07.02.1930
Neðri deild: 17. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í C-deild Alþingistíðinda. (1160)

36. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil geta þess út af till. hv. 1. þm. Reykv. um, að fé skuli veitt til samgöngubóta við suðurláglendið án þess að ákveða fyrirfram, hvort það skuli vera járnbraut eða ekki, að ég get vel fellt mig við hana. (GunnS: Þetta er loðið). Það er till. hv. 1. þm. Reykv.; og þegar hv. þm. ásakar meðflm. sinn um, að hún sé loðin, þá fara nú að tíðkast hin breiðu spjótin. Og mér þykir hart, þegar ég tek vel undir till. frá einum hv. flm. frv., að þá skuli mér vera brugðið um, að ég sé loðinn. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að framkoma mín gagnvart fossafél. Títan bæri vott um, að ég hefði lítinn hug á samgöngubótum austur yfir fjall. Það, sem hv. þm. kallar samgöngumál Reykjavíkur og suðurláglendisins, var að eins 1/10 hluti af því stóra máli, sem Títan átti að fá einkaleyfi fyrir. Virkjun Urriðafoss, stofnun iðjuvera, innflutningur á útlendu fjármagni og verkafólki ásamt fleiru, voru 9/10 hlutar af því, sem sérleyfið fól í sér. Ef ég á að lýsa því yfir, hvað mér var annast um í þessu máli, þannig að ég mat það meira en 1/10 hluta þess — en það var að bjarga sóma þjóðarinnar, vernda þjóðerni vort og fjárhagslegt sjálfstæði. Í stuttu máli: það, sem hv. 1. þm. Skagf. og 1. þm. Reykv. vilja ofurselja erlendum aðilum og fjárgróðafélögum. (MG: Og mikill hluti Framsóknarfl. líka). Ég býst við, að þeir séu fáir hér á landi, sem nú mundu í alvöru fylgja þeim málstað, sem hv. l. þm. Skagf. berst fyrir.

Út af ræðu hv. 1. þm. Skagf. skal ég vera fáorður, einkum af því, að hann er nú dauður. Ég mun ekki láta í ljós neina gremju, eins og hann gerði í sinni fyrstu ræðu.

Það er náttúrlega gott fyrir hv. þm. að veifa nú þessu bréfi, sem hann þykist hafa og á að sanna, að Títan hafi haft peninga. En það var undarlegt, að mér skyldi ekki vera sýnt þetta merkilega bréf um fjárútvegun Títans, þar sem ég átti að veita sérleyfið og þurfti því að fá sannanir fyrir peningareiðum félagsins. Ég hefi ekki að fyrra bragði blandað fjárhagsástæðum eða peningaleysi Títans inn í þessar umr., og allt, sem ég hefi sagt um það mál, er sprottið af þeirri fyrirspurn, sem hv. 1. þm. Skagf. beindi til mín út af neituninni á sérleyfinu.

Um skoðanamun okkar almennt í þessum efnum þarf ég ekki mikið að segja; hann orðaði það svo, að hvorki framsóknar- eða íhaldsmenn væru því mótfallnir, að útlend auðfélög fengju alræðisvald hér á landi, það væru aðeins svörtustu afturhaldsmenn, sem andæfðu því. Hv. þm. óttast það ekkert, þó að útlendu fjármagni sé veitt hindrunarlaust inn í landið; en um þetta efni er ég íhaldssamur á allt, sem er frumstætt og gott í fari okkar íslenzku þjóðar. Einkunnarorð hv. 1. þm. Skagf. eru þau, að bjóða útlenda menn velkomna inn í landið með það fjármagn, sem þeir vilja með sér hafa, og veita þeim ýmiskonar sérréttindi og fríðindi fram yfir innlenda menn. Um það má viðhafa hið forna latneska spakmæli, sem Magnús Stephensen landshöfðingi vitnaði til í umr. á Alþingi, þegar talað var um að leggja niður Landsbankann: „Timeo Danaos et dona ferentes“. — Það svarar að miklu leyti til þessarar málsgr. á íslenzku: „Trautt mun ek trúa þér, troll, kvað Höskollur“.