20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

1. mál, fjárlög 1931

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég flyt eina litla brtt. á þskj. 302, um að Maríu Markan söngkonu verði veittur 2.000 kr. námsstyrkur, en til vara 1.500 kr. Þessi söngkona sótti til fjvn., en n. hefir ekki séð sér fært að verða við beiðni hennar. Hún hefir dvalið við nám í Þýzkalandi um tveggja ára skeið. Öll ætt hennar er sérstaklega kunn hér í bæ fyrir frábæra sönghæfileika. Allir þekkja Einar Markan, sem nú syngur hér við mikinn orðstír og er álitinn einn af okkar allrafremstu söngmönnum. María Markan hefir fengið ákaflega góð meðmæli kennara sinna. Ein þýzk söngkona segir um hana: „Ungfrú María Markan hefir svo undursamlega og óvenjulega fagra rödd og er auk þess svo miklum sönghæfileikum gædd, að hún hefir skilyrðislaust örugga framtíð sem sönglistarkona . . . .“ Annar kennari segir eitthvað í þá átt, að hún hafi með afbrigðum mikla raddfegurð og hæfileika, sem gefi fyllstu vonir um, að hún nái langt á braut sinni. Nú þarf hún að dvelja enn eitt ár við námið. Einkum þarf hún að iðka ítalska og franska tungu, til þess að geta komið fram sem fullkomin söngkona. Hún þarf að borga með sér 400 mörk á mánuði, en er hinsvegar fátæk, svo að ég vænti, að hv. þm. vilji samþ. þessa till. mína.

Ég ætla að víkja örlítið að tveim till. frá öðrum hv. þm. Önnur er á þskj. 302, um 45 þús. kr. framlag til að reisa ljós- og hljóðvita á Sauðanesi, vestan við Siglufjörð. Erindi þessa efnis hefir legið fyrir sjútvn., en það hefir dregizt úr hömlu fyrir n. að lýsa afstöðu sinni til málsins. Meiri hl. n. er þessu samt fylgjandi. Hv. flm. hefir gert ítarlega grein fyrir nauðsyn þessa máls, en ég vil bæta því við, að þarna er brýn ástæða til að bæta úr því; sem er. Það koma svo mörg skip til Siglufjarðar bæði á nóttu og degi, að það verður að tryggja innsiglinguna eins mikið og hægt er. Siglunesvitinn er ekki útbúinn til þess að vera innsiglingarviti. Það hefir verið í ráði að setja þarna hættudufl. en horfið frá því aftur, af því að sýnt var, að það mundi ekki koma að fullum notum. Það er álit allra siglingafróðra manna, að þarna eigi að vera innsiglingarviti, útbúinn hljóðtækjum. Á sumrin er oft dimm þoka inni á firðinum, en skip full af síld, sem þurfa að leita hafnar skilyrðislaust. Siglufjarðarbær vill leggja fram nokkurn hluta kostnaðar, svo að ég vænti, að hv. dm. geti fallizt á till. mína. Í sambandi við vitamálin skal ég geta þess, að það er veruleg ástæða til að veita því eftirtekt, að gjald það, sem kemur inn samkv. lögum fyrir vita, er orðin allmikil upphæð. Ég veit, að það er allsterk krafa sjófarenda, að vitagjöldunum verði varið til að byggja fyrir nýja vita. Síðasta ár var gert ráð fyrir, að til stjórnar og rekstrar vita gengju 170 þús. kr., en framlag var bara áætlað 80 þús. kr. Sé tekið með það, sem ætlað er til bryggjugerðar, verður framlagið 368 þús. kr. En hafnar- og bryggjugerðir eru annars eðlis en vitamálin, og ég sé ekki annað en að hv. Alþingi geti með góðri samvizku fallizt á þá stefnu að auka um mun framlag til vita.

Hin till., sem ég vildi gera að umtalsefni, er till. um styrk til Stórstúku Íslands. Reynslan hefir sýnt, að Stórstúkan á fremur örðugt uppdráttar hér í hv. d., en mér er óskiljanlegt, af hvaða ástæðum. En hvernig sem menn líta á starfsemi Stórstúkunnar, er það víst, að mestum hluta styrksins er varið til fræðslustarfsemi. En sú sorglega reynsla er athugaverð, sem fengizt hefir um hin svokölluðu bannlög. Arðurinn af áfengisverzluninni er kominn upp í milljón kr. Einhverjir hljóta að neyta vínsins, — og hverjir eru það? Miklu frekar unga kynslóðin en sú eldri. Ég veit, að hv. dm. sjá, að það er sanngarnt, að hinum mikla arði af áfengisverzluninni verði varið til að fræða unglinga um skaðsemi víns.

Ég minnist þess að hafa séð þess getið í Evrópublöðum fyrir nokkru síðan, að í Rússlandi hafi ríkið um skeið haldið verndarhendi yfir vínandaneyzlu. Brennivínið var talið blessun fyrir þjóðina og menningarauki að því að halda uppi slíkri sölustarfsemi. Nokkuð líkt höfumst við að. Við lögverndum drykkjuskapinn á vissan hátt. Það virðist vera mjög mikil ánægja í herbúðum vissra manna yfir því, hvað mikið er drukkið, þegar peningarnir koma í landssjóðskassann fyrir vínið. Ég er nú þannig innrættur, að ég álít, að við mundum standa siðferðislega og menningarlega á hærra stigi, þótt við tækjum ekki einn einasta eyri í ríkiskassann fyrir þessa atvinnu.

Ég vildi þess vegna mæla með því, þar sem sá styrkur, sem Stórstúkan fer fram á, beinlínis miðar að því að upplýsa fólk um skaðsemi víns og fá það til að hætta vínnautn, þá sé hann veittur með góðu og eftirtölulaust. Og það á að verða okkar takmark, að með hverju einasta ári minnki tekjur af þessari verzlun.

Ég gat ekki látið hjá líða að lýsa afstöðu minni til þessa máls. Hvort ég er bindindismaður eða ekki, skiptir ekki máli í þessu sambandi. Við eigum allir að geta litið á nauðsyn þessa máls frá þjóðfélagslegu sjónarmiði.

Ég skal ekki fjölyrða um till. yfirleitt. Fyrir þeim hefir verið talað. Þó er hér ein till., sem ég vænti, að verði gerð frekari grein fyrir, og samgmn. flytur. Hún fer fram á styrk nokkurn til flugferða. Ég vænti þess, að hv. form. n. geri grein fyrir henni áður en þessari umr. lýkur. En ef ekki, þá verður einhver til þess af okkur hinum nm.