01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

19. mál, fræðslumálastjórn

Ásgeir Ásgeirsson:

Eins og umr. og nál. bera með sér, er allgott samkomulag um þetta frv. í menntmn. Sé ég því ekki ástæðu til að fara almennum orðum um málið. Aðeins langar mig til að drepa á brtt. hv. 1. þm. Reykv. Það var ekki rétt hjá hv. þm., að gott samkomulag væri í menntmn. um brtt. hans. Samkomulagið er ekki betra en svo, að aðrir nefndarmenn leggja mikla áherzlu á, að kennslueftirlitið sé þegar upp tekið um land allt. Er það sýnilegt, hversu óviðfelldið það er að undanskilja vissan hluta landsins, þegar þetta eftirlit er upp tekið annarsstaðar. Er ég að vísu þakklátur hv. 1. þm. Reykv. fyrir að vilja fallast á kennslueftirlitið til sveita, en ég get ekki komið auga á nein skynsamleg rök fyrir því, að láta það frestast í nokkur ár, að það taki einnig til kaupstaðanna. Því að vitanlega getur þess ekki orðið langt að bíða, að ein lög verði látin gilda um allt land að þessu leyti, ef inn á þá braut verður gengið, sem hér er farið fram á. Því vil ég fara þess á leit við hv. deild, að hún felli 1. brtt. hv. þm.

Einnig vil ég leggja til, að síðari till. hv. þm. verði felld. Hún hefir allmikinn aukinn kostnað í för með sér, en lítið, sem vinnst við hana. Í frv. er farið fram á að breyta eftirliti ríkisins með kennslunni á þann hátt, að í stað prófdómendanna, sem stjórnarráðið skipar nú, komi kennslueftirlit það, er frv. talar um. Eins og frv. er úr garði gert, leggur það engar nýjar fjárhagsbyrðar á ríkissjóð, heldur er farið fram á breytta skipun á notkun peninganna. Eftirlitsmennirnir samkv. frv. eiga að framkvæma þau próf, sem fræðslumálastjórinn fyrirskipar.

Það er einnig tilgangurinn með þessu frv. að draga úr þeim prófum, sem nú eru haldin, einkum prófum yngri barna. Í þá átt er stefnt víða um lönd. Og ef þetta frv. gengur í gegn, þá munu vorpróf breytast með ýmsum hætti á ýmsum stöðum og verða leyfð allmikil frábrigði frá því, sem er. Þrátt fyrir þetta er alls ekki tilætlunin, að lokapróf barnafræðslunnar hverfi. Þau verða haldin með sama hætti og er.

Sá kostnaður, sem kæmi til að leggjast á sveitarsjóði og bæjarsjóði vegna þeirra vorprófa, sem haldast mundu, yrði töluvert minni en verið hefir undanfarið af þeim prófdómarastörfum, sem framkvæmd hafa verið. Ég hygg þess vegna, að það sé sjálfsagður hlutur, fyrst ríkið breytir eftirliti sínu, að þá flytji það sína greiðslu yfir til hins nýja eftirlits. Og þar sem vorprófin verða hér eftir aðallega haldin fyrir skólahéruðin, liggur næst, að héruðin greiði sjálf fyrir þau próf. Þau munu þá líka reyna að sjá um, að sá kostnaður verði ekki ýkjamikill.

Ég skal geta þess, að það má enginn skilja mig svo, að þær till., sem fluttar hafa verið til breytinga, séu slík höfuðatriði, að allt standi og falli með þeim. Ég mælist aðeins til, að þær verði felldar, þó að mér detti ekki í hug að segja, að allt málið sé ónýtt, ef þær verða samþ.