01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

19. mál, fræðslumálastjórn

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Önnur brtt. hv. 1. þm. Reykv. er um það, að niðurlag 7. gr. falli niður, en það hljóðar svo: „Kostnaður, sem að prófum leiðir, greiðist hér eftir úr sveitar- eða bæjarsjóði, enda skulu skólanefndir skipa prófdómendur“. Með því að fella niður þessi orð ætlast flm. till. til, að ríkissjóður greiði hér eftir sem hingað til kostnað af vorprófum. Út af þessu vildi ég benda á, að ef frv. verður að lögum, þá mun það sjálfsagt fara svo, að kostnaðurinn við vorpróf lækkar talsvert mikið, þar sem svo er ákveðið, að skólanefnd skuli skipa prófdómara. Hingað til hafa prófdómarar verið skipaðir fyrir allstórt svæði og ferðakostnaður þeirra því orðið talsverður, en hann mun nú að sjálfsögðu mikið minnka. Ég held, að hér sé um fremur lítilfjörlegt atriði að ræða. En svo nær þessi till. ekki tilgangi sínum, þó samþ. yrði, því þá stendur eftir sem áður í gr., að launagreiðslur úr ríkissjóði til prófdómenda skuli falla niður. Og hver á þá að greiða þeim? Till. er því tæplega frambærileg.

Hv. þm. Borgf. minntist á, að réttara væri að fela prestunum þetta eftirlit. Um það geta náttúrlega verið skiptar skoðanir. En þá er á að líta, að verk prestanna er töluvert annað, og þeir hafa ekki neina sérstaka aðstöðu til þessa starfs né hvöt til að kynna sér framfarir í kennslumálum. Og ég álít, að starf þeirra eftirlitsmanna, sem frv. gerir ráð fyrir, eigi ekki einungis að vera að líta eftir í skólum og prófa, heldur eigi þeir engu síður að vera til að leiðbeina hinum einstöku kennurum. Og það er alveg víst, að ef færustu kennarar í hverju héraði eru til þess settir að hafa þetta eftirlit, getur af þeirri leiðbeiningu orðið feikimikið gagn, einkum þó ef þeim kennurum er gefin aðstaða til þess að kynna sér nýjungar í fræðslumálum og kennsluaðferðum, eins og vitanlega er nauðsynlegt. Því að á það er að líta, að kennarar úti um sveitir, oft í afskekktum byggðum, verða að vinna þar fyrir mjög lágu kaupi og þurfa auðvitað að nota sumarið til að vinna fyrir sér, og þeir hafa því mjög lítinn tíma til að fylgjast með því, sem er að gerast í þeirra starfi. Þeim veitir sannarlega ekki af, þó að til séu menn, sem heimsækja þá annað slagið, gefa þeim heppileg ráð, örva áhuga þeirra og geta leyst úr einhverjum spurningum þeirra. Þó að svo væri áður og fram á okkar daga, að prestarnir hefðu aðalumsjón með fræðslu barna, held ég, að sá tími sé liðinn nú, að það sé heppilegt. Það má benda á í þessu sambandi, að sú stefna er uppi nú að fækka prestum frekar en orðið er, og ég tel víst, að það verði niðurstaðan. Við það eykst vitanlega starf hvers einstaks prests svo, að ekki er fært að ætla þeim að bæta við sig nýju starfi.

Um það, hvort ákvæði þessa frv. um eftirlitskennara eigi aðeins að vera fyrir sveitirnar, eða kaupstaði líka, skal ég ekkert segja, því að hv. þm. V.-Ísf. hefir algerlega tekið af mér ómakið hvað það snertir.