28.03.1930
Neðri deild: 65. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í C-deild Alþingistíðinda. (1193)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Jónsson:

* Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta. — Ég vildi fyrir mitt leyti aðeins mæla mjög eindregið með brtt. hv. þm. Dal., á þskj. 264. Það er náttúrlega ekki þörf á því að bæta neitt um þau rök, sem hv. þm. kom með í þessu máli, a. m. k. ekki á meðan ekki hefir verið reynt að andmæla þeim. En það sýnist liggja nokkuð í augum uppi, að ríkið leggur skatt á þann hluta af tekjum manns, sem það sjálft með lögum tekur af honum í tekjuskatt. Þessi upphæð, sem goldin er í aukaútsvar og tekjuskatt, er að því leyti sérstæð, að það er alveg ákveðin upphæð af tekjum manns og verður sama sem tekjulækkun.

Ég gat um það, þegar tekjuskatturinn var hækkaður mikið, að það kom mjög einkennilega við fyrir starfsmenn ríkisins, þegar þeir höfðu fengið sín laun hækkuð, að taka mikið af þeim launum aftur í ríkissjóð. Ég tel, að þótt þetta muni menn ekki svo miklu, að meinlegt sé, þá sé það svo mikill ljóður, að það megi ekki henda að menn greiði tekjuskatt af öllu, eins og hér er ætlazt til, eða þá af helmingi. Annaðhvort er rétt, og að því, sem réttara þykir ætti Alþingi að hverfa.

Þá vil ég sérstaklega víkja að brtt. hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf., þar sem þeir ekki vilja láta ganga út á þá nýju braut að gera persónufrádráttinn mismunandi, eftir því hvar viðkomandi menn eru búsettir. Ég álít einmitt, að þetta sé merkilegasta nýmælið í þessu tekjuskattsfrv., og væri mjög sennilegt, að sú stefna, sem þar er gengið inn á, verði látin ganga töluvert lengra en til þessa tekjuskattsfrv. Reynslan hefir sýnt svo víða, að það verður svo mikill munur a. dýrtíð á ýmsum stöðum í löndunum, ekki aðeins hér, heldur líka annarsstaðar, að það er að verða ómögulegt að borga mönnum jafnmikið fyrir störf í ríkisins þarfir, þegar litið er til þess, hvar þeir búa í landinu, og þetta hefir neytt þingin til að samþykkja hina svokölluðu staðaruppbót, sem fer eftir því, hvar menn eru búsettir í landinu.

Nú er mjög erfitt að ákveða þetta nákvæmlega, og víðast mun hafa verið horfið að því að taka fyrst höfuðstaðinn og flokka síðan eftir stærð bæjanna, því að reynslan er sú, að það er löngum því dýrara að lifa í bæ, sem hann er stærri og lífið þar af leiðandi fjölbreyttara. Yfirleitt má segja, að það kosti sama mann miklu meira að lifa í stórbæjum heldur en smábæjum, og í smábæjum meira en í sveitum.

Nú skal ég náttúrlega viðurkenna það, að þessi persónufrádráttur, sem hér er farið fram á, munar svo afarlitlu, að það verður mjög lítið til að jafna mismuninn, en ég álít, að það, sem slegið er föstu með þessari reglu, sé rétt, og því sé rétt að innleiða hana á þennan hátt, þótt lítið sé í byrjun. Ég get ekki fallizt á þau rök hv. þm. Borgf., að það sé neitt athugavert við það, þótt hér sé gengið inn á nýja braut, og þótt verið sé að gefa mönnum mismunandi aðstöðu, eins og hv. þm. sagði; reynslan hefir kennt okkur viðvíkjandi tekjuskattinum, að menn hafa ekki alltaf hrokkið við, þótt aðstaða hafi verið mismunandi gagnvart þeim lögum; reynslan hefir sýnt, að þau hafa aðallega hvílt þungt á mönnum, sem búa í kaupstöðum og verða að búa þar, við föst, ákveðin laun. Við skulum taka það dæmi, sem athugað hefir verið, að búðarmaður í Reykjavík hefir borið eins háan tekjuskatt og bændur í tveim stórum hreppum, þar sem maður veit, að eru margir efnamenn, sem hafa haft miklu meiri tekjur og betri aðstöðu en þessi búðarmaður í Reykjavík. Aðstaðan hefir verið mjög misjöfn, án þess að um nokkurt skattfals sé að ræða, og þótt nokkuð mismunandi aðstaða skapist við þetta, þá er það svo lítilfjörlegt, samanborið við það misrétti, sem alltaf leiðir af tekjuskattslögunum. Þessi persónufrádráttur er miðaður við það, að maðurinn eigi að hafa eitthvað til framfærslu hvers þess, sem hann á að sjá um, og þá er rétt, að þessi frádráttarupphæð sé miðuð við það, hve mikið kostar framfæri einstaklings á þessum stað, og þótt ekki sé farið fram á að draga frá eins mikið og þarf, þá á það að metast hlutfallslega og þess vegna alveg rökrétt að hafa það mismunandi hátt.

Hv. þm. hafði það á móti þessu, að engin rannsókn hefði farið fram um það, hvað það kostaði að lifa hér á landi. Þetta er alveg satt og það er sjálfsagt sett mjög af handahófi, en það er alveg áreiðanlegt, að þetta handahóf er allt í hina áttina, að það kemur ekki neitt til að vega upp á móti því, hve mikið framfæri einstaklinga kostar á þessum stöðum. Eins eru líka þau mótmæli, að mismunandi dýrt sé að lifa á hinum ýmsu stöðum og mismunandi aðstaða sé til að afla sér tekna. Þetta er hugsunarvilla, því að mismunandi möguleikar koma fram í mismunandi tekjuskatti. Ef ég get aflað mér helmingi hærri tekna í Reykjavík en á Akranesi, verð ég að gjalda tekjuskatt af helmingi hærri upphæð, og ég má alveg eins fá hærri frádrátt á mínum framfærslukostnaði.

Ég ætla að vonast til, að hv. d. hiki einmitt ekki við, þótt hér sé um nýmæli að ræða, að samþykkja till. frv. um þessi mál. Annars ætla ég ekki að fara neitt út í fleiri atriði þessa frv.