29.01.1930
Neðri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í C-deild Alþingistíðinda. (1030)

28. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Pétur Ottesen:

Ég verð að segja það, að ég hefi í seinni tíð séð framan í ýmislegt svart í stjórnmálunum hér á Alþingi, síðan hæstv. atvmrh. settist í þann sess, sem hann skipar nú, og get bent á ýmislegt gruggugt inni fyrir hjá hæstv. ráðh. En nú leyfir hæstv. ráðh. sér að snúa svo út úr ræðu minni upp í opið geðið á þingheimi, með meiri óskammfeilni og blygðunarleysi en ég hefi áður þekkt. (Forseti hringir). Jafnframt því, sem ég benti á það með skýrum rökum, hver hefði orðið tekjuafgangur ríkissjóðs sum árin og að honum væri vel varið til þessara framkvæmda, þá tók ég það skýrt fram og ótvírætt, að fyrir flm. þessa frv. vekti, að tekinn verði upp fastur liður í fjárlögum til þessara framkvæmda. Ég vænti að þetta standi skýrum stöfum hjá þingskrifurunum, og að við ætlumst til, að þetta mál yrði engin hornreka hjá fjárveitingavaldinu. En svo segir hæstv. atvmrh., að ég hafi lagt til, að þetta yrði allt gert einungis fyrir afgangsfé.

Ég hygg því, að það sé ekki ofmælt, sem ég sagði áðan, þegar hæstv. forseti hringdi, að það er hin svartasta óskammfeilni og blygðunarleysi af hæstv. ráðh. að snúa þannig út úr orðum mínum.