20.02.1930
Efri deild: 30. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Jón Jónsson:

Ég hefi leyft mér að flytja hér tvær brtt., og hefir mér skilizt á hv. 3. landsk., að enginn ágreiningur væri um þá fyrri: Hvað hinni síðari viðvíkur, þá er það að segja, að n. hefir viljað bæta latínunni í 4. gr. á eftir frönsku, og hefir þar gengið lengra en ég, með því að vilja lögbjóða þá námsgrein. Mér er það ekki ljóst, að nauðsyn sé á því, að menn eyði miklum tíma til latínunáms, jafnmikið og heimtað er í öðrum greinum af menntuðum manni og því gladdi það mig, að í frv. var ekki gert ráð fyrir latínu sem skyldunámsgrein á Akureyri. Ástæðan til þess, að ég vil þó gera ráð fyrir, að unnt sé að fá kennslu í latínu, er sú, að skólastjóranum barst skeyti frá háskólaráðinu, og tók það ekki dýpra í árinni en það, að latínunám væri nauðsynlegt þeim mönnum, sem ætluðu sér að nema læknisfræði.

Þeir munu nú tiltölulega fáir, sem koma að norðan til að nema læknisfræði, og því get ég ekki séð, að nokkur ástæða sé til að þröngva öllum hinum, sem enga þörf hafa á latínukunáttu, til að eyða miklum tíma í það nám. Það er því sönnu nær að gefa þeim einum, er þess óska, kost á kennslu í latínu, og þá jafnframt einhverja undanþágu frá frönskunámi, en láta aftur hina vera lausa við latínunám.

Hinsvegar get ég fallizt á að geyma þessa till, til 3. umr., ef n. getur fallizt á að geyma öll ákvæði um latínunám þangað til, en annars ekki.

Að öðru leyti vil ég segja það, að ég býst við, að flestar aðrar till. n. séu frekar til bóta, en þá vildi ég aðeins víkja að brtt. 5, b-lið, þar sem það ákvæði er sett inn í 10. gr., að þýzku skuli menn hafa numið til þess að fá inntöku í lærdómsdeild skólans. Því er svo farið, að skólann sækja margir menn utan af landi og þeir eiga mjög óhægt með að afla sér kennslu í þeirri grein. Þeir kennarar, sem útskrifast héðan frá kennaraskólanum, hafa ekki numið það mál, og ekki er heldur ætlazt til, að það sé kennt í gagnfræðaskólum. Úti um sveitirnar munu þeir sárafáir, sem geta kennt þá tungu, og virðist því eðlilegra, að hert væri á kröfunum í öðrum málum, eins og t. d. ensku, sem ungir menn eiga mun hægra með að fá kennslu í. Þetta er líka í fullu samræmi við álit skólameistarans á Akureyri, en eins og kunnugt er, má í þessu efni sem öðru, sem tekur til skólans, leggja sérstaka áherzlu á orð hans. Hvað öðrum brtt. n. viðvíkur, þá get ég gjarnan fallizt á þær.