20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Auðunn Jónsson:

Á síðasta þingi ákvað núverandi hæstv. fjmrh. að gera till. um skuldir nokkurra hreppa, sem höfðu fengið lán úr viðlagasjóði á stríðsárunum, en ekki getað greitt lánin. Ég hafði nú vænzt þess, að hæstv. fjmrh. hefði komið fram með sínar till., svo að hægt væri að ljúka skiptum þessara hreppa, Grunnavíkurhrepps, Árneshrepps, Gerðahrepps og Innri-Akraneshrepps. Ég hefði helzt óskað, að upplýsingar um þetta hefðu komið fram nú við fjárlagaumr. og gerðar endanlegar till. um eftirgjafir á skuldunum.

Ég ætla að segja örfá orð um till., sem ég flyt um að veita Gunnari Bjarnasyni styrk til vélaverkfræðináms. Það virðist að vísu ekki blása byrlega fyrir slíkum till. frá hæstv. fjmrh., en ég ætla samt að hætta á að flytja hana. Gunnar Bjarnason er stúdent frá Menntaskólanum hér og hefir lokið fyrri hluta prófs frá polytekniska skólanum í Kaupmannahöfn. Síðan veiktist hann og kom heim til Íslands. Eftir að hann hafði náð fullri heilsu, fór hann að vinna fyrir sér hjá vélsmiðjunni „Héðni“ hér í bæ. Þar var hann verkstjóri í ½ ár og þegar hann hafði á þann hátt aflað sér nokkurs fjár, fór hann til Þýzkalands til að halda áfram námi sínu. En námi sínu getur hann ekki lokið, nema því aðeins, að hann fái nokkurn styrk. Okkar þjóð er meiri þörf á kunnáttu í hagnýtri vélfræði en flestu öðru. En eins og kunnugt er, er slíka kunnáttu helzt að sækja til Þýzkalands. Hinsvegar er nám miklu dýrara í Þýzkalandi en t. d. í Danmörku. Ég vænti þess fastlega, að hv. dm. samþ. þessa till.