01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

19. mál, fræðslumálastjórn

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég þarf litlu að bæta við það, sem hv. frsm. meiri hl. hefir sagt, og ræðu síðasta ræðumanns ætla ég ekki að svara nema örfáum orðum. Fyrst því, að ég hafi gefið allsherjar loforð um, að kennaralaun skyldu ekki hækka frá því, sem samþ. hafi verið á þessu þingi. Þetta er gamall útúrsnúningur, sem ekki þyrfti að endurtaka nú. Ég hefi aðeins sagt, að ef afgr. yrði frv., sem ég bar fram hér í d., og nú er í Ed., þá byggist ég við, að kjör barnakennara yrðu þannig, að hv. þm. V.-Húnv. verði miklu hægara að standa á móti frekari hækkun. Og ég spái, að honum takist það um töluverðan tíma.

Um það, að kennarar séu einhverjir óskaplegir fáráðlingar, svo að það þurfi að kenna þeim að kenna, mönnum, sem nýkomnir eru frá prófborðinu, skal ég segja hv. þm., að meiri hluti af farkennurum í sveit hefir ekkert kennarapróf. Svo hafa launakjör verið, að ekki hafa fengizt menn, sem hafa viljað leggja í nokkurn kostnað til undirbúnings þessa starfs. Meiri hluti sveita hefir orðið að notast við menn, sem eitthvað hafa lært í unglingaskólum, stúlkur úr kvennaskólum, og jafnvel menn, sem hafa ekki tekið annað en fullnaðarpróf barna á sínum tíma.

Svona hafa launakjörin verið. Jafnvel þó að allir farkennarar hefðu ekki tekið kennarapróf, þá er þetta algerlega óþörf skapharka og illska hjá hv. þm. V.-Húnv. í garð kennaranna, að tala um þá sem fáráðlinga, er alltaf þurfi að uppfræða í starfi sínu. — Ég get upplýst hv. þm. um það, að í öðrum menningarlöndum eru eftirlitsmenn, sem hafa ekkert annað hlutverk en að líta eftir og leiðbeina kennurum, sem eru menntaðri og fullkomnari en hægt er að gera sér vonir um, að kennarar séu hér á landi. Það er ekki af því, að hv. þm. hafi nein rök fram að bera í þessum efnum, heldur stafar þessi framkoma aðeins af þörf hans til þess að hreyta ónotum til kennarastéttarinnar. Ég mun svo ekki svara honum aftur, og þó að hann taki til máls aftur, þá má hann mín vegna hafa síðasta orðið.

Um hitt atriðið, að prestarnir séu látnir hafa þetta eftirlit á hendi samhliða prófdómarastarfinu, endurgjaldslaust, er það að segja, að þetta er gömul till. og úr gildi gengin, því að samkv. lögum, sem Jón Magnússon bar fram 1926, var þessari kvöð létt af prestunum og á nú að greiða prófdómurum laun úr ríkissjóði. Ýmsir prestar mundu verða stirðir til þessara starfa, og kostnaðurinn jafnmikill og áður. Ég mun ekki fara um þetta fleiri orðum að sinni, ef ekki koma fram fleiri brtt, við frv., en held mér við þá ósk, að þær brtt., sem fram eru komnar á þskj. 189, verði felldar.