18.02.1930
Neðri deild: 30. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í C-deild Alþingistíðinda. (1228)

66. mál, verðtollur

Haraldur Guðmundsson:

Ég vona, að ekki verði lengi dráttur á frv. mínu og brtt. en ég áðan sagði. Í grg., sem fylgir frv. mínu um tekjuskatt og eignarskatt, eru teknar upp ýmsar skýrslur, sem seinlegt er að prenta, en prentsmiðjan hefir þó lofað, að því skuli lokið fyrir helgi. Ætti þetta því ekki að geta valdið neinum drætti á málinu, úr því sem komið er.

Hv. fyrri flm. viðurkenndi að vísu, að tollarnir yrðu hærri eftir frv. en nú er áætlað í fjárlögum, en sagði hinsvegar, að hækkunin væri sama sem engin, ef miðað væri við tekjumeðaltal undangenginna ára. En það er alls ekki hægt að miða við slíkt meðaltal, vegna þess, að þingið hefir stöðugt verið að breyta tollalöggjöfinni. Þótt innflutningurinn sé talsvert breytilegur frá ári til árs, er hann þó það eina, sem hægt er að miða við, eða meðal hans um fleiri ár.