20.02.1930
Efri deild: 30. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Ég skil það á hv. 3. landsk., að hann er ekki á móti fyrri brtt. á þskj. 149. Er því ekki ástæða til að ræða frekar um það. En aftur á móti viðvíkjandi latínukennslu í Menntaskólanum á Akureyri, virðist mér svo, sem hv. þm. álíti, að þessi brtt. sé fram komin vegna aðstöðu skólans nú með kennslu í þessari námsgrein, að skólameistari óski eftir að hafa dálítið lausari ákvæði um kennslu í latínu heldur en gert er í till. n. Ég álít, að ástæðan geti ekki verið sú, því að ef það er á annað borð skylda að kenna þeim latínu, sem óska þess, þá þarf jafnt kennslukrafta til þess, þótt það væri skyldunámsgrein. Ég geri ráð fyrir, að ástæðan sé frekar sú, að skólameistarinn álíti, að latína sé engan veginn nauðsynleg öllum þeim, sem útskrifast úr skólanum. Hitt get ég skilið, að hún sé sumum nauðsynleg, t. d. læknaefnum, eins og mig minnir að hv. 3. landsk. hafi tekið sérstaklega fram, en allir þeir, sem ganga í gegnum menntaskóla, ætla sér eðlilega ekki að nema læknisfræði, og því virðist mér óhætt að álykta, að þeir, sem ekki þurfa á latínu að halda, megi vera lausir við að læra hana. Ég hefi ekkert á móti því, að rétt sé að athuga málið nánar til 3. umr., ef hv. meðflm. mína er því samþykkur. Ég vil þó geta þess, að það, sem hv. 3. landsk. benti á til athuganar, virðist mér ekki bezta lausnin, ef hann ætlar að bæta við 4. gr. því ákvæði, að kennslumálaráðuneytinu skuli heimilt að fjölga eða fækka námsgreinunum, ef skólameistari mælir með breytingunni.

Þetta ákvæði er miklu víðtækara en við till.menn höfðum hugsað okkur. Því að það gefur leyfi til að fækka fleiri námsgreinum en latínunni, en svo langt höfum við flm. þessarar brtt. ekki kært okkur um að ganga. Samkv. því mætti einnig taka frönsku út úr, ef skólameistari mælir með því og kennslumrh. væri því samþykkur. Ég hygg, að með því að bæta þessu ákvæði við, gæti svo farið, að ekki einungis latínan, sem hv. á. landsk. vill svo eindregið halda í, heldur einnig aðrar námsgreinar, yrðu lagðar niður við skólann.