20.03.1930
Neðri deild: 58. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

1. mál, fjárlög 1931

Sigurður Eggerz:

Ég skal leyfa mér að þakka hæstv. atvmrh. fyrir yfirlýsingu þá, sem hann gaf út af Vesturlandsveginum, yfirlýsingu, sem var í fullu samræmi við það, sem hann hafði áður lagt fyrir vegamálastjóra og sagt við ýmsa kjósendur mína, — að lokið yrði við lagningu þessa vegar, ef ekki í ár, þá að ári. Þar sem hæstv. atvmrh. sagðist geta látið gera þetta, þótt brtt. mín væri tekin aftur, þá geri ég það að sjálfsögðu með glöðu geði. Það, sem brtt. var ætlað, var aðeins að gera hæstv. landsstj. fært að ljúka við veginn á næstu árum, einu eða tveim. Hæstv. ráðh. var með spaug út af því, að ég hefði óttazt, að næsti atvmrh. yrði mér ekki eins góður og hann, ef til stjórnarskipta kæmi. Ég hafði nefnilega látið í ljós, að e. t. v. væri rétt að samþykkja brtt., þrátt fyrir undirtektir hæstv. atvmrh., því að ekki væri víst að öðrum kosti, að ný stj. teldi sér heimilt að ljúka verkinu á svo skömmum tíma. En þar sem hæstv. ráðh. hefir nú gefið ákveðið loforð um þetta á Alþingi, geri ég ráð fyrir, að eftirmaður hans mundi telja sig algerlega bundinn af því, og tek brtt. því óhræddur aftur.

Ég heyrði ekki það, sem hv. frsm. fjvn. sagði um veginn. Ég var þá fjarverandi, á fundi í utanríkismálanefnd, sem skyndilega var kallaður saman. En þar sem ég hefi nú fengið yfirlýsingu hæstv. stj., sem þessi hv. þm. styður svo eindregið, verð ég að álíta, að allt sé í bezta lagi.

Hinsvegar heyrði ég það, sem hv. frsm. sagði um símalínur þær, er ég hefi borið fram brtt. um. Það er þá fyrst símalínan í Búðardal. Landssímastjóri sagði mér, að þetta væri ein af þeim línum, sem hann hefði lagt til, að yrðu látnar ganga fyrir. Þegar hv. fjvn. gerði mann á fund hans, til að fá hann til að benda á einhverjar af þeim línum, er hann hafði mælt með, sem helzt væri vegur að fresta eitthvað, þá má vera, að hann hafi talið unnt að láta þessa bíða, fremur en sumar aðrar. En landssímastjóri sagði, að þessi lína væri mjög nauðsynleg, því að hún gæfi aukið og betra samband við Vestfirði, og auk þess mætti vænta af henni mikilla tekna. Fjárhagslega er því engu að kvíða, þótt hún verði lögð. Mér skildist á hv. frsm., að hann teldi héraðið í góðu símasambandi, þótt þessi brtt. yrði ekki samþ. Þetta er ekki rétt, nema að nokkru leyti. Sumir hlutar héraðsins, t. d. Haukadalur, eru mjög langt frá síma, en ef þessi nýja lína yrði lögð, kæmi sjálfsagt aukalína þangað. En Haukadalur er langur dalur með mikilli byggð, og það er afskaplegum erfiðleikum bundið að hafa ekki símasamband þar, t. d. þegar skyndilega þarf að ná í lækni.

Hin brtt. mín er um síma um hluta af héraðinu, sem nú er alveg símalaus, þ. e. frá Staðarfelli í Saurbæ. Þessi símalína er enn nauðsynlegri en hin vegna héraðs míns, en hin verður að koma alveg á næstunni vegna nauðsynjar landsins alls.

Annars fundust mér undirtektir míns góða vinar, hv. frsm., undir þessar brtt. líkastar því, þegar ríki maðurinn talar við fátæka manninn. Hv. 1. þm. Árn., sem sjálfur hefir svo góðar samgöngur í sitt hérað og samt biður um fjárveitingu til járnbrautar austur, setur upp stór augu, þegar fulltrúi Dalamanna fer fram á tvo smásímaspotta um kjördæmi sitt. Mér finnst undarleg þessi harka, sem hann vill sýna þessu afskekkta héraði, sem svo lítinn opinberan styrk hefir til samgangna, — þessi hv. þm., sem hefir betri samgöngur í sitt kjördæmi en flestir aðrir, en þó gerir kröfu um að fá nú að bera allmargar milljónir í fanginu heim til kjósenda sinna. Og hún er orðin undarleg, umhyggjan fyrir landbúnaðarhéruðunum, sem nú er gumað svo mikið með, ef ekki á að unna Dalasýslu þessarar litlu samgöngubótar. Ef nokkur alvara fylgir öllu landbúnaðartalinu, veit ég, að hv. þm. standa sig ekki lengur við að hafa þetta landbúnaðarhérað lokað fyrir öllum samgöngum.