05.04.1930
Efri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Þetta frv. er komið aftur frá hv. Nd. og hefir það tekið þar lítilsháttar breytingum. Sú deild hefir fellt niður 19. gr. frv., eins og það var þegar það fór héðan. Í þeirri gr. var ákvæði um kennslugjald og hversu því skyldi varið. Við burtfellingu gr. hefir því kennslugjald nemenda verið fellt niður og meðferð þess.

Menntmn. þessarar deildar hefir nú athugað þessa breyt., og hún lítur svo á, að þrátt fyrir það, að þetta hefir verið fellt niður, þá sé þó mikil spurning, hvort ekki sé skylt að greiða skólagjald eins og áður var gert og að það renni í ríkissjóð. N. sá enga ástæðu til að flytja brtt. við frv. um þetta. Telur, að rétt sé að sjá, hvernig ríkisstj. framkvæmir þetta, er til kemur.

Hv. Nd. hefir líka breytt 21. gr. frv., sem áður var, en nú er 20. gr., á þann hátt, að í stað þess, að í þeirri gr. var ákvæði um, að gagnfræðadeildin á Akureyri skuli starfa eftir 1. um gagnfræðaskóla, hefir Nd. ákveðið að komi: „Um gagnfræðadeild Akureyrar fer eftir reglugerð, sem kennslumálaráðuneytið setur“. Þessi breyt. er gerð með það fyrir augum að taka öll ákvæði þau, sem snerta gagnfræðadeildina á Akureyri. Er þetta gert með samkomulagi við þá, er fluttu hér brtt. við 2. umr. frv.

Meiri hl. menntmn. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá hv. Nd. Mér er ekki kunnugt um, hvað minni hl. n. gerir. En ég býst við, að hann geri grein fyrir sínu atkv., ef hann telur sig þurfa þess.

Hefi ég svo ekki fleiri orð um þetta, en legg til, að frv. verði samþ.