07.02.1930
Neðri deild: 17. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í C-deild Alþingistíðinda. (1149)

36. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mér var tjáð rétt fyrir fundinn, að hv. flm. mundu ekki játa þetta mál koma til umr. í dag. Þess vegna er ég ekki eins vel undirbúinn að hefja nú umr. um málið og annars hefði verið. En þó að mér kæmi þetta dálítið á óvart, mun ég ekki á þessu stigi málsins færast undan því að segja fáein orð.

Ég er sammála hv. flm. í því, að aðalatriði þessa máls sé að bæta og fullkomna samgöngurnar austur yfir fjall. En það er ekkert aðalatriði að slá því föstu nú þegar, að leggja skuli járnbraut austur að Ölfusá. Aðalatriðið er að komast eftir því með nákvæmlegri athugun, hvað bezt sé hægt að gera í þessu efni. Og að því vil ég vinna með hv. flm., að leysa þetta mál á sem beztan og öruggastan hátt fyrir alla hlutaðeigendur.

Aftur á móti er ég ekki hv. flm. sammála um það, að nú sé vitað, að það, sem lagt er til með frv. þessu að gert verði, sé eina rétta leiðin til samgöngubóta austur yfir heiði.

Ég legg áherzlu á það, og veit, að bændurnir eystra eru mér sammála þar um, að á engu ríður meir en að engin misstigin spor eigi sér stað í framkvæmd þessa mesta nauðsynjamáls héraðsins. Bændurnir hafa of oft rekið sig á það, að þó að yfirlýsingar verkfræðinganna liggi fyrir, þá hafa of mörg mistökin orðið í framkvæmdinni.

Í þessu máli á ekki síður við en annarstaðar: „Varðar mest til allra orða, undirstaðan rétt sé fundin“. (GunnS: Þarna er undirstaðan!).

Þegar járnbrautarmálið var hér síðast á ferðinni, þá var það bundið við annað mál: sérleyfi handa erlendu félagi til stórfelldrar fossavirkjunar í Þjórsá. Sérleyfisfrv. kom fram á þinginu 1927 og var þá samþ. Árið eftir, eða á þinginu 1928, kom málið aftur fyrir og þá borið fram sem fyrirspurn til stj. um það, hvort hún ætlaði að veita hinu erlenda félagi sérleyfið.

Eftir þeim gögnum, sem þá lágu fyrir, varð ekki séð, að félagið gæti neitt gert; m. ö. o., að þó að félaginu yrði veitt sérleyfið, vorum við járnbrautarlausir eftir sem áður. Og með þann þingmeirihl., sem ég hafði að baki, ákvað ég að veita ekki sérleyfið fyrr en trygging væri fyrir því, að félagið gæti lagt járnbrautina.

En þá lofaði ég að láta rannsaka málið og hvað hægt væri að gera til þess að bæta samgöngur austur um heiði. Þetta hefi ég gert. Ég hefi snúið mér til þess manns, sem er ráðunautur stj. í þessum málum, en það er vegamálastjóri landsins, og rætt málið við hann. Og einmitt vegna þessa máls og fleira fór vegamálastjóri utan og á fund Sverre Möllers, sem á sínum tíma mældi fyrir járnbrautinni og hefir gert kostnaðaráætlun yfir byggingu hennar. Hjá Sverre Möller fékk vegamálastjóri mjög ítarlega skýrslu, sem hv. þdm. hafa séð. Í þessari skýrslu leggur Möller til, að nákvæm rannsókn verði gerð um vegalagningu austur yfir heiði, svo að hafa megi til samanburðar við kostnaðaráætlun hans um járnbraut. Var vegamálastjóra falið að láta fara fram mjög ítarlega rannsókn vegar yfir Hellisheiði, sem fær sé bifreiðum sumar og vetur. Þessi rannsókn hefir verið gerð, en því miður er ekki búið að vinna enn úr þeim gögnum, sem fyrir liggja, en verður lokið von bráðar, og mun ég þá sjá um, að sú skýrsla verði lögð fyrir þá hv. n., sem þetta mái fær til meðferðar.

Ég verð því að segja, að þetta mál, sem telja má eitthvert stærsta nauðsynjamál héraðanna austanfjalls, sé á góðum rekspöl og að í náinni framtíð sjáist, hvað gera á til þess að bæta úr samgönguleysinu, sem nú er. Og þegar ég veit, með aðstoð góðra manna, hvað á að gera, þá skal ég vera reiðubúinn að gera það, sem hægt er, til þess að tryggja stærsta landbúnaðarhéraði landsins öruggar samgöngur.

Þá er eitt atriði enn, sem mér finnst rétt að bæta við þessar upplýsingar. Stj. hefir borizt tilboð um kaup á fullkomnari snjóbíl en áður hefir þekkzt, og búizt við, að þessi gerð bíla muni duga til þess að halda uppi samgöngum yfir Hellisheiði vetrarmánuðina. Er bíll þessi þegar pantaður og aðeins ókominn til landsins, svo að hægt verður að gera tilraunir með hann mjög bráðlega.

Vænti ég svo, að hv. samgmn. leggi mikla og góða vinnu í að leysa á sem hagkvæmastan hátt þetta þrifamál allra Sunnlendinga.