07.02.1930
Neðri deild: 17. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (1152)

36. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 1. þm. Skagf. beindi einkum orðum sínum til mín, sem ekki var að furða, þar sem þau snerust að mestu leyti um mál, sem honum er og hefir verið hjartfólgið, en hann telur, að ég hafi orðið að fótakefli. Ég vil drepa á tvö atriði þessa máls.

Hv. þm. lét í ljós mikla óánægju út af því, að ég væri ekki reiðubúinn til að taka afstöðu til járnbrautarmálsins, og þótti undarlegt, að ég væri enn á rannsóknarskeiði. En ég spyr: Á hverju reisir hv. þm. þá sannfæringu sína, að við eigum að leggja járnbraut? Hann reisir hana fyrst og fremst á áliti Sverre Möllers verkfræðings, þ. e. a. s. gamla álitinu. En hv. þm. hefir sér til afsökunar, að hann hefir ekki séð hið nýja álit Sverre Möllers, sem ég hélt, að allir þm. væru búnir að sjá. Það var sent út snemma í haust, svo að það er af misgáningi, að hv. þm. hefir ekki enn fengið það. En sem sagt, ég byggi á nýrra og rækilegra áliti en hv. þm. Hinu gamla áliti Sverre Möllers er svo mjög raskað með nýrra áliti sama manns og aðstæður eru yfirleitt svo breyttar, að við eigum að gá að því, hvort ekki má leysa málið með vegalagningu.

Hv. þm. vék að Títanfélaginu og taldi, að ég hefði brotið mjög mikið af mér með því að veita því ekki sérleyfi. Mér skildist á honum, að annars væri kannske búið að byggja járnbraut. Er hv. þm. að tala í alvöru? Hann spurði mig um tvennt: í fyrsta lagi, hvað ég hefði verið strangur í kröfum við Títan. Það hefir aldrei komið til, að ég gerði neinar kröfur til Títans, því að frá því félagi hefir aldrei legið neitt fyrir um fjárframlög, hvorki þegar aðalumboðsmaður þess kom hingað í fyrra, né áður. Hv. þm. segir, að hann hafi verið með í vasanum bréf frá norskum banka um að hann hefði nóg fé. Það bréf hefi ég aldrei séð, og yfirleitt talaði umboðsmaðurinn ekki eitt orð um, að hann hefði einn einasta eyri. Félagið bað um sérleyfi, það var allt og sumt.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði viljandi stöðvað þetta mál og brotið þingviljann. Ég skora á hv. þm. að koma fram með mál á hendur mér á þinglegan hátt. Ég hefi hvorki brotið þingviljann né þjóðarviljann í þessu máli. Hv. þm. stendur einn eins og ýlustrá á eyðimörk og heimtar Títansérleyfi.

Hv. þm. spurði mig, hvort það væri nokkur þjóðarógæfa, þó að járnbrautin væri komin. Ég álít, að af því geti stafað þjóðarógæfa, ef á að leyfa erlendu félagi að hreiðra hér um sig með fyrirtækjum, sem mundu nema 60–80 millj. kr. Ég endurtek það, að ég skora á hv. þm. að koma fram ábyrgð á hendur mér fyrir að hafa brotið þingviljann í Títan-málinu. Hv. þm. fær ekki einn af þúsund landsmönnum á sitt band. Ég býst við, að ef munað verður eftir mér fyrir nokkuð, sem ég hefi gert, þá verði það fyrir að ég hefi ekki lagt hönd á það verk að undirrita Títansérleyfið.