07.02.1930
Neðri deild: 17. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í C-deild Alþingistíðinda. (1155)

36. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég skal taka til athugunar óskir hv. 1. þm. Skagf. um að hann fái hið nýja álit Sverre Möllers. Ég vil líka geta þess út af því, að ég eigi að hafa lýst yfir því á fundi á Ægissíðu 1927, að ég væri eindreginn járnbrautarmaður, að ég lýsti þá yfir, að ég væri eindreginn fylgismaður þess, að fá hinar fullkomnustu samgöngur handa héraðinu. — Um „Títan“ er ekki margt að segja. Sérleyfistíminn er nú liðinn og félagið dottið úr sögunni. Málið þarf að fara aftur gegnum þingið, ef félagið á að fá sérleyfi. Hv. þm. spurði mig, af hverju ég hefði ekki veitt leyfið, fyrst ég hafi verið þess fullviss, að ekkert yrði úr framkvæmdum. Það var af því, að ég álít sóma landsins í hættu, ef hin og önnur félög geta veifað því framan í útlendinga, að íslenzka ríkið hafi veitt þeim slíkt sérleyfi. Þetta hefir verið gert, og ég álít, að varla sé hægt að gera þjóðinni meiri vansa. Í annan stað var það vegna þess, að meiri hl. þings skoraði á mig að veita ekki leyfið, nema því aðeins, að örugg vissa lægi fyrir um peningana.

Það vantaði mikið á, að sú vissa lægi fyrir. Og þá hafði ég þann öruggasta þingvilja á bak við mig, fyrir utan mína eigin skoðun um þetta mál. Um þetta þarf ekki meira að segja.

Hv. þm. sagðist aldrei hafa séð mig reiðari, enda hitti hann mig í hjartastað í þessu máli. Þetta er að vissu leyti rétt. Því að ég álít, að það sé svo alvarlegt mál, hvort það eigi að ofurselja útlendum mönnum svo mikið vald á þessu landi eins og átti að vera með þessum lögum. Mér er það svo mikið hjartans mál að hindra slíkt, að það særði mig í hjartastað, þegar minnzt var á að stofna til slíks voða fyrir þjóðina. Ef hv. 1. þm. Skagf. hefði haldið áfram að vera atvmrh. og ritað undir þetta leyfi, þá hefði hann sært þessa þjóð í hjartastað.