24.01.1930
Neðri deild: 4. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

19. mál, fræðslumálastjórn

Magnús Guðmundsson:

Mér finnst hæstv. dómsmrh. vera farinn að örvænta um sitt pólitíska líf nú í seinni tíð, og að hann sé að verða sturlaður út af því. (Dómsmrh.: Ég er að örva hv. þm.).

Hæstv. ráðh. sagði, að spurningar mínar gætu beðið eldhúsdags. Ég hélt, að þá væri um nóg annað að tala, þó að þetta bættist ekki við. Eldhúsdagurinn stóð svo lengi í fyrra, að flestum ofbauð. Nú er um helmingi meiri eldivið að gera en þá, svo að ekki væri nema gott, ef hægt væri að grynna eitthvað á hlaðanum. Og úr því að hæstv. dómsmrh. fór að myndast við að svara á annað borð, hefði hann átt að geta gefið bein svör við spurningum mínum. Ég spurði, hversu mikil laun þessi maður hefði og hversu lengi hann ætti að hafa þennan starfa. Hæstv. ráðh. svaraði hvorugu, heldur hneig ræða hans svo að segja eingöngu að því að sýna fram á, að fræðslumálastjóri þyrfti að hafa svo og svo marga menn sér til aðstoðar. Vitamálastjóri hefði nú þegar þrjá aðstoðarmenn og vegamálastjóri fjóra. Stafi þetta af því, hve mikið sé um verklegar og skólalegar framkvæmdir að ræða vegna góðærisins. Ég hélt nú satt að segja, að það væri ekki þau ósköp aðhafzt, að nýjan mann þyrfti með hverju tungli. Og varla mun fræðslumálastjórinn haft þurft að fá aðstoðarmann, þó að Laugarvatnsskólinn bættist við, því að hæstv. dómsmrh. er búinn að taka sér a. m. k. 20 ferðir þangað til eftirlits.

Ég var ekki með neinar getsakir, þegar ég spurði um það, hvernig hæstv. ráðh. hefði hugsað sér, að skrifstofuhaldi fræðslumálastjórans yrði hagað, en hæstv. ráðh. skoðar allt sem áreitni við sig, jafnvel þó að spurt sé í mesta sakleysi. Hann segir, að það sé rangt, að hann hafi skipað þennan mann, sem kallaður er yfirfræðslumálastjóri, í nokkurt nýtt embætti. Það er nú svo. Ég hélt í einfeldni minni, að hæstv. ráðh. hefði skipað þennan mann til að gegna ákveðnu starfi, og ég veit, að svo er.

Ég gat ekki að mér gert að brosa, þegar hæstv. ráðh. var að skýra frá því, að þessi aðstoðarfræðslumálastjóri hefði uppgötvað auða stofu í Stýrimannaskólanum. Ég hélt, að ekki hefði þurft á starfskröftum heils manns að halda til að gera þá uppgötvun. Annars veit ég, að þessi stofa hefir ekki staðið auð, heldur verið kennt í henni á sama tíma og kennsla hefir farið fram í Vélstjóraskólanum.

Hæstv. dómsmrh. vill ekki svara spurningum mínum nú, og ég hygg, að hann geri það ekki heldur, þó að ég beri. þær fram aftur á eldhúsdaginn. Og ég get líka ósköp vel beðið eftir landsreikningunum með svarið við þessum spurningum.