07.04.1930
Efri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

19. mál, fræðslumálastjórn

Jón Jónsson:

Ég hefi leyft mér að flytja lítilsháttar brtt. við frv. Má vera, að hv. þdm. hafi ekki haft tíma til að kynna sér hana. ennþá.

Eins og menn sjá, er samkv. þessu frv. breytt nokkru til um starfsvið fræðslumálastjóra og aukið allmikið. Er honum ætlað að hafa eftirlit með fleiri skólum en áður, þ. e. öllum nema háskólanum. En um launin orkar nokkuð tvímælis, hvort þau séu í samræmi við þessa breyt., eins og þau eru ákveðin í 3. gr. Er þar gert ráð fyrir, að þau skuli vera jöfn launum þeirra embættismanna, sem taldir eru í 17. gr. launalaganna. Þar eru nefndir nokkrir stjórar, vegamálastjóri, vitamálastjóri o. s. frv. Launalögin eru orðin nokkuð gömul, og hafa laun flestra þessara manna verið hækkuð síðan með fjárlagaákvæðum. Í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, hefir Nd. ákveðið landssímastjóra allmikla launaviðbót, vitamálastjóra sömuleiðis nokkra. Laun fræðslumálastjóra koma þá til með að verða lægri en slíkra hliðstæðra embættismanna, með þessari aukningu á embætti hans, sem á er orðin.

Auk þess vil ég benda á sem aðalástæðu fyrir till. minni, að það virðist dálítið óviðfelldið, þegar fræðslumálastjóri á að vera yfirmaður ýmissa æðri skóla, þar á meðal Menntaskólans í Reykjavík og Gagnfræðaskólans á Akureyri, þá skuli hann fá lægri laun en þessir undirmenn hans. Enda er það algerlega gagnstætt venju. Nú hafa skólastjórar við þessa skóla, sem ég nefndi, 4 þús. kr. í byrjunarlaun og leigulausan bústað, ljós og hita, sem varla er hægt að meta minna en 2–3 þús. kr. Byrjunarlaunin eru því ca. 7 þús. kr. Er því ekki hægt annað að segja en brtt. minni sé mjög í hóf stillt, þar sem gert er ráð fyrir, að byrjunarlaun fræðslumálastjóra séu 6 þús. kr. Það er lægra en laun annara hliðstæðra starfsmanna eru nú orðin, svo sem landssímastjóra og vitamálastjóra. Í raun og veru má líta svo á, að þetta sé fyrsta hækkunin, sem farið er fram á á launum fræðslumálastjóra. Launin eru ákveðin 1.000 kr. hærri en upphaflega, en þá var líka ákveðinn skrifstofukostnaður 1.200kr. En skrifstofukostnaður var þá lítill, sem nú eykst stórum við stækkun embættisins. Getur hann því ekki talizt nein launabót, enda á ekki að greiða fyrir annað en útlagðan kostnað.

Ég sé svo ekki ástæðu til að mæla frekar fyrir brtt. að sinni.