02.04.1930
Neðri deild: 69. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í C-deild Alþingistíðinda. (1203)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Út af því, sem hv. frsm. sagði síðast, vil ég benda á, að í frv. mínu er sveitar- og bæjarsjóðum séð fyrir tekjum til að standast þennan kostnað, að fyrirkomulagi óbreyttu. Hv. þm. sagði, að gaman væri að sjá þann skattstiga, sem rúmar tekju- og eignarskatt og útsvör að auki. Það er vitanlega hægt að búa hann til, þótt hann sé ekki í mínu frv., því till. mínar ganga ekki svo langt. Af því ég fellst á það með meiri hl., að tekjuskatturinn sé svo breytilegur frá ári til árs, að hann ekki dugi einn, hefi ég bent á eignarskatt og fasteignaskatt. En til að sýna hv. þm., að það er hægt að búa til þann skattstiga, sem fyrr getur um, þá get ég vísað til skýrslu, sem er aftan við frv. mitt. Þar sést, að árið 1925 hafa skattskyldar tekjur numið 41700 þús. kr. Ef frv. mitt þá hefði verið orðið að lögum, hefði skatturinn orðið um 3,6 millj. kr. Útsvör voru þá um 4 millj. kr. Yrði því þetta samanlagt 7,6 millj. kr. Meðaltal skattstigans yrði þá liðlega 18% af skattskyldum tekjum, því að það játar hv. þm. án efa, að 18% af 41,7 millj., sé næsta nálægt 7,6 millj. kr. Ég veit, að þetta yrði misjafnt í hinum ýmsu héruðum, en enginn erfiðleiki ætti þó að vera að koma því á. Þessar upphæðir eru nú greiddar af landsmönnum. Spurningin er bara sú, hvort heldur beri að taka þessa skatta af tekjum, sem eru umfram þarfir, eða taka þá sömu upphæð með tollum, þ. e. með því að skattleggja lágtekjurnar, þurftartekjurnar. Það orkar vitanlega ekki tvímælis. hvort réttara er, því að með tollagreiðslunni borga landsmenn a. m. k. ¼ meira en tollinum nemur. 1925 var alveg óvenjulega tekjuhátt fyrir ríkissjóðinn, af því að skatturinn var reiknaður af tekjum ársins 1924. 1927 námu skattskyldar tekjur 30 millj. kr. og tekjuskatturinn var þá 652 þús. kr. Með sömu hækkun yrði hann 1082 þús. Segjum, að útsvörin hafi verið 4 millj. kr., þá hefðu útsvör og skatturinn það ár numið 14% af skattskyldum tekjum. Ég hefi bent á þetta af því, að það virtist vera alvara hv. þm. að halda, að ekki sé hægt að búa til skattstiga, er tryggi ríkissjóði sama tekjuskatt og útsvör og tekjuskattur nú nema. Ég vil benda hv. þm. á það, að víða er lægsti tekjuskattur 10%. Árið 1925 hefði tekjuskattur, sem nam 10%, til uppjafnaðar gefið 4,2 millj. kr., en 1927 3 millj. En þar sem tekjuskattur byrjar svona hátt, er persónufrádráttur líka hár og nauðsynjavörutollar nær engir. Ef breytt væri til um persónufrádrátt eins og lagt er til í frv. mínu, þá myndu skattskyldar tekjur lækka um 8 millj. kr., svo skatturinn og útsvör samkv. framanskráðum dæmum hefði orðið nokkru hærri; 1925 hefði meðalskattprósentan sennilega orðið um 20%.

Hv. þm. vildi bera í bætifláka fyrir meðnefndarmenn sína og afsaka afstöðu þeirra til frv. og nál. En það er ekki hægt. Það er meira en hlálegt að leggja fram till. og nál. sameiginlega frá 4 mönnum og undirritað af þeim, þegar 3 þeirra skrifa undir það með fyrirvara og hinn 4. lætur þess getið í framsögu, að hann sé ósammála aðaltill. Slíkt er sem betur fer óvenjulegt að sjá hér á þingi.