24.01.1930
Neðri deild: 4. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

19. mál, fræðslumálastjórn

Magnús Guðmundsson:

Það er rétt, sem hæstv. dómsmrh. tók fram, að það eru ekki til lög, sem ákveða starfssvið fræðslumálastjóra, en það hefir til þessa verið litið svo á, að hann væri skyldur til að inna þau verk af hendi, sem kennslumrh. legði fyrir hann. Um þetta hefir aldrei verið neinn ágreiningur, en hinsvegar mælir ekkert á móti því, að starfssvið hans sé ákveðið með lögum.

Ég vil nú nota mér tækifærið og gera þá fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort tilhæfa sé í því, að hann hafi skipað mann í nýtilbúið embætti, sem á að vera nokkurskonar fræðslumálastjóraembætti. Vil ég þá fá að vita, hverskonar sýslan þetta er, hver launin eru og hversu lengi þetta embætti skuli haldast. Í frv. er gert ráð fyrir, að skrifstofukostnaður fræðslumálastjóra verði greiddur eftir reikningi. Því er mér spurn, hvort þessi maður, sem ég gat um, á að vera í skrifstofunni og meiningin sé, að hann létti undir með fræðslumálastjóra við skriftir.

Ég verð að segja, að það var einkennilegt að fara að skipa þennan mann í sumar eða haust, eða hvenær það var nú, sem hann var skipaður, ef starfið getur fallið niður eftir stuttan tíma, og því dettur mér í hug, að þessi maður eigi að vera væntanlegur skrifstofustjóri hjá fræðslumálastjóranum.