21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

1. mál, fjárlög 1931

Sveinn Ólafsson:

Ég verð að víkja fáeinum orðum að hv. frsm. síðari kaflans, og ég til vill fleirum, en einkum mun mál mitt verða við hann miðað. Áður en ég kem að undirtektum hans við brtt. mínar á þskj. 302, virðist mér ástæða til að vekja eftirtekt hv. þdm. á hinum stórhöfðinglegu hrossakaupum, sem hv. þm. bauð hér í gærkveldi. Þau eru svo einstæð, að ég get ekki orða bundizt um þau. Ég hefi aldrei fyrr heyrt slíkt hrossakaup boðin. Hv. frsm. á einhverja farfugla- eða umrenningatill., sem nemur 1.500 kr., og býður hann öllum öðrum þm. hér í hv. deild að afturkalla þessi till., ef þeir taki allar sínar brtt. aftur. Þetta er sannarlega virðingarverð viðleitni til þess að fá góða afgreiðslu á fjárl., og lýsir þetta tilboð mjög mikilli fórnfýsi af hendi frsm., þótt hann bjóði hér ójöfn kaup. Ég veit nú ekki nema ég hefði slegið í slík hrossakaup, ef ekki stæði nú svo á, að flestar þær brtt., sem ég er riðinn við, eru fluttar með öðrum. Ég treysti mér því ekki að taka þær aftur vegna meðflm. eða að taka þessu höfðinglega boði.

Vík ég þá að þeim brtt. á þskj. 302, sem nafn mitt stendur við. Er þá fyrst VI. brtt. á því þskj.till. lýtur raunar ekki að fjáreyðslu, heldur að sparnaði. Þar er gerð till. um, að 35 þús. kr. fjárveiting til að byggja upp í Bakkaseli sé færð niður í 10 þús. kr. Hv. 1. þm. Árn. er nú nýkominn með brtt. við mína till. og leggur hann til, að liðurinn verði 25 þús. kr., og á þetta víst að heita miðlunartill. Ætlast hv. þm. til, að ég taki brtt. mína aftur. En ég get nú samt sem áður ekki gengið að till. hans. Mér finnst óþarflega langt farið með 25 þús. kr. fjárveitingu. Ég bjóst satt að segja við, að því yrði tekið með þökkum af hv. fjvn., að gerðar væru till. um að lækka einhverja óþörfustu liðina, og þetta er einn af þeim lakari. Nefndin hefir sýnt lofsverðan áhuga á því að ganga móti óþörfum fjárveitingum. Ég hélt því, að hún mundi verða þakklát hverjum, sem vildi styðja hana að því verki. En hið undarlega hefir þó skeð. Hv. frsm. fjvn. og fleiri hv. þm., þar á meðal hæstv. fjmrh. hafa lagt á móti lækkunartill. minni. Ég verð því að sýna fram á það, að þessi till. er ofur eðlileg frá minni hendi. 10 þús. kr. ættu sannarlega að duga til að byggja upp þetta kuldakot, sem aðeins er metið 1.100 kr. Byggingar á dýrasta býli þessa hrepps eru virtar á 1.700 kr. Og þótt þetta eigi nú að heita gististaður, þá finnst mér ástæðulaust að reisa slíkan gildaskála fram í öræfum, að meira kosti en 10 þús. kr. Ég verð að segja, að mér kom á óvart, að hv. fjvn. skyldi leggja svo fastlega móti till. minni um sparnað. Það var eins og ég hefði boðið hundi heila köku, og þarna var ég þó að aðstoða nefndina í að draga úr óhóflegum gjöldum og spara ríkisfé. Annars ætla ég ekki að tefja lengur við þessa till. Úr því henni er svo illa tekið, þá læt ég slag standa um hana.

Hv. frsm. síðari kaflans hafði þau orð um framkomu mína við 2. umr. fjárl., að ég hefði ámælt öðrum fyrir till. til útgjalda, en síðan siglt í kjölfar þeirra. Sannleikurinn er nú sá, að ég hefi enga brtt. til útgjalda borið fram einn. En ég sá mér ekki annað fært en að flytja tvær smábrtt. með öðrum hv. þdm., og ég vil fullyrða það, að þær eiga eins mikinn rétt á sér eins og allur þorri annara till., önnur jafnvel óhjákvæmleg, en um réttmæti till. má auðvitað lengi deila.

Ég kem þá hér að XXV. till. á þskj. 302, sem hv. 1. þm. N.-M. og hv. 1. þm. Reykv. flytja með mér. Það er nýr liður til útgáfu allt að 20 arka af þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar frá, 1.500 kr. Hv. frsm. taldi þetta ekki aðkallandi. Hann sagði, að þetta safn væri til og að það mundi ekki ganga okkur úr greipum, og mundi því jafnan verða tiltækt þegar fræðimenn vildu nota það. Þetta er mikill misskilningur. Safnið er einkaeign höfundarins. Getur hann því fargað því hvenær sem hann vill eða hvert sem hann vill. Er því alls ekki víst, að það verði jafn tiltækilegt, nema því aðeins, að það sé gert nothæft fyrir almenning á þann hátt, að það sé gefið út. Í raun og veru er hér líka um litla fjárhæð að ræða, samanborið við það verk, sem þessi maður hefir unnið. Hann hefir varið mestum hluta æfi sinnar í þágu þessa verks og bjargað með því frá gleymsku óhemju af þjóðlegum fræðum.

Það er auðvitað rétt, sem hv. frsm. tók fram, að þetta safn er nokkuð misjafnt að kostum, svo sem eðlilegt er um slíkt safn. Það er margt í því, sem ekki er sérstaklega eftirsóknarvert að komi á prent eða útgengilegt á bókamarkaði. En svo eru aðrir hlutar þess, sem mjög mikils er um vert og fræðimenn telja sígilt. Og það er eðlilegt, úr því að höfundurinn tók sér fyrir hendur að safna heimildum og draga fram einskonar myndir af hugsunarháttum og venjum kynslóða, sem lifðu á öndverðri síðastl. öld og fram að aldarlokum, að þá yrði það nokkuð misjafnt að áferð og útliti, en til þess að slík mynd hefði verið rétt, er ekki nóg að taka aðeins fegurstu drættina.

Þó að ég hafi ekki fengið færi á að kynnast nema nokkrum deildum safnsins, þá fullyrði ég, að það er margt í því, sem mikill ávinningur er fyrir almenning að fá gefið út. Þess skal hér getið til leiðbeiningar, að einn bókaútgefandi landsins hefir boðizt til að gefa safnið út strax, ef þessi umræddi styrkur fengist. Og ef þetta tækifæri til útgáfu á safninu gengur úr greipum, þá er áreiðanlega ekki eftir öðru betra að bíða fyrst um sinn.

Þá vildi ég fara nokkrum orðum um L. brtt. á þskj. 302, sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. Eyf. og hv. 1. þm. N.-M., um að hækka ekkjustyrk frú Susie Briem úr 300 kr. upp í 1.000 kr. En við þessa till. okkar er fram komin brtt. frá hv. frsm. síðari kaflans, sem fer fram á, að styrkupphæðin sé færð úr 1.000 kr. niður í 800 kr. Hv. frsm. hafði það eitt á móti till. okkar, að honum virtist styrkurinn nokkuð hár. Ég vil nú ekki vanþakka þá viðleitni hans að vilja mæta okkur á miðri leið. Mér er sagt, að þessi kona sé vegna heilsubilunar og elli komin að fótum fram. Að vísu má segja, að sæmilega sé við hana gert, ef farið er eftir brtt. hv. frsm., en óneitanlega er þetta smáskorið, að klípa af þessar 200 kr. — Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að mér þætti rétt, að þessari konu væri sýnd nokkur viðurkenning þess, að þjóðin stendur í stórri þakklætisskuld við fósturföður konu þessarar, þótt hann sé löngu látinn. Hann var ekki aðeins bjargvættur hinna íslenzku landnema 1874, sem settust að í Nýja-Íslandi, heldur allra Íslendinga, sem vestur fluttust til Canada á fyrsta tímabilinu eftir að Ameríkuferðir hófust héðan af landi. Ég efast um, að nokkur útlendur maður hafi gert eins mikið fyrir íslenzku útlagana í Vesturheimi og hann. Og ef það á að viðurkenna þessa starfsemi hans á annað borð, þá er tæplega hægt, úr því sem komið er, að gera það betur á annan veg en þann, að láta þessa öldruðu kjördóttur hans njóta mannúðarstarfsemi fóstra sína; og þá má viðurkenningin tæpast minni vera en þetta, sem till. mín fer fram á. Þess vegna get ég ekki tekið hana aftur og hallazt að miðlunartill. hv. frsm. Eftir öllum líkum að dæma getur hér ekki orðið um langvarandi styrk að ræða, þar sem konan er komin á áttræðisaldur, og eigi líklegt, að hún eigi langa æfi eftir.

Þá á ég eftir að minnast á LVI. brtt. á þskj. 302, um að heimila ábyrgð ríkissjóðs fyrir allt að 90 þús. kr. láni fyrir Samvinnufélag Eskfirðinga, til kaupa á fiskiskipum. Hv. frsm. sagðist ekki geta fylgt þessari brtt. En eitthvað hyllti þó undir það í ræðu hans, að einhverjir aðrir fjvnm. mundu standa þar nærri. Ég get verið þakklátur fyrir þau tilboð frá hinum nefndarmönnunum. En mig furðar á því, að hv. frsm. skuli gefa þessa yfirlýsingu fyrir sjálfan sig persónulega.

Á öðru þskj., 319, flyt ég brtt. við þessa till. mína, þar sem ákveðið er, að á eftir orðinu „Eskifjarðarhreppi“ komi: og Suður-Múlasýslu, — og er þar með ákveðið að krefjast bakábyrgðar S.-Múlasýslu, auk annara trygginga, sem settar eru fyrir láninu gagnvart ábyrgð ríkissjóðs. Þar sem fyrst er um að ræða sjálfskuldarábyrgð allra félagsmanna og auk þess bakábyrgð Eskifjarðarhrepps og S.-Múlasýslu, þá finnst mér satt að segja, að lánið sé orðið svo vel tryggt, að það muni ekki þurfa að taka til ríkisábyrgðarinnar, hvernig sem fer, og þess vegna sé hún aðeins veitt fyrir formssakir. Hv. frsm. líkti þessari ábyrgðarheimild við lánsábyrgð ríkissjóðs fyrir Samvinnufél. Ísfirðinga, og kveðst hann þá hafa sett fram þann fyrirvara, að hann vildi bíða eftir því, hvernig sú ábyrgð reyndist og hvort hún yrði að slysi, áður en lengra yrði gengið um ríkisábyrgðir til útgerðarfyrirtækja. Út af því vil ég minna hv. frsm. á það, að hér stendur mjög ólíkt á. Ísfirðingum var veitt ábyrgð fyrir 320 þús. króna láni, með bakábyrgð kaupstaðar, sem hefir tæplega 2.000 íbúa, en hér er aðeins um að ræða 90 þús. kr. lán fyrir kauptún, sem hefir á áttunda hundrað íbúa og með þeim bakábyrðum, sem áður er frá skýrt. Bakábyrgð Ísafjarðarkaupstaðar er ekki líkt því eins sterk og sú, sem ætlað er að setja fyrir þessu láni Eskfirðinga. Þar sem ábyrgð margra einstaklinga, hreppsfélags og sýslufélags standa á bak við, er engin áhætta; hún kemur alls ekki fyrir. Þess vegna er hér ekki um neina áhættu að ræða fyrir ríkissjóð, heldur aðeins ábyrgð að nafni til.

Ég skal svo ekki tefja lengur fyrir því, að aðrir geti tekið til máls. Þótt hér séu að vísu fleiri brtt„ sem ég vildi drepa á, þá ætla ég að sleppa því, svo að atkvgr. dragist ekki um skör fram. Ég mun að mestu fylgja fjvn. og greiða atkv. á móti öllum þorra brtt., sem lúta að auknum útgjöldum úr ríkissjóði.