28.03.1930
Efri deild: 63. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

5. mál, sveitabankar

Jónas Kristjánsson:

Ég ætla ekki að tala mikið um þetta; það þýðir ekkert. En þetta er þó til skemmda á frv. og fjarlægir tilgang þess. Því er ekki hægt að neita, að með því að hafa marga gjalddaga verður erfiðara um eftirlit með því, að staðið sé í skilum. Skil ég ekki í því, hvað hv. þm. gengur til með að vera að breyta þessu, því að þó um fátæka menn sé að ræða, þá er þó bezt, að þeir standi í skilum. Þetta á ekki að verða nein góðgerðastofnun, heldur venjuleg verzlun með peninga. Menn eiga að standa í skilum, en skilin verða erfiðari og reikningsfærslan erfiðari, ef gjalddagar eru margir. (JónJ: Má spyrja, hvort hv. þm. ætlast til, að einungis einn gjalddagi sé hafður?). Hvort heldur hafðir verða einn eða tveir gjalddagar, þá vita menn þó, að hverju þeir hafa að ganga.

Þá var hitt atriðið með brottvikninguna. Mér virðist frv. bera það með sér, að því aðeins skuli víkja manni úr, félaginn, að hann hafi gert sig sekan um vísvitandi svik við það. Í stjórnina munu að öllum jafnaði verða valdir góðir og sanngjarnir menn. Er því engin hætta á, að hún brúki nokkur þrælatök á félagsmenn, ef þeir hafa sýnilegan vilja á að standa í skilum.

Hv. 6. landsk. las upp gr. úr búnaðarbankalögunum. Mér virtist sú gr. einmitt vera hér um bil samhljóða því, sem stendur í frv. En brtt. meiri hl. gerir eiginlega miklu meiri breyt. á frv. en hv. flm. hennar vilja láta bera á. Hér er ekkert talað um, ef lánað er gegn veði í öðru en kúm. Ég hugsa, að ef brtt. verður samþ., þá eigi hún erfitt með að komast gegnum Nd. Gæti það orðið til þess, að frv. yrði ekki að lögum á þessu þingi, og er það verr farið.