf. skal ég taka það fram, að ég álít það ekki rétta lausn á þessu máli að byggja tómar stórar stöðvar. Hv. þm. hélt því fram, að við flm. hefðum enga hugmynd um, hvað þetta væri mikilvægt mál. Já, það væri náttúrlega gott að fá að ganga í skóla til hv. þm. Ísaf. Ef hann getur veitt okkur nýja og góða fræðslu, tökum við því með þökkum. En hann þarf ekki að segja okkur neitt um mikilvægi málsins. Við vitum, að það er eitthvert hið mikilvægasta mál, sem nokkurntíma hefir verið borið hér fram. Hv. þm. fannst víst, að hann geta slegið rothögg á málið með því að tilfæra kostnaðinn, og nefndi í því sambandi fasteignamatið. En hvað heldur hv. þm., að jarðir landsins hafi verið mikill hluti af vegakostnaðinum, þegar byrjað var að leggja vegi? Með þessu sannar hann ekkert, nema þá það, að hann er hikandi í málinu.

Hv. þm. hélt, að örðugt yrði að gera upp á milli héraðanna. Það er alveg það sama og sagt var, þegar byrjað var að leggja vegi. Það þótti alveg ómögulegt, en hvernig hefir farið? Auðvitað hefir oft orðið um það nokkur togstreita, eins og gengur, en allt hefir það þó gengið sæmilega.