04.02.1930
Neðri deild: 14. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (1180)

51. mál, kosning þingmanns fyrir Siglufjarðarkaupstað

Bernharð Stefánsson:

Mér finnst það ekki mega minna vera en að ég færi flm. þessa frv. þakkir fyrir það, hvað þeir bera mikla, umhyggju fyrir mínu kjördæmi, eins og hefir sýnt sig í því, að þeir flytja þetta frv. Það er auðvitað mál, og kemur engum þdm. á óvart, hver mín aðstaða er til þessa máls; það er sem sagt ekki nein ný tillaga á Alþingi, að Siglufjörður verði gerður að sérstöku kjördæmi. Fyrirrennari minn mun hafa hreyft þessu máli, og ég ætla að ég hafi tvisvar til þrisvar gert tillögu um það, að Siglufjörður yrði sérstakt kjördæmi. En sú tillaga hefir ekki til þessa fengið neitt góðan byr.

Eins og öllum er kunnugt og ég hefi margbent á í sambandi við þetta mál, hefir frá því fyrsta verið fylgt þeirri grundvallarreglu, að hvert lögsagnarumdæmi væri kjördæmi út af fyrir sig. Frá þessu hefir ekki verið vikið að öðru leyti en því, að kaupstaðir, aðrir en Reykjavík, urðu ekki sérstök kjördæmi fyrr en 1904. Hafnarfjörður og Siglufjörður höfðu þá ekki fengið kaupstaðarréttindi, en fengu þau síðar, án þess þó að vera gerðir að sérstökum kjördæmum. Nú er búið að bæta úr þessu að því er snertir Hafnarfjörð, en Siglufjörður hefir verið skilinn eftir. Þegar af þessari ástæðu er rétt að samþykkja frv.

Í greinargerð frv. er alveg réttilega tekið fram, að Siglufjörður á við að búa mjög sérstaka aðstöðu um atvinnurekstur, og það getur ekki verið Alþingi annað en gróði, að maður, sem er sérstaklega kunnugur öllum atvinnuháttum á Siglufirði, eigi sæti á þingi. Aðstaðan er nú sú í Eyjafjarðarkjördæmi, að aðrir hlutar kjördæmisins en Siglufjörður hafa að langmestu leyti ráðið um, hverjir yrðu þingmenn.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði um það, að ef ætti að fara að fjölga þingmönnum, þá væri rétt að byrja í Reykjavík. Þetta kann að vera rétt, ef eingöngu er litið á tölu kjósenda. En hér á fleira að koma til greina. Ég er til dæmisviss um, að ekkert kjördæmi landsins er eins vel sett og Reykjavík að því leyti, að þingmenn eru svo vel kunnugir öllum hennar högum. Á Alþingi er miklu minni þekking á þörfum og högum Siglfirðinga en Reykvíkinga. Það sýna bezt ræður ýmissa þingmanna á undanförnum þingum.

Ég endurtek þakklæti mitt til hv. flm. og leyfi mér að mæla hið bezta með því, að frv. nái fram að ganga.