24.01.1930
Neðri deild: 4. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

19. mál, fræðslumálastjórn

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég álít, að nokkur hluti fyrirspurnar hv. 1. þm. Skagf. geti beðið þess dags, sem venja er að nota til að skattyrðast við stj., en að því leyti, sem þessi hv. þm. spurði í alvöru, skal ég líka svara í alvöru.

Það kom greinilega fram í ræðu hv. þm., að hann talaði af ókunnugleika um þessi mál, og er það að vísu afsakanlegt, með því að hann hefir lítið sinnt þeim, en hitt síður, að hann skuli hlaupa eftir Morgunblaðinu með það, að stj. hafi skipað svonefndan „yfirfræðslumálastjóra“. Hv. þm. veit ósköp vel, að stj. gefur ekki búið til embætti af sjálfri sér, og að hér er því rangt að orði kveðið. Hitt er annað mál, þó að stj. ráði menn um skamman tíma, ef verkin hafa aukizt svo, að þeir menn, sem fyrir eru, geta ekki afkastað þeim. Og til þess að auka ekki umr. að óþörfu, skal ég skýra frá því, að vegamálastjóri hefir nú fjóra verkfræðinga, og vitamálastjóri þrjá, að ég held, sér til aðstoðar. Enginn þessara manna er skipaður, nema ef til vill einn þeirra, sem eru hjá vegamálastjóra, enda verða þeir strax látnir fara, þegar harðnar í ári og þar af leiðandi minnkar um opinberar framkvæmdir. Ef aftur kemur ár eins og 1924, þegar svo að segja engar opinberar framkvæmdir fóru fram, hverfa allir þessir lausamenn af sjálfu sér. Þá er ekki þörf á þeim framar.

Þetta held ég, að hv. 1. þm. Skagf. hafi ekki athugað. Í góðærinu, sem verið hefir undanfarið, hafa bæði verklegar og skólamála framkvæmdir verið meiri en nokkru sinni áður í sögu þessa lands, og það er ekki annað en heimska og vitleysa að vilja halda því fram, að hægt sé að auka framkvæmdirnar án þess jafnframt að auka starfskraftana til eftirlits með framkvæmdunum. Það ætti að vera hverjum manni augljóst, að margir menn þurfa þar að að vinna, þegar verið er að skipulagsbinda heil svæði, sem áður hafa verið eftirlitslaus, eins og er um kennslumálin.

Þessi almenna skýring hygg ég, að ætti að nægja hv. 1. þm. Skagf., en ég vil þó, honum til frekari úrlausnar, benda á hlut, sem er þess eðlis, að hann ætti að geta sannfærzt um það, þó að hann bresti sérþekkingu á þessu sviði, hve eftirlitsleysið með skólum landsins er ríkinu dýrt.

Bæði Stýramanna- og Vélstjóraskólanum er haldið uppi af ríkinu, og er það ekki nema sjálfsögð og nauðsynleg hjálp frá ríkisins hálfu gagnvart sjávarútveginum, til þess að sjá fyrir sérmenntuðum mönnum á þessu sviði. Hvortveggja þessi skóli hefir staðið undir deild í stjórnarráðinu, sem hv. 1. þm. Skagf. á sínum tíma var fyrir og ég er nú, en starfskraftarnir í þessari deild hafa verið af svo skornum skammti, að ekki hefir verið hægt að rækja nægilegt eftirlit með rekstri þessara skóla. Því var það, að hv. l. þm. Skagf. borgaði, á meðan hann var ráðh., hvert þúsundið á fætur öðru í húsaleigu fyrir Vélstjóraskólann til einkafirma hér í bænum, þó að í Stýrimannaskólanum væri auð stofa, sem hægt var að nota í þessu skyni. Ég vissi ekkert um þetta, fyrr en sá maður, sem nú hefir eftirlit með þessu fyrir mína hönd í vetur, sagði mér frá því. Eftirlitsleysið með þessum tveim skólum hefir þannig kostað ríkissjóð yfir 2.000 kr. á ári í óþarfa húsaleigu. Ég tek þetta dæmi af því, að það fellur inn á fjármálasviðið, og því meiri von til, að hv. 1. þm. Skagf. átti sig á því.

Þetta, sem ég nú nefndi, kom fræðslumálastjóra ekkert við. Honum hafa ekki verið lagðar neinar skyldur á herðar gagnvart þessum skólum. Það má segja, að bæði ég og hv. fyrirrennari minn, hv. 1. þm. Skagf., höfum staðið illa í stöðunni hvað þetta snertir, en það er engu nema hinu illa fyrirkomulagi að kenna, því, að vantað hefir starfskrafta til að sinna þessum málum. Fræðslumálastjóra er illa borgað; hann hefir enga skrifstofu og enga hjálp, en er þó ætluð meiri vinna en hann kemst yfir. Þetta vænti ég, að hv. 1. þm. Skagf. skilji.

Hv. 1. þm. Skagf. var hræddur við hinn mikla skrifstofukostnað fræðslumálastjóra. Ég býst nú ekki við því, að hann verði svo mikill fyrst um sinn, en í framtíðinni verður hann áreiðanlega mikill, vegna hins aukna eftirlits með fræðslumálunum. En til þess að gleðja hv. 1. þm. Skagf. skal ég segja honum það, að bæði fræðslumálastjóra og landlækni eru ætlaðar skrifstofur á Arnarhvoli, en báðir tveir hafa þeir verið svo sanngjarnir að láta sér nægja eina skrifstofu alls, sem þó ekki verður stærri en forstjórar margra ríkisfyrirtækja heimta handa sjálfum sér einum. Ég býst við, að fræðslumálastjóri hafi ekki meira um sig þetta kjörtímabil út, og hver veit nema hv. Í. þm. Skagf. hafi þá sætaskipti við mig aftur og fái þannig tækifæri til að hjálpa fræðslumálastjóranum ennþá meira.