07.02.1930
Neðri deild: 17. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (1164)

36. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Magnús Guðmundsson:

Ég bað eiginlega ekkert um það að fá að bera af mér sakir, en ég get gjarnan notað tækifærið til þess að svara hæstv. forsrh. fáum orðum. Hann sagði, að ég vildi láta útlendinga vaða hér uppi og veita þeim sérleyfi í öllu. Þetta eru staðlausir stafir og ástæðulausar getsakir. Ég vil minna hæstv. ráðh. á það, að hér gilda lög, sem heita sérleyfislög, sem þingið hefir samið, svo að um fossavirkjun án vilja og vitundar þingsins getur ekki verið að ræða, og hvað slíka fossavirkjun snertir, þá er leyfið háð svo miklu eftirliti, að þar er vel fyrir öllu séð af okkar hálfu. Ágreiningurinn milli mín og hæstv. ráðh. er um traustið á íslenzku þjóðinni. Ég treysti henni. Hann vantreystir henni. Ég hefi áhuga fyrir rafhitun og raflýsing sveitanna. Ráðh. er áhugalaus um þessi mál, kjarklaus og hræddur. Hann er afturhaldssamur, en ég ann framförum. Ég sé í anda þéttsett og blómleg bændabýli, raflýst og rafhituð meðfram rafknúinni járnbraut. Hann sér ekkert af hræðslu við útlendingana.