01.02.1930
Neðri deild: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í C-deild Alþingistíðinda. (1174)

48. mál, póstlög

Flm. (Magnús Jónason):

* Með þessu litla frv. er farið fram á að auka verksvið póstsins. Eftir núverandi fyrirkomulagi er borgað undir blöð og tímarit eftir sérstakri gjaldskrá, þannig að það, sem senda á, er vegið í heilu lagi og greitt undir það 25 au. fyrir hvert ½ kg. yfir sumartímann en 50 au. yfir vetrartímann, og er þá miðað við 15. okt. og 15. apríl. Auk þess hefir pósturinn útburð bréfa í nokkrum bæjum, en í frv. þessu er ætlazt til, að hann hafi einnig útburð blaða og tímarita með höndum. Eftir núgildandi gjaldskrá er slíkt með öllu ómögulegt, enda nær engri átt að taka sama burðargjald fyrir blöð og tímarit innan bæja, þar sem póstur er borinn út, eins og tekið er fyrir að flytja þessar póstsendingar út um land. Það virðist einsætt, að ef taxtinn yrði settur niður eins og þetta frv. fer fram á, yki það mjög þau þægindi, sem almenningur hefir af póstinum. Hvað starfið sjálft snertir, þá er eðlilegast að láta póstana hafa það með höndum, vegna þess að þeir eru þaulkunnugir innan bæja og þaulvanir, auk þess sem búast má við, að bráðlega verði farið að bera allan þyngri póst út í bifreiðum, eins og þegar er byrjað hér í Reykjavík. Í þessu frv. er taxtinn settur 15 au. allt árið, og er það hlutfallslega álíka og undir bréf. Nær auðvitað engri átt að hafa mismunandi burðargjald innan bæja eftir árstíðum. Vitaskuld er það algerlega á valdi nefndar eða þingsins að ákveða taxtann, hnitmiða hann niður, eftir því sem réttast þykir. Kæmi varla til mála, að póstsjóður missti nokkrar tekjur, þótt taxtinn yrði lækkaður, því starfsemi póstsins myndi að sama skapi vaxa stórkostlega. Gæti vel komið til mála að færa út verksvið póstsins til verulegra muna, t. d. láta hann annast innheimtu innanbæjar meir en nú er gert. Getur líka komið til mála að einstrengja ekki þessa starfsemi við einstaka bæi. Yfirleitt er það enn óleyst verkefni, hvernig má láta þessa stóru stofnun, póstinn, verða meira þjóðnýta — ekki þjóðnýtta — en hún er nú.

Ég hefi ekki farið fram á annað en þetta eina, en þykist þess fullviss, að ef þetta frv. verður samþ., myndi það auka starf og gagn pósta innanbæjar, og ef hæfilegt gjald væri greitt fyrir, myndi þetta geta orðið tekjulind.