18.02.1930
Neðri deild: 30. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í C-deild Alþingistíðinda. (1221)

66. mál, verðtollur

Flm. (Halldór Stefánsson):

Það er hið sama að segja um undirbúning og flutning þessa frv. sem um undirbúning og flutning frv. um tekju- og eignarskatt, sem nýbúið er að afgreiða til 2. umr.: aðeins afgreiddi mþn. þetta frv. hálfum mánuði síðar til stj.

Um afstöðu nefndarhlutanna til þessa frv. er einnig hið sama að segja sem um afstöðu þeirra til hins frv. Nefndarhlutana greinir á um það, með hvaða móti réttast sé að sjá ríkissjóði fyrir nægilegum tekjum. Eins og ég áður sagði, í framsöguræðu minni fyrir frv. um tekju- og eignarskatt, og minni hl. n. einnig vék að, geri ég ráð fyrir, að þessi ágreiningsatriði komi til umr. við síðari meðferð þessa máls, og skal ég því ekki koma inn á þau nú, heldur láta mér nægja að gera grein fyrir þeim höfuðbreyt., sem þetta frv. gerir frá núgildandi löggjöf um verðtoll og vörutoll. Að öðru leyti vísa ég til grg. frv., sem er allítarleg.

Höfuðbreytingin, sem í raun réttri er þó aðeins formbreyt., er sú, að vörutollurinn og verðtollurinn verði sameinaðir í eitt — í verðtoll eingöngu. Um tekjumissi yrði ekki að ræða fyrir ríkissjóð, þó að þetta væri gert, því að verðtollurinn mundi gefa nálega jafnmiklar tekjur einn sem tollarnir gefa nú báðir.

Ég skal ekki fara neitt verulega út í ástæðurnar til þessarar breyt., en vil aðeins benda á það, að með þessu móti yrði það skýrara, hversu hár tollur er á hverri vörutegund fyrir sig, tollaálagningin yrði einfaldari og réttlátari, og tollinnheimtan miklum mun fyrirhafnarminni, þar sem yrði um einn toll að ræða í stað tveggja áður.

Til viðbótar því, sem ég nú hefi sagt, vil ég gera stutta grein fyrir þeim grundvelli, sem byggt hefir verið á um flokkun hinna ýmsu vara í 8. og 9. gr. frv.

Það er gert ráð fyrir, að lagður verði 1½% tollur á allar innfluttar vörur, líka þær, sem sértollaðar eru. Þessi tollur er með öllu sambærilegur útflutningsgjaldinu, sem lagt er á allar útfluttar vörur, hverju nafni sem nefnast, og a. m. k. jafnréttmætt og það. Til grundvallar þessari ákvörðun liggur einnig annað atriði, sem er það, að með þessu fyrirkomulagi væri nokkur trygging fengin fyrir því, að ekki verði hægt að draga vörur undan tolli, þar sem skylt yrði að koma með alla vörureikninga til athugunar á tollheimtustöðvarnar.

Auk þessa tolls er gert ráð fyrir öðrum sérstökum verðtolli, sem greiðist með mismunandi hundraðshluta af verði varanna, eftir þeirri flokkun, sem gerð er í 9. gr. frv. Undanþegnar þessum tolli eru allar brýnustu vörur, sem notaðar eru til framleiðslu, bygginga og neyzlu. Eru þær vörur taldar upp í 8. gr. frv.

Skal ég svo víkja að þeirri vöruflokkun, sem gerð er í frv., að öðru leyti.

Í hæsttollaða flokknum eru allar óhófs- og óþarfavörur. Er gert ráð fyrir, að tollurinn af þeim verði 30% af innkaupsverðinu. Þó skal ég geta þess, að meiri hl. n. gat í sjálfu sér hugsað sér að hafa þennan toll hærri, en að svo var ekki gert, kemur af því, að hætt er við, að reynt verði að draga vörurnar úr sínum rétta flokki yfir í lágtollaflokkana, ef gjaldið er sett mjög hátt. Má í því sambandi benda á það, hversu einkennilega lítið kemur fram af ýmsum hinum hátolluðu verðtollsvörum í innflutningsskýrslunum.

Í 20% flokknum eru þær vörur, sem ekki verða taldar jafnóþarfar, en eru þó miður þarfar, ennfremur vörur, sem framleiða mætti eða framleiddar eru í landinu sjálfu, og því ætti ekki að þurfa að flytja inn. Sem dæmi má nefna kjötvörur ýmsar, egg, grænmeti o. s. frv.

Í 10% flokknum eru ýmsar þarfavörur, sem réttmætt væri í sjálfu sér að væru lægra eða ekki tollaðar, en sem þó verður að tolla til þess að sjá ríkissjóði fyrir ákveðnu tekjumagni. Undir þennan flokk heyra m. a. vefnaðarvörur, sem ekki eru í öðrum tollflokki, og ýmsar vörur, sem framleiða má í landinu sjálfu.

Í síðasta flokknum, sem gerir ráð fyrir 5% tollálagi, eru allar þær vörur, sem annaðhvort ekki eru undanþegnar viðbótartolli, eða eru í hærri tollflokkunum. Þessi flokkur nálgast um nauðsyn og nytsemi þær vörur, sem aðflutningsgjaldið eitt greiðist af.

Ég vil að lokum taka það fram, að ýmsar þær till., sem hér eru gerðar, eru ekki bornar fram af því, að gott þyki að hafa þessa tolla, heldur veldur því eingöngu tekjuþörf ríkissjóðs. Enda eru flestar þessar vörur sízt lægra tollaðar nú. — Sé ég svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv., en vil endurtaka það, að alla frekari grein fyrir því er að finna í grg.