30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (1069)

30. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sigurjón Á. Ólafsson:

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, er gamall kunningi þessarar hv. d., og hv. frsm. hefði því getað sparað sér þessa ræðu með því að vísa til Alþt. frá síðasta þingi. Þetta mál hefir verið ágreiningsatriði undanfarin þing, þ. e. a. s. ágreiningur hefir verið um, hvernig það skyldi leyst, en ekki um hitt, að nauðsyn væri á sjóði eða lánsstofnun til eflingar fiskiveiðum landsmanna, og þá sérstaklega smáskipaútveginum. Menn hefir greint á um, hve stór sjóðurinn skyldi vera og hvernig honum skyldi fyrir komið.

Við, sem vorum í minni hl. í þessu máli á síðasta þingi, höfum haldið því fram, að frekar skyldi gengið til verks, stærri og öflugri peningastofnun væri nauðsynlegt að mynda en fram hefði komið í till. meiri hl., og hv. frsm. hefir nú viðurkennt, að hann hafi ekki verið allskostar ánægður með þær till., sem fram hafa komið, sem hann þó var með að undirbúa og samþykkja. Nú er það upplýst, að hæstv. stj. ætlar að leggja fram þær till., sem hún lofaði á síðasta þingi, en ég hefi ekki séð þær, og því er erfitt að tala í málinu, meðan þær liggja ekki fyrir.

Það, sem ég hefi að athuga við þetta frv., er meðal annars, að það ætlast til, að sjóveð verði látið falla niður fyrir þeim lánum, er ganga til skipakaupa, nákvæmlega á sama hátt og fólst í till. meiri hl. á síðasta þingi. Hygg ég, að hv. flm. hafi ekki gert sér það ljóst, hvað af því getur leitt fyrir sjómannastéttina. Það undrar mig þó mest, að hv. frsm. skuli hafa gerzt flm. þessa frv. með þessu ákvæði í, þar sem skorað var á hann á fjölmennum kjósendafundi í Vestmannaeyjum að láta sjóveðin haldast sem trygging fyrir kaupgreiðslum, þrátt fyrir tilraun hv. þm. um, að till. næði fram að ganga. Hv. flm. má vita það, að það er ekki út í loftið talað, er ég hefi bent á þá hættu, sem af þessu leiðir fyrir sjómennina, enda er engin ástæða til að láta þennan væntanlega útvegsbanka, eða hvaða nafn, sem honum kann að hlotnast, verða rétthærri en aðrar lánsstofnanir, er nú starfa og til skipakaupalána.

Ég býst við, að um þetta mál verði allmiklar umr. síðar og geymi mér því frekari skýringar.