07.02.1930
Neðri deild: 17. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í C-deild Alþingistíðinda. (1148)

36. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég mun að þessu sinni ekki flytja langt mál um þetta frv., enda vænti ég þess, að hv. þdm. sýni því þá kurteisi að lofa því að fara til n., til þess að athugast þar svo sem rök standa til.

Járnbrautarmálið var á sínum tíma mikið rætt, þó að þögn hafi verið um það upp á síðkastið. Við þær upplýsingar, sem fyrir lágu í málinu, þegar það var flutt hér á Alþingi 1926, hefir lítið sem ekkert bætzt síðan, og er að því leyti ekki ástæða til að fara ítarlega út í málið nú, heldur get ég skírskotað til þess, sem þá lá fyrir. Sú tilraun, sem síðar var gerð til að leysa málið, þannig að fossafélagið Títan legði brautina, mistókst með öllu, og er nú sýnt, að málið verður ekki leyst á annan veg en að ríkið taki það að sér, enda virðist sú leið heilbrigðust og affarasælust fyrir þjóðina. Ekkert er okkur Íslendingnm hættulegra og viðsjárverðara en að leyfa erlendu fjármagni að nema hér land. Járnbrautarmálið er eins mikið fjármál og það er stórkostlegt samgöngumál, og því er okkur Íslendingum hollast að ráða framkvæmd þess og rekstri sjálfir, en fela slíkt ekki erlendum mönnum. Auðvitað verðum við að leita til annara um fé til framkvæmdanna í þessu máli, en það er annað að leita sér liðs á þann hátt en að láta erlenda menn annast framkvæmdir og eiga hlutdeild í þeim.

Þrjú undanfarin ár hefir verið hljótt um járnbrautarmálið. Stafar það ekki af því, að menn hafi misst áhuga sinn fyrir málinu, heldur mun ástæðan vera sú, hve hér hefir verið einmunagóð tíð undanfarið, svo að hægt hefir verið að halda uppi samgöngum austur yfir fjall með bílum allt árið. Ég held, að menn hafi gleymt því í þeirri öndvegistíð, sem verið hefir hér á landi síðustu ár, að snjóa geti lagt hér á Íslandi. Það sem af er þessum vetri hendir þó ótvírætt í þá átt, að veðurfarið hér geti aftur orðið hið sama og við áttum við að búa fyrr. Þó er ekki hægt að segja, að nú séu snjóþyngsli. En síðan á jólum hefir engum bíl verið fært austur yfir fjall.

Samkv. venju má búast við því, að frá 3–4 upp í 6 mánuði ársins sé bílum útilokað að komast yfir Hellisheiði, svo að ég er hræddur um, að samgöngumál okkar Sunnlendinga verði aldrei leyst með þeim; a. m. k. verður þá að leggja nýjan veg, á öðrum stað og með annari gerð en sá er, sem nú er notaður. Ella verða bílarnir að engum notum meiri eða minni hl. ársins.

Ég get búizt við því, að sumir kunni að halda því fram, að járnbraut muni ekki geta haldið uppi samgöngum austur yfir fjall, þó að lögð yrði. Snjóalög séu þar svo mikil, að hún muni stöðvast. Ég skal ekki staðhæfa neitt í þá átt, að þetta geti ekki átt sér stað. Til þess brestur mig kunnugleika — og ég hygg raunar, að aðra hér skorti það líka.

Því miður skortir mig næga kunnugleika í öðrum löndum, þar sem járnbrautir liggja langt og hátt yfir sjó. En það er öldungis víst, að járnbraut á þessu svæði mun koma okkur að meira gagni en öll önnur samgöngutæki, er við þekkjum enn og eigum völ á.

Annars þykist ég ekki þurfa að fjölyrða um, hver nauðsyn er, að lögð sé járnbraut austur yfir fjall. Hver, sem þekkir og veit, hvernig búskaparhættir breytast og hvernig ræktun landsins eykst hröðum skrefum, hann skilur, hve erfitt það er að geta ekki komið afurðunum á markað hvenær sem er, eða aðkeyptum nauðsynjum heim til sín.

Á Suðurlandsundirlendinu einu eru svo mikil ræktunarskilyrði, að þar gæti öll þjóðin lifað margfalt betra lífi en hún gerir nú, dreifð um land allt. Þó að ég bendi á þetta, ætlast ég ekki til, að menn flytji sig annarsstaðar frá af landinu og yfirgefi kannske blómleg héruð þar, til þess að setjast að í lágsveitunum austanfjalls, heldur minnist ég á þetta til þess að benda á hina mörgu og miklu ræktunarmöguleika. En eftir því sem ræktun þessa lands eykst, því meiri þörf er á að bæta samgöngurnar þangað.

Nú mun játa nærri, að ríkið hafi látið hátt á aðra millj. króna í mannvirki og ræktunarfyrirtæki austanfjalls. Til þess að ávaxta þær millj. verða íbúarnir að geta komið framleiðsluvörum sínum frá sér að einhverri tryggri höfn. En hafnleysið austur þar bannar allar samgöngur á sjó. Jafnvel um hásumarið er ekki hægt að ferma eða afferma skip t. d. á Eyrarbakka eða Stokkseyri, hvað þá á öðrum tíma árs. Allir flutningar til og frá Suðurlandsundirlendinu verða því landleiðina og bundnar við hafnirnar hér vestan Hellisheiðar.

Þegar byrjað er á stórum ræktunarfyrirtækjum erlendis, þá er jafnhliða byrjað á því að bæta samgöngurnar. Samskonar fyrirkomulagi þarf einnig að koma á hér á landi. Það er hægt að skella skolleyrunum við þessu, en verkið, sem hafið er, stendur í stað eða lendir í óreiðu og þeir fjármunir, sem fram hafa verið lagðir, gefa engan arð. Það má því vissulega segja, að það sé að gefa héraðinu steina fyrir brauð að hvetja fyrst til stórra fyrirtækja, en neita svo um bættar samgöngur, sem eru aðalskilyrðið fyrir því, að hin aukna ræktun borgi sig.

Eins og þetta mál horfir við fyrir okkur austanmönnum, eins horfir það við fyrir öllum þorra Reykvíkinga og Hafnfirðinga. Öllum er meinað jafnt að njóta framkvæmdanna af aukinni ræktun austanfjalls á meðan samgöngurnar þangað eru ekki bættar.

Síðastl. haust eða öndverðan vetur tók Mjólkurbú Flóamanna til starfa skammt frá Ölfusárbrú. Ætlaði búið að selja mjólk hingað til Reykjavíkur daglega. Hér er oft mjólkurskortur auk þess sem hún hefir að jafnaði þótt of dýr fyrir einstaklingana að kaupa hana. Með stofnun mjólkurbúsins voru góðar horfur á, að Reykvíkingar fengju nóga mjólk, og um leið ódýrari en þeir hafa átt að venjast um langt skeið. En um leið og Mjólkurbú Flóamanna tók til starfa, lokaðist leiðin austur og hefir verið alófær bifreiðum til þessa. Ef búið hefði verið að semja um ákveðna lítratölu mjólkur, sem sendast átti hingað til bæjarins daglega, þá hefði af þessari samgönguteppu getað leitt mjólkurskort, og hann alvarlegan fyrir bæinn. Svona samgönguleysi kemur báðum illa og getur leitt til meiri ófarnaðar en nokkur getur gert sér grein fyrir.

Við flm. höfum gert þá uppástungu, að járnbrautin verði lögð að öllu leyti eins og gert var ráð fyrir í því frv., er ég flutti ásamt hv. 1. þm. Reykv. á þinginu 1926. Þó að mönnum kunni að vaxa í augum fjárhæð sú, sem ætlazt er til, að ríkissjóður láti af höndum til þessara umbóta, þá erum við fulltrúa þess, að það borgi sig fyrir landið með rentum og renturentum þegar stundir líða.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. séu svo skapi farnir, að þeir vilji bæta úr því samgönguleysi, sem allur sá fjöldi á við að búa, sem heima á austanfjalls. Og þó að þeir kunni að líta öðrum augum á en við flm., hvernig þeir vilja bæta samgöngurnar, þá vænti ég, að þeir láti til sín heyra, svo að kryfja megi rök þeirra til mergjar.

Það hafa heyrzt aðrar raddir og aðrar leiðir verið nefndar til þess að bæta samgöngurnar austur yfir Hellisheiði. T. d. hefir á síðari árum verið talað um fullkomnari bifreiðaveg og haldið fram af ýmsum, að breyta mætti svo veginum, að bifreiðarnar yrðu eins örugg samgöngutæki og járnbrautin. En sú vegarlagning og viðhald mundi eflaust kosta afarmikið fé, en um það ætla ég ekki að tala frekar að sinni.

Ég ætla þá að víkja nánar að fjárhagshlið málsins, og ætti þá að nægja að vísa til grg. frv., sem er sú sama og fylgdi frv. 1926, en þar er allnákvæm kostnaðaráætlun, gerð af þeim mönnum, sem rannsakað hafa þetta mál og undirbúið.

Þó að hér sé um dýrar samgöngubætur að ræða, þá er sú upphæð hverfandi, þegar litið er á, að nú á fáum árum hafa landsmenn varið til bifreiðakaupa eins mikilli fjárhæð og allur togaraflotinn kostar. Kunnugur maður hefir sagt mér, að á 4 síðustu árum muni láta nærri, að varið hafi verið til bifreiðakaupa um 4–5 millj. króna, og þó er ekki í þessari upphæð reiknað með varahlutum, gúmmí, benzíni o. fl. o. fl., sem of langt yrði upp að telja. (GunnS: Og kaup mannanna, sem við bifreiðarnar vinna). Ég drep á þetta atriði, svo að mönnum standi ljósar fyrir sjónum en áður, að það er mikið fé, sem varið er til þessara samgöngutækja. Og þó er þetta hvergi nærri fullnægjandi hér um slóðir, samgöngurnar eftir sem áður ófullnægjandi, þar sem umferðin t. d. austur yfir Hellisheiði getur teppzt hálft árið eða jafnvel lengur. Til þess að framfarirnar aukist og það fjármagn geti notið sín, sem lagt hefir verið í umbæturnar austanfjalls, þá er fyrsta skilyrðið, að samgöngurnar verði gerðar öruggar.

Ég geri ráð fyrir, eftir því sem hv. þdm. taka í þetta mál, að ég geti séð, hvaða hug þeir bera til framfara í landinu og hvaða augum þeir líta á þær. Ef þeir trúa á menningu og þroska þjóðarinnar með aukinni ræktun o. fl., þá er þetta mál líka sem undanfari þess.

Hæstv. ríkisstj. lét á sínum tíma falla þau ummæli á Alþ., að hún vildi taka til rannsóknar, hvað gera mætti til þess að bæta samgöngur héðan frá höfn og austur yfir fjall, og taldi þörf góðra og skjótra úrræða í því efni. Vona ég að sýni sig nú, að hún hafi eitthvað hafizt handa í þessu efni. Henni er kunnugt um, að það er alvörumál bæði neðan heiðar og austanfjalls, að eitthvað verulegt verði gert til þess að bæta úr því samgönguleysi, sem nú er.

Ég ætla svo að láta hér staðar numið að sinni með þeirri ósk, að takast megi að leysa þetta mál á þann hátt, að allir megi vel við una.