14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í C-deild Alþingistíðinda. (1273)

102. mál, hafnargerð á Dalvík

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Það var þessi stóri, litli fjármálamaður þessarar hv. deildar, sem var enn að stangast við hafnarlagafrv., sem fyrir þinginu liggja. Er það skemmst af að segja, að á þinginu í fyrra áttu menn fullt í fangi með að verja þær sveitir, sem væntanlega eru hv. þm. næst hjarta, fyrir vantrausti hans og tortryggni um það, að þær mundu ekki geta staðið í skilum. Það er því sízt að undra, þótt þau héruð, sem fjær liggja hv. þm., eigi ekki upp á pallborðið hjá honum í þessum efnum. Mér gefst væntanlega tækifæri síðar til þess að ræða við hv. þm. um mitt kjördæmi og framlögin til þess, svo að engin bráð nauðsyn hefir verið á því fyrir hv. þm. að draga mitt kjördæmi inn í umr. að svo stöddu. Ég vil aðeins segja það, að ég er ávallt reiðubúinn til þess að mæta honum og svara til sakar fyrir mitt kjördæmi út af ásökunum hv. þm. Hygg ég, að við Eyjamenn þurfum ekki að bera kinnroða fyrir þann styrk, sem ríkið hefir lagt til hafnarbóta í Vestmannaeyjum. Og sízt ætti hv. þm. V.-Húnv. að gera sig digran út af því máli, meðan honum gengur ekki annað til en auðvirðileg hreppapólitík. Hv. þm. Barð. benti á það réttilega, að ríkinu bæri frekari skylda til að leggja ríflegar fram til opinberra mannvirkja, þar sem ríkið sjálft á lendur allar og lóðir. Það er að vísu rétt, að síðan 1913 hefir ríkið lagt kringum 1 millj. kr. af mörkum til þessara mannvirkja. En áður hefir verið bent á, að síðustu 10 árin hefir ríkið uppskorið nærri 4 millj. kr. í Vestmannaeyjum í beinum tekjum. Ég get því sagt hv. þm. það, að ef hann og hans flokkur vill gefa okkur Eyjamönnum fullt og óskorað sjálfsforræði í fjármálum, þá myndum við ekki þurfa að vera neitt upp á ríkið komnir í þeim efnum, og gætum á eigin spýtur staðið straum af þessum mannvirkjum öllum. Hv. þm. ætti ekki að brýna okkur með því, að við séum ómagar á ríkissjóðnum, því ef svo er, þá held ég, að fleiri gætu talizt það með ekki minna rétti. Ég skal ekki að þessu sinni fara út í frekari héraðasamjöfnuð í þessum efnum, en mitt kjördæmi mun þó standast allan slíkan samanburð.

Þá óttaðist hv. þm., að samþykkt þessara heimildarlaga muni hafa það í för með sér, að hlutaðeigendur muni ekki linna látum fyrr en þeir fengju fjárframlögin tekin upp í fjárl. og mannvirkjunum hrundið í framkvæmd. Já, það væri óttalegt! Ég get trúað, að hv. þm. finnist það ekki glæsileg tilhugsun, að bráðlega yrðu byggðar hafnir á Sauðárkróki, Dalvík og jafnvel víðar! Og það er von, að honum ói við því, að Akranes fengi ef til vill hafnarbætur, og svo kannske hvert kauptúnið á fætur öðru! Hvílík óbærileg tilhugsun'. Ég get kennt í brjósti um þennan hv. þm., að hann skuli þurfa að horfa fram á þá tíma, að hafnarmálefnum vorum væri komið í dálítið betra horf en nú er. — Nei, það eru ekki þessar raddir smásmuglegra og þröngsýnna manna, sem eiga tilverurétt með sjálfstæðri og frjálsborinni þjóð. Það þarf að kveða niður þennan kotungsanda, sem ávallt rís til mótstöðu sérhverjum framkvæmdum og reynir að bregða fæti fyrir framgang nytsamra mála. Það hefir verið bent svo sterklega á nauðsyn þessara hafnarbóta á landi hér, að engin skynsamleg rök verða færð gegn. Því er gripið til þess óyndisúrræðis að reyna að vekja tortryggni og vantraust á hlutaðeigandi héruðum um það, að þau muni ekki geta staðið við skuldbindingar sínar. Ég ætla nú ekki orðum að eyða um þá firru, því að engin héruð munu vilja taka á sig stórar byrðar til þess eins að fá ríkisframlög til framkvæmda. Það hlýtur ávallt að vera þörfin, sem liggur til grundvallar. Það er þess vegna ástæðulaust að óttast óforsjálni héraðanna í þessum efnum, enda munu þau ekki leggja út í slík stórfyrirtæki að rasanda ráði, heldur vel yfirveguðu. Og ef forsjálni og gætni er viðhöfð í þessum efnum, þá þarf ekki að óttast nein vandræði né skakkaföll á hendur ríkinu, heldur mun það hafa í för með sér stórmikinn tekjuauka fyrir ríkið, þá er tímar líða fram. Ætti hv. þm. V.-Húnv. að geta litið óskelfdur fram á ókomna tímann, þó að eitthvað verði aðhafzt í þessum sökum.