21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. fyrri kafla (Jörundur Brynjólfsson):

Frsm. samgmn. hagaði orðum sínum svo, að ekki er unnt fyrir mig annað en gera honum nokkur skil, þó að ég hefði kosið að taka ekki til máls núna. En úr því að ég geri það, ætla ég að nota tækifærið og víkja nokkrum orðum að hv. þm. Dal. Þegar hann var að tala um, að fjvn. hefði ekki viljað verða við ósk hans, var engu líkara en að hans kjördæmi væri eina héraðið á landinu, sem skorti síma. Ef svo væri, þá mætti kannske til sanns vegar færa ummæli hans, en hv. þm. var að seilast til mín og míns kjördæmis út af framkvæmdum þar. Hv. þm. er nú búinn að vera nokkrum sinnum í stjórn landsins, svo að honum ætti að vera kunnugt um helztu framkvæmdir í nágrenni Reykjavíkur. En hnútur hans til mín sýndu mikla vankunnáttu í þessum efnum. Ef ég hefði farið hörðum orðum um ósk hv. þm., þá væri sök sér, þó að hann veittist að mér og mínu héraði. En því fer fjarri, að ég hafi ekki viðurkennt óskir hans. Hv. þm. skírskotaði til landssímastjóra, en ég leiðrétti það með hógværum orðum. Fjárhagsástæður einar sagði ég að væru þess valdandi, að við gætum ekki tekið óskir hans til greina. Heilir hreppar í mínu byggðarlagi hafa engan síma fengið og allflestir hreppar austanfjalls hafa fengið síma á síðustu þrem til fjórum árum. Það er undarlegt, að maður, sem þykist fylgjast vel með í stjórnmálum, skuli opinbera slíka fáfræði, — ég segi fáfræði, af því að aldrei ætla ég þessum hv. þm. að halla vísvitandi réttu máli. Hv. þm. er að tala um vegi um þetta hérað. Veit ekki hv. þm., að þetta hérað er langverst sett af öllum héruðum landsins hvað samgöngur snertir? (SE hlær). Já hv. þm. má hlæja! Hafnleysi er t. d. svo mikið, að oft og einatt um hásumar geta skip ekki hafnað sig þar. Fjallgarður liggur að héraðinu, sem getur valdið algerðu samgönguleysi heilan vetur. Hérað hv. þm. er sannarlega betur sett. Ég ætla annars ekki að fara frekar orðum um þetta hér. Ég ætla ekki að fara út í neinn héraðameting. En þá fyrst er tími til að gera milljónakröfur, þegar maður hefir milljónirnar.

Að þessu athuguðu hlýtur hv. þm. að sjá, að hér er engri hlutdrægni til að dreifa, og í því get ég skírskotað til Gísla Ólafsonar landssímastjóra, sem er ákaflega sanngjarn í till. sínum.

Þá kem ég að hv. frsm. samgmn. (GunnS). Það má vel vera, að ekki sé til mikils að gera till. hans að umtalsefni. Utan þessara veggja hitti ég mann, sem sagði mér, að hann væri búinn að tryggja sér meiri hl. þessarar hv. deildar. Þóttist hann vera með nöfn hv. þm. upp á vasann. Ég ætla á eftir að heimta nafnakall, svo ég sjái, hverjir það eru, sem binda sig þannig fyrirfram, án þess að vita; hvað upplýsist í málinu. Það má vel vera, að í framtíðinni eigi fjárveiting í þessu skyni mikinn rétt á sér, a. m. k. þurfti hv. frsm. ekki að falla í stafi yfir yfirlýsingu þeirri, sem ég gaf fyrir hönd n. í gær. Sú yfirlýsing er ekki fram komin af skilningsleysi, heldur af fjárhagslegum ástæðum. Ég vil benda hv. dm. á það, að hvort sem þeir veita nú 50 eða 70 þús. kr., mega þeir vera viðbúnir að þurfa á næsta þingi og næstnæsta þingi o. s. frv. að veita ekki minni upphæð í sama skyni. En arðurinn, sem á að borga þessar upphæðir, á langt í land. — Hv. þm. Vestm. lét sitt ljós skína og vildi rökstyðja nauðsyn flugvéla með því, að skyggnið væri svo gott, að flugvélar gætu komið að afarmiklu gagni í síldarleit, eins og þegar væri fengin nokkur reynsla fyrir. Hv. þm. sagði, að hér væru verri samgöngur en erlendis og því bæri fremur að styrkja flugferðir hér. Íslenzkir menn hefðu verið styrktir til að nema fluglist í því skyni, að þeir störfuðu hér, og þessvegna ættum við að nota krafta þeirra. En þessir menn hafa ekkert fyrirheit fengið um það. Mér finnst það vera fyrirgreiðsla fyrir þeim að styrkja þá til námsins, og óþarfi að skuldbinda sig þeim áfram. Það ætti ekki að vera nein ógæfa, þó að þeir þyrftu að vinna erlendis í nokkur ár. Hversu miklu fremur er ekki sú skuldbinding rík, þegar búið er að leggja mikið fram af ríkisins hálfu til flugvélakaupa? Hvað yrði sagt á næsta þingi, ef þingið kippti þá að sér hendinni, en ef svo skyldi verða, myndi félagsskapurinn gefast upp, og peningunum er á glæ kastað.

Hv. frsm. þóttist ekki hafa stiklað nema á stærstu atriðunum í gær. En nú hugsa ég, að hann hafi tínt allt til. Það er nógu fróðlegt að athuga nánar hans miklu rök. Hann skírskotaði til tveggja greina eftir dr. Alexander Jóhannesson í Morgunbl. og Tímanum. Þessar ritsmíðar höfum við hinir líka haft vitneskju um, svo að það er ekkert nýtt í málinu. — Annars er allt starf dr. Alexanders í þágu flugferða mjög þakkarvert og verður án efa málinu til mikils góðs. En hitt er jafnvíst, að flugferðirnar geta ekki borgað sig enn sem komið er hér á landi.

Hv. frsm. spurði, hvort við héldum, að Bandaríkin og England hefðu leyft sér að leggja peninga í flugvélar og halda uppi flugi, ef það borgaði sig ekki. Þessar þjóðir byrjuðu flugstarfsemi sína í hernaðarþarfir, þó að flugvélarnar séu núna notaðar til samgangna. En hvað þýðir nú slíkur samanburður sem þessi? Hér búa rúmlega 100 þús. hræður. Hv. þm. er svo einfaldur að bera þarfir þeirra þjóða, er skipta tugum milljóna, nauðsynjar þeirra og getu saman við okkur. Þetta er blátt áfram barnaskapur. Á Englandi eru rúmar 40 milljónir manna, á Frakklandi annað eins, Þýzkalandi 60–70 milljónir, í Bandaríkjunum sennilega nær 130 millj., og það geta menn svo borið saman við tölu íbúa hér á landi. Og þó munar enn meiru, ef borið er saman við þá starfsemi, sem í löndunum er, og fjárhagsstyrkleika þeirra þjóða. Hér hallar svo gífurlega á, að ég undrast, hvernig hv. frsm. samgmn. getur látið sér slíkt um munn fara. Ef nokkuð er rothögg, þá eru það þessar röksemdir hv. þm. Hann kemur ekki með neitt máli sínu til stuðnings nema hugarburð og draumóra, sem við vonum að rætist einhvern tíma í framtíðinni, en eru hvergi nærri tímabærir.

Það er líkt með þessa fjárveitingu eins og féð, sem búið var að safna til þjóðleikhúss og þeir, sem fyrir því stóðu, tóku út til þess að moka ofan af klöppinni til að eyða því. Það er áreiðanlega réttara, að við látum okkur hægt fyrstu árin, reynum að safna í sjóð og nota eitthvað af því fé, sem til þessara mála er ætlað samkv. frv. því, er samþ. var hér nýlega, til undirbúnings, meðan engir peningar eru fyrir hendi til að kaupa þessar vélar, og því síður til að starfrækja þær.

Hv. frsm. talaði um gagnið af flugvélum við síldarleit. Hann bar fyrir sig álit einhverra sérfræðinga, sem ekki væri til neins að mótmæla. (GunnS: Ég hefi reyndar aldrei minnzt á þetta). Jú, og hv. frsm. var drjúgur yfir því, að við værum fyrstir til að nota flugvélar í þessu skyni og að talsverð reynsla væri þegar fengin. Vill hann ekki segja, hve langæ hún er? Hún er ekki svo fjarska mikil. Ætli það yrði ekki nokkuð ósamhljóða vitnisburður hjá útgerðarmönnum, ef þeir ættu að segja álit sitt um notin af flugvélinni við síldarleitina. Sumir hafa trú á gagni hennar, aðrir enga. Og hverjir skyldu þessir sérfræðingar vera? Ætli það séu ekki einhverjir hv. þm., sem við atkvæðasmölun hafa lofað að greiða þessari till. atkv. sitt? Ég sé ekki betur en að þeim mönnum megi þykja gott, að ég hefi gefið hv. 2. þm. Rang. tilefni til að kasta út síðara mörsiðrinu, og reyna nú hér eftir að rökstyðja till. eitthvað meir.

Margt er það, sem flugvélar þykja nauðsynlegar við. Einkum er talað um póstflutning, farþegaflutning og sjúkraflutning. Ég játa, að það síðasta getur oft komið sér vel, og væri æskilegt, ef það væri kleift að gera svo mikið fyrir sjúklinga. En hvaða farþegar ætli það séu hér á landi, sem þurfa að flýta svona afarmikið ferð sinni? Sennilega helzt kaupmenn og kaupsýslumenn. (JAJ: Og kaupfélagsstjórar). Ég held að skipin séu nú ekki orðin svo ýkjalengi milli viðkomustaða, eða langt líði milli ferða þeirra, að menn tefji sig til stórtjóns yfirleitt. Og þá er pósturinn. Símar liggja nú milli flestra þeirra staða, sem póstur gæti borizt til með flugvélum. Ætli það mætti ekki bjargast í þessum efnum svona fyrsta kastið við þessar samgöngur, sem eru, án þessara afardýru fartækja? Og ætli gagnsemin af þeim tækjum kynni ekki að bíða býsna lengi, ef óheppilega væri af stað farið með þau?

Hv. þm. (GunnS) sagði, að nytsemin væri þegar orðin margfalt meiri en féð, sem varið hefði verið til flugferða. Þetta nær engri átt. Útgerðarmenn, sem haft hafa tækifæri til að kynna sér þetta hér manna bezt, eru ekki á einu máli. Sumir telja nokkurt gagn, en hinir eru líka mjög margir, sem telja það ekkert. Afstaða ríkissjóðs er þannig, að gagnið þarf að verða nokkuð mikið, ef hann á að fá allt sitt borgað beinlínis. En ef útgerðarmenn hefðu mikinn hag af flugvélunum, væri ekki um að sakast, þó að ríkissjóður bæri nokkurn þunga af þeim án þess að fá beint endurgjald. En það er bara ekki nokkur vissa fyrir þessu enn. Þvert á móti. Allt bendir á stórkostlegt tap og fjáreyðslu við þetta fyrirtæki.

Hv. þm. drap á ummæli, er einhver þm. hefði haft fyrir löngu um bíla. Þau skipta engu máli í þessu sambandi. Við vitum báðir, hvaða ummæli hafa heyrzt bæði innan þings og utan um járnbrautir t. d., og þó hygg ég, að við séum sammála um, að bæði þær og bílarnir geti borið uppi samgöngur hér og borgað sig. En það kemur ekki við þessum flugsamgöngum.

Þá sagðist hv. þm. ekki kunna við, þegar hann væri að rökstyðja mál sitt, að fara að stafa eins og fyrir krakka í barnaskólum. (GunnS: Ég sagði aldrei svona).

Ég skrifaði það upp. En ég held hanni hafi talað eins og hjá börnum. Þó að hann sé langt upp úr því vaxinn að líkamsstærð að setjast á barnaskólabekk, hefir hann talað þannig núna, að ég þekki engan barnaskóla það lítinn, að minnsti bekkur hans sé ekki of stór fyrir hann í þessum efnum. Eins og skein í gegnum ummæli hans, er reynslan alltof lítil til þess, að hægt sé að byggja á henni nokkra sönnun. Og eins og ég hefi sýnt, hafa ekki önnur ótvíræð rök verið borin fram heldur. Vonandi eiga þau rök eftir að koma fram, því að bezt fer á, ef hv. þdm. samþykkja þetta, að svona stórri upphæð sé ekki á glæ kastað. Getuleysi okkar hamlar okkur frá því að ráðast í mörg nauðsynjafyrirtæki, og ekkert annað en getuleysið. Því skyldum við þá tefla miklu fé í óvissu til þessa, sem hvergi nærri getur borið sig fyri en eftir óralangan tíma? Hver veit hvað langan?

Ég hefi andmælt hv. frsm. samgmn. nokkuð óvægilega. Ég hefði ekki tekið hann þeim tökum, ef hann hefði ekki brýnt mig til þess. Heppnist honum hér eftir að sannfæra menn um, að þessu fé sé ekki á glæ kastað, má hann vera mér þakklátur fyrir að hafa brýnt hann til þess.