28.03.1930
Efri deild: 63. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

5. mál, sveitabankar

Guðmundur Ólafsson:

Ég skal ekki vera fjölorður um brtt. þá, sem ég hefi borið hér fram. Hv. síðasti ræðumaður talaði ekki um hana, svo að hann hefir a. m. k. ekki verið ráðinn í því að mæla á móti henni. Brtt. fer fram á það, að fyrirsögn frv. sé breytt og verði eins og hún var áður. Þó að þær breyt., sem Nd. gerði á frv. verði samþ., má fyrirsögn frv. vera eins og hún var í upphafi. Ég býst við, að allir viðurkenni, að nafnið er óviðkunnanlegt eins og það er nú. Þó að frv. sé bæði um sveitabanka og bústofnslánafélög, er engin ástæða til að breyta nafninu. T. d. í lögum Búnaðarbankans, sem voru samin í fyrra, er gert ráð fyrir, að hann starfi í 6 deildum, en ekki er nafn á öllum deildunum í fyrirsögninni. Mun enginn telja það ókost á þeim lögum. Lögin verða á engan hátt verri eða óskiljanlegri, þú að nafnið grípi ekki yfir allt innihald þeirra.

Það mætti nú segja, að þessi brtt. út af fyrir sig sé svo lítil, að ekki taki að gera hana, en það er ekki einskisvert atriði, að nöfnin á lögunum séu ekki afkáraleg. Ég geri ráð fyrir, að allir muni eftir þeirri nákvæmni, sem höfð var með nafnið á búnaðarbankalögunum í fyrra. Fyrst var það frv. til laga um landbúnaðarbanka, en það nafn þótti of langt, svo að því var breytt í búnaðarbanka, og ég vona, að tilfinning hv. dm. fyrir fögru máli hafi ekki minnkað frá því í fyrra hvað þetta snertir.

Ég skal svo ekki tala meira um þessa brtt., a. m. k. á meðan enginn andmælir henni.