18.02.1930
Neðri deild: 30. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í C-deild Alþingistíðinda. (1222)

66. mál, verðtollur

Haraldur Guðmundsson:

Ég vil aðeins skjóta því til þeirrar n., sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar, að ég mun bera fram brtt. við það. Vænti ég þess, að n. afgreiði málið ekki til 2. umr. fyrr en hún hefir fengið brtt. mínar, sem verður eftir nokkra daga.

En ég tel rétt að benda á það strax í sambandi við þetta frv., að samkv. því hækkar verðtollurinn um 200–300 þús. kr. frá því, sem nú er áætlað í fjárl., og áreiðanlega miklu meira í reyndinni, því að áætlunin er mjög varleg. Um þetta atriði er einmitt meginágreiningurinn milli mín og meiri hl. mþn. Ég lít svo á, að sjálfsagt sé að lækka tollana á öllum framleiðsluvörum og nauðsynjavörum, en hækka að því skapi tekju- og eignarskattinn, fasteignaskattinn og aðra slíka skatta. Þessi ágreiningur veldur því, að ég gat ekki orðið samferða samnm. mínum við samning þessa frv.

Ég vil endurtaka það, að ég vænti þess, að hv. n. skili ekki áliti sínu um þetta mál fyrr en hún hefir fengið brtt. mínar.