02.04.1930
Neðri deild: 69. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í C-deild Alþingistíðinda. (1202)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Þótt hægt sé að halda uppi umr. um svona stórt mál, þá hafa þær þó ennþá ekki farið dreift, að undanteknum síðasta ræðumanni. Það, sem farið hefir milli n.hlutanna, sé ég enga ástæðu til að ræða nánar. Ég vil leggja það mál undir hv. deild.

Hv. þm. Ísaf. byrjaði á því að telja nál. meiri hl. eitt af þeim einkennilegustu nál., sem hann hefði séð, vegna þess, að nm. hafa flestir skrifað undir það með fyrirvara. Þetta er þó ekki neitt undarlegt, þar sem um svona stórt mál er að ræða og jafnviðkvæmt og skattamál eru. Er þá eðlilegt, að hver og einn verði að brjóta af sinni skoðun til samkomulags við aðra. Fyrirvarinn þýðir það, þótt nm. hafi ekki fundið ástæðu til að gera grein fyrir þeim fyrirvara, að einum undanteknum.

Hv. þm. taldi frv. verra en ekkert, þó fram gengi. Ég vil í sambandi við það geta þess, að hann hefir sjálfur unnið að texta frv. ágreiningslaust með n. Og brtt. sína bar hann ekki fram fyrr en n. öll hafði lokið athugun á frv. og samþ. öll sameiginlegan teksta þess, að skattstiganum undanteknum. Það mátti skilja, að skattstiginn er sá punktur, sem megináherzlan er lögð á. En afstaða meiri hl. byggist á því, sem þegar er lýst, ekki af því, að ekki sé hægt að hugsa sér skattstigann hærri, ef tekju- og eignarskattur væri einu álögurnar, sem hvíldu á þessum skattstofni. En það er nú fjarri því, að svo sé, því á þennan sama skattstofn er lögð þrefalt hærri upphæð í útsvörum. Það væri gaman að sjá skattstiga, sem hægt væri að heimta eftir jafnháa upphæð og tekju- og eignarskattur og útsvör nema til samans.

Um einstök atriði, sem áður hefir verið talað um, og till. hins frv., svo sem um dráttarvexti. hefi ég rætt áður. En ég vil þó geta þess, að ef taka ætti upp þá reglu að reikna dráttarvexti af tekju- og eignarskatti, þá gæti vel svo farið, að það leiddi til þess, að skatturinn greiddist verr og seinna en ella. Gjaldandi getur sagt sem svo, að ekkert geri til, þó greiðsla dragist, því hann borgi dráttarvexti. Svo þegar á að fara að ganga að þessu seint og síðar meir, þá getur hagur hans hafa versnað svo í millitíðinni, að skatturinn tapist að meira eða minna leyti. Í sveitum er það svo, að slík gjöld eru borguð undantekningarlítið, þegar þeirra er krafizt. Vera má, að önnur regla sé höfð á þessu í kaupstöðunum. En ég veit þá ekki, á hverju sú regla byggist, nema þá óleyfilegri hlífð við gjaldendur. Að ég hafi sagt, að greitt væri fyrir gjalddaga, er vitleysa. En ég hefi sagt, að þar, sem ég þekki til, væri þetta greitt á gjalddaga (HV: Í Reykjavík er ekki hægt að innheimta skattinn á einum degi!). Gerir ekkert til. Hér mætti taka til þess viku, eða jafnvel mánuð, eftir því sem þurfa þætti.

Það er rétt hjá hv. þm., að það er hægt að hugsa sér það, að taka meiri hl. af tekjunum eftir hinum þrem frv. hans, sem eru eiginlega tengd saman. En till. hans um tekjur af fasteignaskatti eru í raun og veru seinvirkt eignarnám. Og þegar búið væri að gera slíkt um tíma, þá rýrnaði tekjustofninn og skatturinn lækkaði.

Að því leyti, sem hv. þm. var að lýsa hugsjónum sínum um ýms mál, t. d. tryggingar í stað fátækraframfæris, kom það ekki þessu máli við, og ræði ég það ekki við hann nú. Það er fullkominn vilji Alþ. að athuga það mál, en það liggur sérstaklega fyrir, þar sem er þáltill. frá hv. þm. Það bíður því síns tíma að gera réttmætar breyt. á því.