20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

1. mál, fjárlög 1931

Einar Jónsson:

Það er eins og gerist og gengur, að þetta fjárlagafrv. hefir tekið allmiklum breytingum frá því það kom fyrst fram, og hv. þdm. hafa gert sínar brtt. Þegar frv. kom fyrst fram, var það með 59 þús. kr. tekjuafgangi, en nú er það með 380 þús. kr. tekjuhalla. Ég vildi leyfa mér að benda á, að ekki er það ég, sem á sök á þessu, því að ég hefi ekki fengið mikil framlög fyrir mitt hérað. Ég á hér III. brtt. á þskj. 316, og óska ég, að hæstv. forseti taki eftir því, að ég tek till. hér með aftur. Geri ég það af því, að þótt sú símalína, sem þar um ræðir, sé næsta nauðsynleg, þá liggja fyrir ákveðin loforð frá landssímastjóra og hæstv. forsrh., að hún verði lögð næsta sumar, og vænti ég því, að þeir haldi orð sín, og læt mér nægja með að vísa málinu til stj.

Þá á ég till. VI. á sama þskj. Þar er um nauðsynjamál að ræða, nefnilega, að 10 þús. kr. styrkur verði veittur til mælinga og rannsókna á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts. Í fyrra var sama upphæð veitt, en hún er nú uppétin, svo að enn þarf sama styrk í þessu augnamiði, og sennilega þarf styrkinn að fá í 3. sinn.

Þó að Rangæingar fengju 10 þús. kr. í fyrra til þessa þarfa fyrirtækis, þá þurfa þeir aftur 10 þús. kr. nú, og ég býst við, að þeir þurfi 10 þús. kr. að ári til varnar gegn vötnunum, sem ætla að eyðileggja sveitirnar og deyða íbúana.

Um brtt. annara hv. þm. ætla ég ekki að tala, en mun sýna afstöðu mína með atkv. mínu.