08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

5. mál, sveitabankar

Jón Auðunn Jónsson*:

Það verður að gera við því, sem getur orðið. Og því verður einnig að gera ráð fyrir því óvenjulega. Ég vil, að þeir, sem slíkt fé hafa undir höndum, standi í skilum með það. Svo er um opinbert fé og fé ómyndugra. Fyrir kunnuga menn, svo sem bankastjórar sveitabankanna hljóta að verða, er jafnan hægt að fylgjast með fjárhag hvers eins. En fyrir sýslumann, sem skipar fjárhaldsmenn, er það erfiðara. Hagur manna getur mikið breytzt á 2–3 árum. Svo er og um fjárhaldsmenn kirkna. (LH: Hafa einstakir menn almennt kirkjufé undir höndum?). Ég veit um einn, sem hefir 5.000 kr. frá kirkju og gætir vel þess fjár. En það er þó sérstaklega fé ómyndugra, sem ég tel að eigi að sitja fyrir slíkum kröfum, sem hér um ræðir. Bændur hafa og ýmsa fleiri sjóði undir höndum. Svo er þar, sem brunabótafélög eru. Og þótt eigi sé um stórar fjárhæðir að ræða, þá á þó að tryggja þær sem bezt, ef illa fer.