01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

19. mál, fræðslumálastjórn

Magnús Jónsson:

Þetta mál er nú svo einfalt, að ekki er ástæða til að ræða lengi um það fram og aftur. En mér virtist það ekki alveg rétt hjá hv. þm. V.-Ísf., að spá því, að þetta eftirlit, sem hér er farið fram á, hljóti endilega að komast á í kaupstöðum og sveitum um allt land, þó að mínar till. verði samþ. Því að það er alveg rétt, eins og hann sagði, að þessir eftirlitsmenn eru í raun og veru hliðstæðir skólastjórum í kaupstöðum. Þeir eru, eins og hann orðaði það, nokkurskonar skólastjórar fyrir þessa smáskóla, þar sem aðeins starfar einn kennari á hverjum stað. En þar, sem skólastjóri er til í kaupstað, er mér ómögulegt að skilja, að heppilegra sé, að einn af kennurum úr þessum skólum yrði skipaður til að hafa eftirlit með honum. Ég skil ekki, að það yrði neitt fullkomnara eftirlit en að láta skólastjóra gefa sína skýrslu til fræðslumálastjóra. Till. mínar stefna alls ekki að því að draga úr eftirliti eða gera það ófullkomnara. Það er ekki farið fram á annað en að spara sér gersamlega óþarft starf, þar sem þetta yrði ekki betur af hendi leyst hjá eftirlitskennurum en skólastjórum. Þetta er þess vegna ekki að þumbast á móti því, að einhver umbót sé gerð. Ég er að vísu ekki svo sannfærður um, að þetta frv. sé brýn nauðsyn. En ég get samþ., að það stefni sennilega í rétta átt, og skal því fallast á, að rétt sé að samþykkja frv. En ég vil ekki stíga þau skref, sem sýnast óþörf, og þess vegna mæltist ég eindregið til, að hv. d. samþykkti fyrri brtt. mína.

Ég skal fúslega kannast við, að síðari brtt. getur orkað tvímælis. Hún er um það, að fella niður ákvæðið, að kostnað við vorpróf skuli greiða úr sveitarsjóði. Ég hefi meira að segja borið þessa brtt. fram bara til þess að sýna enn einu sinni, hvað ég tel það fánýtan sparnað að spara gjöld úr ríkissjóði og leggja þau á sömu gjaldendur aftur í öðru formi. En hitt get ég miklu frekar skilið, þegar hv. þm. V.-Ísf. lætur þá skýringu fylgja, að hann sé með þessu að brugga prófunum hálfgerð banaráð. Þá verðum við sammála. Því að það mun fara svo, að þessi próf verða ekki framkvæmd nema á nokkrum stöðum.

Annars vildi ég, að hér eftir yrði reynt að haga svo til, að þessir eftirlitsmenn væru látnir framkvæma próf, sem halda þarf, svo að þessi aukakostnaður gengi að nokkru leyti til að standa straum af prófunum eins og áður. Af því að þetta er svo einfalt mál, skal ég ekki þreyta hv. d. á lengri ræðu.