08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

5. mál, sveitabankar

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Ég varð að víkja mér frá og heyrði því ekki alla ræðu hv. 2. þm. Reykv. Hefi ég því litlu að svara. En út af þeim erðum hv. þm., að ekki skipti miklu máli fyrir Búnaðarbankann, þótt brtt. n. um forgangskröfu sveitabankanna væri ekki samþ., þá vil ég taka það fram, að bankastjórar Búnaðarbankans lögðu einmitt mjög mikla áherzlu á, að þetta ákvæði væri sett í frv. Og þeir töldu erfitt að leggja á stað með þessar stofnanir, ef þetta yrði ekki gert. Annars mun þetta ekki hafa mikla þýðingu í framkvæmdinni. Ákvæði 83. gr. skiptalaganna tekur ekki til nema um þrotabú sé að ræða og þá eru kröfur hvort sem er oftast lítils virði. En eins og ég hefi sagt, þá hefir þetta þó frá sjónarmiði aðalbankastjóra Búnaðarbankans mikið að segja, og því tel ég rétt að samþ. brtt.