28.03.1930
Neðri deild: 65. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í C-deild Alþingistíðinda. (1190)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Áður en ég sný mér að málinu sjálfu ætla ég að víkja að þeim ummælum hv. 2. þm. G.-K., að frsm. minni hl. væri hér ekki viðstaddur og málið hefði verið afgr. í n. án hans. Ég verð að segja, að það er sök hv. frsm. sjálfs, að hann kom ekki á þann nefndarfund, sem málið var afgr. á, sökum þess að honum hafði verið boðaður fundurinn skriflega, og nú er það einnig hans eigin sök, að hann er ekki viðstaddur. Um málið sjálft ætla ég ekki að vera langorður fyrir hönd n. Meiri hl. hefir viljað fallast á frv., en tekið nokkurt tillit til minni hl., eins og brtt. á þskj. 263 sýna. Það er eitt höfuðatriðið, sem á milli ber, og það er, hvað hægt sé að hafa skattstigann háan. Ef tekju- og eignarskattur hefði verið tekinn hér í einu lagi, þá hefði skattstiginn orðið hærri en ákveðið er í frv. og lögum, en þar sem ¾ hlutar eru teknir með niðurjöfnun eftir efnalegum ástæðum, þ. e. útsvör lögð á, en ef skattstiginn yrði fjórfaldaður, gætu menn séð, að hann er ekki lágur. Í sjálfu sér er það ofurauðvelt að hugsa sér að auka tekjur ríkissjóðs á þann hátt, sem hv. minni hl. leggur til, en það kemur þá fram í því að taka tekjur af sveitarfélögum. En það verður að taka tillit til tekjuþarfar þeirra, og þar sem þau hafa ekki annan tekjustofn, þá er ekki hyggilegt né réttlátt að svipta þau honum eða rýra hann að mun, því að sveitarfélögin geta ekki veitt sér aðrar tekjur, en það getur ríkið, sem hefir vald á öllum tekjustofnum. — Ég hefi þá dvalið við aðalágreiningsatriðið bæði í mþn. og í n. hér á þingi, og mun því ekki fjölyrða um það frekar að sinni. en snúa mér að einstökum brtt., sem meiri hl. n. leggur til, að samþ. verði.

1. brtt. er tekin upp samkv. till. minni hl. skattamálan., og miðar hún að því, að þeir menn, sem starfa erlendis í þjónustu hins íslenzka ríkis, skuli undanþegnir tekjuskatti af þeim launum, sem þeir fá fyrir þau störf. Hin eina breyt., sem hér er farið fram á, er sú, að í staðinn fyrir, að þetta sé ákveðið með konunglegri tilskipun, skuli það nú fastákveðið að lögum, og féllst meiri hl. á það. Þá er 2. atriði þessarar 1. gr., sem miðar að því, að ríkisstj. sé heimilt að gera samninga við stjórnir annara ríkja um. gagnkvæmar ívilnanir á tekju- og eignarskatti og öðrum gjöldum, en sú breyt., sem hér er gerð, er sú ein, að samkv. frv. átti það aðeins að vera heimilt að semja við stjórn Dana.

Þá eru tvær brtt. við 10. gr. Brtt. 2. a. gengur ekki út á annað en að í stað þess, að talað er um í frv., að fjmrh. skuli geta sett fyrirmæli um heimild vátryggingarfélaga, þá nái þetta aðeins til innlendra vátryggingarfélaga. Hér er farið eftir till. minni hl.

Þá er 2. b. 5. málsgr. er gerð nokkru róttækari en áður. Fer brtt. fram á, að lögboðið tillag samvinnufélaga í varasjóð sé undanþegið skatti. En félögin eru, sem kunnugt er, lögskyld til að leggja 1% af veltu sinni í varasjóð. Hætti félagið störfum, verður varasjóðurinn eign þess héraðs, sem félagið starfaði i. Um varasjóðsfé lautafélaga skiptir talsvert öðru máli. Þeim er ekki lögskylt að leggja fé í varasjóð, og ef þau gera það, þá er það aðeins hluti af tekjum þeirra, sem þangað rennur, og ef félagið hættir störfum, verður sjóðurinn eign hluthafanna. Þessi brtt. gengur nærri því, sem lagt er til í frv. minni hl., en þó nokkuð öðruvísi.

3. brtt. a. er afleiðing af 2. b., en brtt. 3. b. er miðlunartill. í nefndinni. Í frv. meiri hl., sem fyrir liggur, er ekki ætlazt til, að tekjuskattur, eignarskattur eða útsvar, sem greitt hefir verið fyrra ár, dragist frá skattskyldum tekjum. Upphaflega var svo ákveðið, að þessi frádráttur var ekki leyfður, en seinna komst sú breyt. á, að leyft var að draga tekjuskatt, eignarskatt og útsvar frá. Við það rýrnuðu auðvitað tekjur ríkissjóðs. Gæti ég gefið nokkurt yfirlit um þá rýrnun, en mun þó ekki koma með það að sinni.

Nú er gert ráð fyrir í frv., að horfið verði að hinu upphaflega fyrirkomulagi. Um þetta hefir orðið ágreiningur í n. Miðlunartill. gengur í þá átt, að leyfður verði hálfur frádráttur. Hér er mætzt á miðri leið, og má því vænta, að samkomulag geti orðið um þessa brtt. Ef hún nær samþykki, rýrna að vísu tekjur ríkissjóðs nokkuð frá því, sem gert er ráð fyrir í frv., en þó ekki svo verulega, að ekki sé hægt að ganga að henni. Meiri hl. ætlaðist til, að sú hækkun á skatti, sem leiddi af því, að leyfa ekki þennan frádrátt, vægi á móti þeirri lækkun, er leiðir af hækkun á persónufrádrætti. Ábyggilegar tölur liggja þó ekki fyrir um þetta, og vonum við, að brtt. þessi valdi ekki verulegri röskun, ef samþ. verður. Mín persónulega afstaða er að leyfa engan frádrátt, eins og ákveðið var í upphafi.

4. brtt. er orðabreyt., en þó heldur til bóta.

Um brtt. og nál. minni hl. fjhn. þykir mér ekki ástæða til að ræða fyrr en frsm. hefir gert grein fyrir sinni afstöðu.